Ástralía: Roadtrip frá Brisbane til Sydney

Áður en við lögðum af stað í þetta skemmtilega ferðalag okkar tókum við þá ákvörðun að leigja húsbíl og keyra austurströnd Ástralíu eins og hún leggur sig. Þrátt fyrir að vera meðvituð um stærð landsins gerðum við okkur í raun og veru ekki grein fyrir hversu gríðarmiklar vegalengdirnar eru þarna og vanmátum þar af leiðandi þann tíma sem við þyrftum í slíkt roadtrip. Við sáum því fram á að þurfa að keyra dag og nótt með stoppum sem jöfnuðust aðeins á við pissustopp til að halda áætlun. Við tókuð því þá erfiðu ákvörðun að slaufa hluta austurstrandarinnar og bókuðum flug til Brisbane frá Cairns. Þar sem Ástralíuför okkar hófst í Brisbane fannst okkur ekkert vit í að stoppa þar í annað sinn og hoppuðum því beint upp í lest við lendingu sem flutti okkur til Gullnu strandarinnar, nánar tiltekið til Surfers Paradise. Líkt og nafn svæðisins bendir til er þetta paradís brimbrettakappans og má sjá gullnar strendur eins langt og augað eygir. Surfers Paradise er jafnframt einn vinsælasti ferðamannastaður Ástralíu og fylkist fólk þangað hvaðanæva úr heiminum. Við bjuggust því við lífi og fjöri en enginn hefði þó getað undirbúið okkur fyrir það sem koma skyldi. Bærinn var troðfullur af áströlskum unglingum, eða „schoolies“, sem voru að fagna sumarfríinu sínu með margra daga djammsessioni (nokkurs konar spring break Ástralíu). Krakkarnir höfðu bókstaflega yfirtekið bæinn og uppbókað alla gistingu á svæðinu. Við gengum því milli hostela, gistiheimilla og hótela, með búslóðina á bakinu, í leit að herbergi í dágóðan tíma. Loks römbuðum við á hostel sem hafði sett aldurstakmark og tók því ekki við schoolies (okkur gamlingjunum til lukku) og vorum við svo heppin að fá þar inni. Þar var fjölmennasta dormið sem við höfðum gist í hingað til og innihélt það heilar 10 kojur, rúmpláss fyrir 20 manns, takk kærlega fyrir.

Við stoppuðum frekar stutt í Surfers Paradise en náðum þó að skoða bæinn, kíkja á ströndina og fara í bíó. Við eyddum líka töluverðum tíma í að finna hentugan húsbíl, sem kostaði ekki aðra höndina af okkur öllum. Það hófst að lokum og bókuðum við einn flottan frá fyrirtækinu Britz og sóttum hann í grennd við Byron Bay daginn eftir. Bíllinn var skírður Kári og átti hann eftir að vera heimili okkar næstu vikuna.

Það væri lýgi að segja að við höfum öll verið sultuslök þegar við beygðum Kára út af plani bílaleigunnar. Allt í einu vorum við stödd í húsbílaflykki, hinu megin á hnettinum og þurftum að fara að keyra öfugu megin á veginum. Sem betur fer var bíllinn sjálfskiptur og gat bílstjórinn því einbeitt sér að því að halda sér á réttum vegarhelmingi í stað þess að þurfa að vera að skipta á milli gíra í leiðinni. Aksturinn gekk eins og í sögu og það var ekki fyrr en við komum til Byron Bay að þessir undarlegu aksturshættir Ástrala fóru að segja til sín. Nú þurftum við að vera meðvituð um aðra bílstjóra, sem keyrðu einnig öfugu megin og komu því að okkur úr fáránlegum áttum, og við tölum nú ekki um hringtorgin! Að keyra öfugt inn í hringtorg og að keyra öfugt úr úr hringtorgi er hið undarlegasta mál. Aksturshættirnir vöndust þó fljótlega og má segja að við urðum öll svakalega sjóuð í því að keyra svona öfugt.

