Ástralía: Brisbane og Cairns

Við lentum að morgni til í Brisbane eftir langt og strangt ferðalag frá Bali þar sem við misstum næstum því að tengifluginu okkar til Ástralíu. Þar sem bakpokarnir okkar voru ekki svo heppnir að missa bara næstum því að fluginu fengum við 100 dollara skaðabætur á mann frá flugfélaginu auk overnight bag sem innihélt helstu hreinlætisvörur og afar fallegan hvítan stuttermabol. Fátæku ferðalangarnir hoppuðu því hæð sína af gleði þegar þeir fengu peningana í hendurnar og sáu fram á að geta lifað vel og hátt næstu dagana í boði Singapore Airlines. Eva var þó ekki lengi í paradís og gufuðu peningarnir upp um leið og við gengum út úr flugstöðinni, nú vorum við greinilega komin í hinn vestræna heim þar sem vatnsflaskan kostaði það sama og heill dagur í Asíulöndunum.

Stoppið í Brisbane var þó afskaplega stutt þar sem við áttum bókað flug, beint á ströndina í Cairns, næsta dag. Þetta stutta stopp reyndist þó vera hentugt þar sem við komumst fljótt að því að við höfðum asnast til að bóka okkur inn á áfengislaust hostel, en bakpokaferðalangar eins og við þurfa nú að fá bjórinn sinn. Við höfðum því ekkert að sækja heim á hostelið og eyddum þessum tæpa sólarhring í að rölta um Brisbane. Við sáum ýmislegt í borginni og römbuðum m.a. á kvöldmarkað þar sem Áslaug gerði fyrstu seglakaup Ástralíu sigri hrósandi og grófum tærnar í sandinn á manngerðri strönd sem staðsett er í miðri borginni.

 

Leiðir ferðalanganna fjögurra skildu við lendingu í Cains þar sem Steinar og María höfðu bókað sig á Hilton Hótel til að fagna sambandsafmæli sínu en Áslaug og Eva héldu sig við dormið á nokkurra dollara hosteli. Parið hafði nokkrar áhyggjur af því að uppáklæddir hótelstarfsmenn myndu meina þessum hálfskítugu, berfættu bakpokaferðalöngum aðgang að lúxus dvölinni og skellti María því hliðarólinni á bakpokann sinn til að villa um fyrir þeim. Það svínvirkaði líka og eyddu María og Steinar næsta sólahringnum í pöddulausu, hreinu herbergi þar sem þau pöntuðu sér herbergisþjónustu og lágu með tærnar upp í loft á tandurhreinu rúmi.

Áslaug og Eva voru nokkuð lukkulegar með hostelið sitt því þar fengu þær svokallaða matarmiða sem reyndust vel í sparnaðarátaki þeirra. Þær hoppuðu því beint upp í ókeypis skutlu sem rúllaði með þær beinustu leið niður í bæ. Þegar komið var á barinn sem tók við matarmiðunum þurftu þær að fara í röð með fjölda fólks til að fá afgreitt spaghetti út um litla lúgu. Það var ágætis fangelsis fílingur yfir þessu öllu saman og maturinn var ekkert til að hrópa húrra yfir, en hey þetta var ókeypis.

María og Steinar mættu svo á hostelið þegar sólahringsdvöl þeirra á Hilton hótelinu var lokið. Það má því segja að þeirra lúxus hafi verið nokkuð skammvinnur og var fall þeira frá kampavíni og humri á silfurdisk í bjór og spaghetti á bakka nokkuð hátt.

Carins er staðsett afar nálægt miðbaug og er loftslagið klárlega í takt við það. Veðrið er hlýtt og sólríkt allt árið og er Queensland, fylkið sem Cairns er í, stundum kallað sólskinsfylkið. Það ætti því ekki að koma neinum á óvart að staðalbúnaður okkar þessa daga sem við dvöldum í Carins var stuttbuxur og sundföt. Vegna brennheitrar sólar og mikils hita greip okkur löngun til að stökkva í sjóinn í tíma og ótíma til að kæla okkur niður. Við föllum þó ekki undir hatt heimska túristans og vorum búin að kynna okkur svæðið sem við vorum á og létum því ekki undan lönguninni. Það er nefnilega bannað að fara í sjóinn við Cairns, nema í þar til gerðum galla, vegna eitraðra marglytta (box jellyfish) sem þar bíða manns. En sem betur fer hafa Cairns búar fundið lausn á þessari kæliþörf og komið upp ágætis lóni við sjóinn (Cairns Esplanade). Þar eyddum við því dágóðum stundum og flatmöguðum í og við lónið í von um að ná húð okkar enn dekkri.

Við brölluðum annars ýmislegt á stuttri dvöl okkar í Cairns. Áslaug, María og Steinar fóru t.d í BBQ og snákasýningu á næsta hosteli þar sem þau voru frædd um öll eitruðu skordýrin sem finna má í Ástralíu og fengu að halda á snák. Eva var hins vegar á toppi nísku sinnar á þessari stundu og týmdi ekki að borga nokkra dollara í grill þegar hún gat nýtt sér matarmiðana góðu og fór hún því á „fangelsis“barinn með hollenskum herbergisfélaga.

Rétt fyrir utan Cairns má finna skemmtilegan dýragarð sem heitir Kuranda Koala Gardens og ákváðum við að skella okkur í stutta strætóferð þangað. Líkt og nafnið gefur til kynna má finna kóalabirni í þessum garði og er það helsta ástæðan fyrir því að við ákváðum að kíkja þangað því okkur langaði svo afskaplega mikið að fá að halda á einum slíkum. Stofn kóalabjörnsins er talinn vera í hættu og eru ýmiss konar lög í gildi í Ástralíu sem koma í veg fyrir að maður megi koma við þá. Það er t.d. ólöglegt