Við ákváðum að stoppa yfir nótt í Byron Bay og keyrðum spennt um bæinn til að finna hentugan stað til að leggja Kára. Fljótlega fóru að renna á okkur tvær grímur og fórum við að efast um þá stórgóðu hugmynd okkar að gista í húsbíl til að spara gistikostnað. Hvert sem við fórum mátti sjá skilti þar sem stóð „no camping“ og mátti sjá glitta í lögreglumenn hér og þar sem voru tilbúnir með skrifblokkirnar sínar og sektarmiðana. Við ákváðum því að rúlla í miðjan bæinn og borga okkur inn á tjaldstæði þessa fyrstu nótt. Verðið á plássinu jafnaðist þó á við gistingu á fimm stjörnu hóteli í Asíu og borguðum við með tárin í augunum. Við gátum þó huggað okkur við að við kæmumst þó í sturtu og að við þyrftum hvort eð er að komast í rafmagn til að hlaða bílinn.

Í Byron röltum við um bæinn sem var krúttlegur og skemmtilegur, grilluðum hamborgara og kynntumst furðulegum Áströlum á tjaldsvæðinu sem voru greinilega búnir að fá sér aðeins of mikið í litlu tána og höfðu þann furðulega kjæk að endurtaka alltaf síðasta orðið í setningunni þrisvar sinnum. Þeir sögðu okkur t.d. ofur steiktar sögur af svaðilförum sínum og enduðu frásögnina á „that was so funny, funny, funny“. Öðrum fylliraftinum leist mjög vel á Maríu og var hún svo heppin að fá bónorð stuttu eftir kynni þeirra. Hún afþakkaði þó pent og tók ekki þá afdrifaríku ákvörðun að verða eftir á tjaldstæðinu í Byron.

Fyrsta nóttin í Kára gekk vonum framar og sváfu allir sínu værasta alla nóttina og meira að segja aðeins lengur en ætlunin var. Þegar tvær mínútur voru í að við ættum að vera farin út af tjaldstæðinu (eða eiga á hættu að vera rukkuð fyrir aðra rándýra nótt) sáum við áttfættan og loðinn laumufarþega skjóta sér inn í bílinn. Engum líkaði vel við nýjasta farþegann en þar sem tíminn var að renna út neyddumst við til að fara inn í bílinn og keyra honum út fyrir hliðið. Við vorum ekki fyrr komin út fyrir hliðið þegar við stukkum öll út, eipandi af hrolli. Köngulóinni var svo ýtt út með mjög löngu priki og héldum við för okkar áfram án hennar.

Við ákváðum að rúlla við hjá vitanum í Byron (Cape Byron Lighthouse) en hann stendur á austasta tanga Ástralíu. Vitinn stendur á kletti og gnæfir yfir umhverfi sitt sem er ótrúlega fallegt. Búið er að gera slóða umhverfis vitann og niður að sjó og var virkilega gaman að ganga þar um. Við klifruðum því niður einhverjar tröppur og hættum okkur út á kletti sem sjórinn skall á í þeim tilgangi að ná skemmtilegum myndum. Við fórum þó misvarlega og náði Steinar að slasa sig í klettunum við myndatökurnar. Hann gekk því um með blóðuga hendi þar til hjálpsöm kona dró plástur upp úr veskinu sínu og lappaði upp á drenginn.

Við höfðum kynnst nokkrum Áströlum á meðan dvöl okkar í Indónesíu stóð yfir og mælti einn þeirra með því að við myndum keyra að Minyon Falls í Nighcap þjóðgarðinum. Við ákváðum að taka ráðleggingum hans og brunuðum beinustu leið inn í landið á fund fossins. Kári naut sín á þjóðvegum landsins og komst alveg upp í 120 km/klst áður en hann fór að hristast og skjálfa. Við reyndum því að halda okkur innan hristihraða og flugum um vegi landsins syngjandi glöð. Við getum þó seint sagt að Kári hafi verið lítill og nettur og miðað við þá litlu bíla sem við erum vön að keyra á heimaslóðum fannst okkur eins og hann passaði bara rétt innan línanna á veginum. Það var þó ekki fyrr en við komum á minni vegi sem aksturinn fór að vera erfiður og við þurftum að leggja okkur öll fram við að fara okkur ekki að voða. Hluti leiðarinnar að Nighcap þjóðgarðinum er þröngur malarvegur og stukku hjörtu okkar beint niðrí brækurnar í hvert sinn sem við mættum bíl. Hvernig í ósköpunum átti feitur húsbíll að ná að mæta öðrum bíl á vegi sem leit út eins og einstefnuvegur í Reykjavík án þess að rekast á hann? Við komum okkur því upp mjög góðu systemi þar sem aðstoðarbílstjórinn hékk út um hliðargluggann og leiðbeindi aðalbílstjóranum í akstri. Aðstoðarbílstjórinn sá semsagt um að aðalbílstjórinn myndi keyra eins nálægt brúninni og hægt væri, án þess að velta bílnum niður brekkurnar sem voru að sjálfsögðu beggja vegna vegarins. Þetta system gekk frábærlega upp og komumst við allar leiðir okkar svona.

Við höfðum heyrt af helsta hippabæ Ástralíu, Nimbin, og gátum ekki með nokkru móti sleppt því að koma þar við. Nimbin hefur verið lýst sem „dóphöfuðborg Ástralíu“ og er hægt að kaupa cannabis, sem ræktað er á svæðinu, inni á kaffihúsum og úti á götu, fyrir opnum tjöldum. Við stóðum til að mynda fyrir framan búðaklasa þegar vel freðinn bæjarbúi gekk að okkur og bauð okkur að kaupa gras. Við afþökkuðum pent og hann labbaði í burtu. Nokkrum mínútum seinna kom kauði aftur og bauð okkur að gera sömu kostakaup. Við afþökkuðum aftur og hann labbaði aftur í burtu. Þegar hann birtist svo í þriðja sinn föttuðum við að hann var hreinlega búinn að gleyma því að hann væri búinn að bjóða okkur grasið og að þetta myndi líklega halda svona áfram næstu tímana. Við afþökkuðum því aftur og ákváðum að færa okkur um set til að flýja þessa gullfiskalegu atburðarrás.

Eins og búist var við er Nimbin mjög afslappaður bær og var gaman að ganga þar um og skoða öll litríku húsin og búðirnar sem voru svo skemmtilega öðruvísi en við höfum vanist.

Líkt og áður hefur komið fram var hægara sagt en gert að finna stað til að leggja húsbílnum yfir nóttu sem kostaði ekki nýru og lungu. Við stunduðum því það að rúnta um í myrkrinu og finna ótrúlegustu staði til að parkera honum. Einn af fyrstu stöðunum sem við lögðu Kára á yfir nóttu var á bílastæði við leikvöll sem staðsettur var rétt fyrir utan hverfi með fullt af hálfkláruðum húsum. Það var því lítið um að fólk væri á ferli og vorum við nokkuð viss um að við hefðum fundið góðan stað og að lögreglan myndi ekki banka upp á og reka okkur í burtu. Við sváfum værum blundi alla nóttina og vorum enn í fastasvefni þegar hróp og köll voru farin að ýta sér inn í draumaheim okkar. Fyrir utan bílinn var hópur kvenna, hoppandi og skoppandi í miðjum bootcamp tíma. Ferðalangarnir fjórir gátu ekki hugsað sér að láta sjá til sín og drógu því betur fyrir gluggatjöldin og fóru ekki fyrr en þessar íþróttahúsmæður voru horfnar til síns heima. Burt séð frá vakningarópunum völdum við frábæran stað til að parkera á þessa fyrstu nótt, Við leikvöllin voru úti sturtur og gátum við skolað af okkur mesta ferðarykið. Við tókum svo smá göngutúr út frá leikvellinum og römbuðum á ótrúlega fallega og mannlausa strönd sem kallast Sapphire Beach.

Eftir að hafa leikið okkur á Sapphire Beach, tekið myndir og séð höfrunga ákváðum við að keyra inn í næsta bæ, Coffs Harbour, til að fara á kameldýrabak á ströndinni þar. Eva hélt þó sínum nískuhætti áfram og ákvað að sleppa að skella sér á bak því hún hafði farið áður. Hún lét sér því duga að knúsa dýrin og taka myndir af knöpunum þremur sem skemmtu sér stórvel.

Næsti áfangastaður var Dorrigo þjóðgarðurinn sem er afar fallegur regnskógur sem frægur er fyrir fjölskrúðugt fuglalíf. Á leið okkar þangað skoðuðum við fossana Newell Falls, Sherrard Falls og Dangar Falls. Þjóðgarðurinn er víst afskaplega vinsæll hjá göngufólki og eru skemmtilegar gönguleiðir sem gerir fólki kleift að komast nær dýralífinu og leiðir það fram hjá nokkrum fossum. Við fórum ekki langt inn í skóginn en tókum stuttan hring og gengum yfir göngubrú sem gefur gott útsýni yfir garðinn.

Við vorum lítið búin að plana hvað við ætluðum að skoða í þessu vegahoppi okkar og ákváðum næsta áfangastað í raun um leið og við keyrðum frá þeim síðasta. Við rötuðum að sjálfsögðu ekki neitt og áttum það til að að enda á öðrum stað en við ætluðum upprunalega. Við studdumst við kort og ef við sáum eitthvað sem leit út fyrir að vera spennandi bær eða kennileiti keyrðum við beinustu leið þangað. Við lögðumst því ekki í rannsóknarvinnu né eyddum tíma í að meta hvort það væri góð ákvörðun að fara til  Newcastle þegar við sáum það nafn á kortinu. Við bara brunuðum af stað og trúðum ekki öðru en borgin væri stútfull af afþreyingu og náttúrufegurð. Við veðjuðum þó á rangan hest í þetta skiptið og enduðum í borg sem okkur þótti vera heldur ómerkileg. Lítið var um að vera og eyddum við óendanlega löngum tíma í að finna miðbæinn sem reyndist svo ekki vera til. Stoppið varð því stutt en við gáfum okkur þó tíma í að rúnta um borgina endilanga og skoða Bogey Hole sem er sjávarlaug sem er á heimsminjaskrá áður en við brunum aftur úr henni. Við ákváðum þó að fara ekki ofan í laugina í þetta skiptið og létum okkur duga að horfa bara á hana frá bakkanum.

Eftir stoppið í Newcastle áttum við í nokkrum vandræðum með að finna gististað. Við keyrðum út og suður í nokkra klukkutíma og villtumst m.a. inn í smábæ sem var yfirfulllur af kengúrum. Það var virkilega skrítið að sjá kengúrur hoppandi milli húsa og þar sem við sáum engar mannverur leið okkur dálítið eins og við værum í apocalypse mynd þar sem kengúrur væru búnar að ná yfirráðum. Augljóslega enduðum við ekki á að gista í þessum bæ heldur fundum við bílastæði við lestarstöð sem uppfyllti allar okkar kröfur. Aðrir staðir sem við lögðum honum Kára á yfir nóttu á voru bílastæði við skólalóð, bílastæði sundlaugar og við golfklúbb.

Svakalegasta akstursminning okkar tengist klárlega komu okkar til stórborgarinnar Sydney. Við ætluðum rétt að keyra þar í gegn á leið okkar upp í Blue Mountains en ílengdumst örlítið. Áslaug var svo heppin að vera við stýrið í það skiptið og mátti hún hafa sig alla við til að koma okkur heilu að höldnu út úr borginni. Umferðin í Sydney er svakaleg og enduðum við á að keyrða í hringi því við hreinlega rötuðum ekki út úr borginni. GPS tækið okkar koksaði og lét okkur keyra fram og til baka í gegnum göng með vegatollum því það náði ekki að staðsetja okkur á þriggja hæða hraðbrautinni. Við komumst þó út úr klikkuninni að lokum með nokkrar vegatollsrukkanir á bakinu.

Við komum því seinna en við ætluðum á leiðarenda og náðum ekki að sjá alveg jafn mikið og við ætluðum. Blue Mountains er 11.400 km2 fjallgarður sem býr yfir mikilli náttúrufegurð. Á leið okkar þar um fórum við í útskýniskláf þar sem við sáum Wentworth Falls, Katoomba Falls, Echo Point, Leaura Cascades og fræga kletta sem kallast Systurnar þrjár. Innfæddir segja að þrjár systur (Meehni, Wimlah og Gunnedoo) hafi orðnar ástfangnar af mönnum úr öðrum ættbálki en þeirra eigin, en lög ættbálks þeirra bönnuðu þeim að giftast. Bræðurnir sættu sig ekki við þessi lög og ákváðu að hneppa þær í ánauð. Þá brutust út átök milli ættbálkanna tveggja og systrunum var breytt í stein í þeim tilgangi að vernda þær. Sá sem breytti þeim var aftur á móti drepinn í bardaganum og engum tókst að breyta þeim til baka. Hversu mikið er til í þessari sögu getum við ekki sagt til um en klettarnir voru aftur á móti mikilfenglegir, eins og allt svæðið þar í kring.

Við eyddum einni viku í honum Kára okkar og upplifðum ótal margt á þeim tíma. Stelpurnar voru komnar með gott af þessu húsbílalífi eftir vikudvöl og þráðu fátt heitar en að fá að komast í almennilega sturtu og alvöru rúm. Steinar var hins vegar alsæll með húsbílalífið og skilaði bílnum með miklum söknuði. Hann hefði klárlega verið til í að eyða fleiri vikum í bílnum og má með sanni segja að hann hafi fundið húsbílamanninn í sér, sem stelpunum tókst ekki alveg.

Næst brunuðum við inn í Sydney í annað sinn til að sækja fimmta ferðafélagan sem var að fara að bætast í hópinn og skila Kára.

Ástralía: Brisbane og Cairns

Við lentum að morgni til í Brisbane eftir langt og strangt ferðalag frá Bali þar sem við misstum næstum því að tengifluginu okkar til Ástralíu. Þar sem bakpokarnir okkar voru ekki svo heppnir að missa bara næstum því að fluginu fengum við 100 dollara skaðabætur á mann frá flugfélaginu auk overnight bag sem innihélt helstu hreinlætisvörur og afar fallegan hvítan stuttermabol. Fátæku ferðalangarnir hoppuðu því hæð sína af gleði þegar þeir fengu peningana í hendurnar og sáu fram á að geta lifað vel og hátt næstu dagana í boði Singapore Airlines. Eva var þó ekki lengi í paradís og gufuðu peningarnir upp um leið og við gengum út úr flugstöðinni, nú vorum við greinilega komin í hinn vestræna heim þar sem vatnsflaskan kostaði það sama og heill dagur í Asíulöndunum.

Stoppið í Brisbane var þó afskaplega stutt þar sem við áttum bókað flug, beint á ströndina í Cairns, næsta dag. Þetta stutta stopp reyndist þó vera hentugt þar sem við komumst fljótt að því að við höfðum asnast til að bóka okkur inn á áfengislaust hostel, en bakpokaferðalangar eins og við þurfa nú að fá bjórinn sinn. Við höfðum því ekkert að sækja heim á hostelið og eyddum þessum tæpa sólarhring í að rölta um Brisbane. Við sáum ýmislegt í borginni og römbuðum m.a. á kvöldmarkað þar sem Áslaug gerði fyrstu seglakaup Ástralíu sigri hrósandi og grófum tærnar í sandinn á manngerðri strönd sem staðsett er í miðri borginni.

 

Leiðir ferðalanganna fjögurra skildu við lendingu í Cains þar sem Steinar og María höfðu bókað sig á Hilton Hótel til að fagna sambandsafmæli sínu en Áslaug og Eva héldu sig við dormið á nokkurra dollara hosteli. Parið hafði nokkrar áhyggjur af því að uppáklæddir hótelstarfsmenn myndu meina þessum hálfskítugu, berfættu bakpokaferðalöngum aðgang að lúxus dvölinni og skellti María því hliðarólinni á bakpokann sinn til að villa um fyrir þeim. Það svínvirkaði líka og eyddu María og Steinar næsta sólahringnum í pöddulausu, hreinu herbergi þar sem þau pöntuðu sér herbergisþjónustu og lágu með tærnar upp í loft á tandurhreinu rúmi.

Áslaug og Eva voru nokkuð lukkulegar með hostelið sitt því þar fengu þær svokallaða matarmiða sem reyndust vel í sparnaðarátaki þeirra. Þær hoppuðu því beint upp í ókeypis skutlu sem rúllaði með þær beinustu leið niður í bæ. Þegar komið var á barinn sem tók við matarmiðunum þurftu þær að fara í röð með fjölda fólks til að fá afgreitt spaghetti út um litla lúgu. Það var ágætis fangelsis fílingur yfir þessu öllu saman og maturinn var ekkert til að hrópa húrra yfir, en hey þetta var ókeypis.

María og Steinar mættu svo á hostelið þegar sólahringsdvöl þeirra á Hilton hótelinu var lokið. Það má því segja að þeirra lúxus hafi verið nokkuð skammvinnur og var fall þeira frá kampavíni og humri á silfurdisk í bjór og spaghetti á bakka nokkuð hátt.

Carins er staðsett afar nálægt miðbaug og er loftslagið klárlega í takt við það. Veðrið er hlýtt og sólríkt allt árið og er Queensland, fylkið sem Cairns er í, stundum kallað sólskinsfylkið. Það ætti því ekki að koma neinum á óvart að staðalbúnaður okkar þessa daga sem við dvöldum í Carins var stuttbuxur og sundföt. Vegna brennheitrar sólar og mikils hita greip okkur löngun til að stökkva í sjóinn í tíma og ótíma til að kæla okkur niður. Við föllum þó ekki undir hatt heimska túristans og vorum búin að kynna okkur svæðið sem við vorum á og létum því ekki undan lönguninni. Það er nefnilega bannað að fara í sjóinn við Cairns, nema í þar til gerðum galla, vegna eitraðra marglytta (box jellyfish) sem þar bíða manns. En sem betur fer hafa Cairns búar fundið lausn á þessari kæliþörf og komið upp ágætis lóni við sjóinn (Cairns Esplanade). Þar eyddum við því dágóðum stundum og flatmöguðum í og við lónið í von um að ná húð okkar enn dekkri.

Við brölluðum annars ýmislegt á stuttri dvöl okkar í Cairns. Áslaug, María og Steinar fóru t.d í BBQ og snákasýningu á næsta hosteli þar sem þau voru frædd um öll eitruðu skordýrin sem finna má í Ástralíu og fengu að halda á snák. Eva var hins vegar á toppi nísku sinnar á þessari stundu og týmdi ekki að borga nokkra dollara í grill þegar hún gat nýtt sér matarmiðana góðu og fór hún því á „fangelsis“barinn með hollenskum herbergisfélaga.

Rétt fyrir utan Cairns má finna skemmtilegan dýragarð sem heitir Kuranda Koala Gardens og ákváðum við að skella okkur í stutta strætóferð þangað. Líkt og nafnið gefur til kynna má finna kóalabirni í þessum garði og er það helsta ástæðan fyrir því að við ákváðum að kíkja þangað því okkur langaði svo afskaplega mikið að fá að halda á einum slíkum. Stofn kóalabjörnsins er talinn vera í hættu og eru ýmiss konar lög í gildi í Ástralíu sem koma í veg fyrir að maður megi koma við þá. Það er t.d. ólöglegt að halda á kóalabirni í Viktoríufylki en ekki í Queensland og ákváðum við því að nýta tækifærið á meðan við værum stödd þar. Þrátt fyrir að það hafi klárlega verið hápunktur dýragarðsferðarinnar að fá að knúsa kóalabjörn fengum við þó líka að gefa kengúrum og wallabíum að borða, sáum krókódíla og eðlur, gengum í gegnum snákahús og spjölluðum við litríka fugla.

Helsti tilgangur Cairns ferðarinnar var án efa að fá að kafa/snorkla við Stóra kóralrifið (Great Barrier Reef) sem er 2010 km langt. Við lögðum því í leiðangur um allar helstu ferðaskrifstofur Cairns til að finna bestu, og ekki gleyma ódýrustu, ferðina. Við enduðum þann leiðangur á að kaupa ferð sem innihélt heilan dag á svakaleg flottum bát. Áslaug, Eva og Steinar ætluðu heldur betur að nýta nýfengna köfunarhæfileika sína og kafa um kóralrifið vítt og breitt. Spennan var í hámarki, allir listar útfylltir og búið var að kvitta á öll öryggisblöð þegar teppinu var kippt undan Áslaugu. Hún hafði asnast til að segja áhöfninni frá því að hún væri með háan blóðþrýsting og neituðu þeir henni því um að fá að kafa. Eftir miklar samningaviðræður, grátur og gnístan tanna högguðust þeir ekki og þurfti Áslaug að sætta sig við að snorkla eingöngu í þetta skiptið. Þrátt fyrir að vera orðin vön að stunda snorklið ein varð María nokkuð ánægð með að fá félaga í þetta skiptið. Hún náði þó ekki að njóta þess líkt og skyldi því sjóveikin heltist yfir hana þarna úti á opnu hafi. Hún lét það þó ekki stoppa sig og hoppaði út í sjóinn en fékk kóralrifið dálítið að kenna á því og getum við sagt með nokkurri vissu að það hafa ekki margir verið svo frægir að æla í kóralrifið líkt og hún.

Dvöl okkar í Cairns var afskaplega skemmtileg og gerðum við ýmsa hluti sem við munum seint gleyma. Það ferðalag sem beið okkar næst var heldur betur ólíkt lífinu sem við vorum farin að venjast og segjum við ykkur betur frá því síðar.

Indónesía

Þegar við lentum í Denpasar, Bali, var tekið að skyggja og þar sem við vorum orðin svo afskaplega spennt fyrir því að liggja á ströndum Gili eyja ákváðum við að vera ekkert að stoppa í borginni. Við hoppuðum því upp í næsta leigubíl og báðum hann um að fara með okkur á tæplega 2 klst rúnt yfir á höfnina í Padang Bai, en þaðan ætluðum við að koma okkur yfir til draumaeyjunnar Gili Trawangan. Þegar við komum til Padang Bai lentum við svo að sjálfsögðu í hringiðu sölumanna sem börðust um að bjóða okkur „besta dílinn“ í siglingu en þar sem við vorum komin með svarta beltið í ferðamennsku og höfðum engan áhuga á að lenda í sjóræningasvikurum ákváðum við að gera eins og innfæddir og fara með almennings ferjunni. Siglingin byrjaði þó ekki betur en svo að við misstum næstum því af ferjunni. Það var þó að sjálfsögðu ekki okkur að kenna heldur voru engar upplýsingar um hvaða ferja það var nákvæmlega sem við áttum að taka og hvernig við ættum að komast í hana. Við hlupum því út og suður, upp og niður stiga, fram og til baka, þangað til við komum loks að bakborða ferjunnar, þar sem bílarnir keyrðu inn. Að komast þaðan yfir á farþegarýmið reyndist ekki vera auðvelt verkefni þar sem við þurftum að príla upp á sillu og fikra okkur yfir hana, með búslóðina á bakinu og hlæjandi indónesíska áhorfendur allt um kring. Við komumst þó yfir á endanum og fundum okkur bekki þar sem við ætluðum að reyna að sofa ferðalagið af okkur. Það gekk þó eitthvað hálf brösulega því stærðarinnar kakkalakkar hlupu um allt og enduðum við því á að bylta okkur fram og til baka næstu fimm tímana.

Þegar ferjan kom að landi á nágrannaeyjunni Lombok beið okkar enn eitt verkefnið en það var að redda okkur fari yfir í annan bæ, og það um miðja nótt. Samningshæfileikar okkar náðu ekki mjög langt svona eldsnemma morguns og enduðum við því á að samþykkja mun hærra verð en við hefðum annars getað gert. Bílferðin varð heldur betur undarleg þar sem við keyrðum um óupplýsta vegi, í svarta myrkri, og rákumst á fjöldan allan af „draugum“ sem gengu í vegkantinum. Draugarnir reyndust þó vera lifandi verur, eða nánar tiltekið innfæddir sveitungar, huldir kuflum, á leið til messu.

Við komumst þó á leiðarenda þar sem síðasta vesen ferðarinnar tók við, en við áttum í stökustu vandræðum með að fá far yfir á litlu eyjuna okkar. Sölumaður bátaferðanna neitaði að selja okkur miða með innfæddum og ætlaði að pranga inn á okkur einkabát. Við neituðum því að sjálfsögðu og reyndi kauði þá að þrefalda verðið í venjulega bátinn. Eftir rökræður fram og til baka, hótanir og skammir komumst við að samkomulagi og við tróðum okkur í ofhlaðinn bát sem var stútfullur af heyi og innfæddum.

Gili Trawangan reyndist vera algjör paradísareyja og röltum við meðfram ströndinni í leit að gistingu. Fólk var alltaf að segja okkur að taka “Oscar” og fara á þennan og hinn stað en við hristum bara hausinn yfir þessari vitleysu og gengum áfram. Það leið vandræðalega langur tími þar til við uppgötvuðum loks hver þessi Oscar var en hann reyndist vera Horse car (með indónesískum framburði), en það voru engin rafknúin ökutæki á eyjunni, bara hestakerrur. Að lokum fundum við ódýra gistingu, einfalda kofa með mjög frumstæðu baðherbergi, en það var undir berum himni og samanstóð af kraftlítilli saltvatnssturtu og klósetti sem þurfti að sturta niður með aðstoð fötu og vatns.

Lífið á Gili Trawangan var afskaplega ljúft og gerðum við lítið annað en að slappa af, liggja í sólbaði, drekka bjór og borða misgóðan mat á strandveitingarstöðum.

Steinar ákvað þó fljótt að þetta letilíf hentaði honum ekki nógu vel og skellti sér á köfunarnámskeið númer tvö – Advanced Open Water Diving – og fékk í kjölfarið leyfi til að fara niður í 30 metra dýpi. Áslaug skellti sér sömuleiðis í eina köfun en Eva og María létu snorklið duga. Sjávarlífið við Gili eyjarnar var stórkostlegt og mátti sjá marglita fiska hvert sem litið var og tókum við sundtök með nokkrum sæskjaldbökum.

Gili eyjaklasinn samanstendur af þremur eyjum og kalla sumir eyjuna sem við völdum, Gili Trawangan, “partýeyjuna”. Það gefur því auga leið að við fórum í nokkur partý á meðan við vorum þarna. Skipulögð partý voru haldin annan hvern dag og vorum við líka svo heppin að Full moon partý var haldið á meðan við vorum á staðnum. Það reyndist þó vera fjarskyldur frændi tælensku Full moon partýanna þannig að við gátum ekki strikað þvílíkt partý af must do listanum.

Það sem kom okkur helst á óvart við næturlífið á Gili Trawangan var að maður gat ekki gengið um án þess að lenda í eftirfarandi samræðum:

  • Indónesískur gaur: “Pissst, viljiði sveppi?”
  • Við: “Nei takk.”
  • Indónesískur gaur: “Viljiði maríjúana?”
  • Við: “Nei takk.”
  • Indónesískur gaur: “Viljiði spítt?”
  • Við: “Nei takk.”

Í ljósi þess að dauðarefsing bíður þeirra sem eru teknir með eiturlyf í Indónesíu kom þessi auðveldi aðgangur að efnunum okkur mjög á óvart. Okkur var þó seinna sagt að þetta væri engan vegin lýsandi fyrir Indónesíu því þar sem engar löggur eru staðsettar á Gili eyjunum sjá innfæddir sér fært um að ná sér inn smá aukapening án þess að enda á höggstokknum.

Eftir að hafa eytt viku á Gili Trawangan ákváðum við halda ferðalaginu áfram og fara í lítinn bæ á Bali sem kallast Ubud. Við lögðum ekki í að fara sömu leið og síðast og borguðum því himinháa upphæð fyrir hraðbát og beint far í bæinn. Þegar þangað var komið fundum við gistiheimili sem leit ágætlega út, hentum dótinu okkar inn og röltum um þennan krúttlega bæ. Fljótlega römbuðum við á Starbucks kaffihús og fengum því fyrsta almennilega kaffibollan í langan tíma, okkur til mikillar gleði. Í Ubud fengum við líka ekta indónesískan mat og fótsnyrtingu á spotprís.

Við ákváðum að fara í fjallgöngu við sólarupprás og fórum því snemma í bólið þetta kvöld. Ágæta gistiheimilið okkar reyndist þó ekki vera svo ágætt þar sem María og Steinar komust fljótt að því að þau deildu herbergi með stærðarinnar rottum sem hlupu fram og til baka yfir stólpana í loftinu. Það var því lítið sofið þessa nótt og voru það fjórir þreyttir ferðalangar sem lögðu í næturfjallgöngu upp eldfjallið Batur. Þegar upp var komið gleymdist þreytan þó fljótt og nutum við þess að fylgjast með sólinni koma upp yfir Lombok, Mt. Agung, sem er stærsta eldfjallið á Bali, og Lake Batur.

Við enduðum Indónesíuför okkar á Bali, eða nánar tiltekið á Kuta beach sem reyndist vera nokkurs konar Benidorm Indónesíu. Þar eyddum við mestum tíma okkar á ströndinni og létum langþráðan draum rætast og gerðumst brimbrettakappar.

Eftir yndislega 11 daga í Indónesíu var kominn tími til að kveðja Asíu og fljúga til Ástralíu. Flugleiðin var heldur skrítin þar sem við þurftum að  fljúga til Singapore og taka flug þaðan til Brisbane. Þegar við vorum að bíða eftir að fá að ganga um borð fengum við upplýsingar um að fluginu til Singapore myndi seinka þar sem það þyrfti að loka flughelginni yfir Bali því Barack Obama, Bandaríkjaforseti, var að koma til Indónesíu. Við komum því allt of seint til Singapore og sáum fram á að missa af tengifluginu okkar. Við vorum því eiginlega búin að sætta okkur við að eyða næstu tímunum á flugvellinum og gengum því út úr vélinni í stökustu rólegheitum. Fljótt heyrðum við þó einhvern vera að hrópa nöfnin okkar en það reyndist vera starfsmaður Singapore flugvallar sem ætlaði að koma okkur í Brisbane vélina sem var að bíða eftir okkur. Við þurftum því að klæða okkur úr flip flop skónum og hlaupa um ganga flugvallarins og beint upp í lítinn flugvallarbíl sem brunaði um gangana með okkur. Vegna kappaksturshæfileika starfsmannsins og spretthæfileika okkar, náðum við vélinni og lögðum af stað til Ástralíu. Hið sama var þó ekki hægt að segja um farangurinn okkar, en það er önnur saga…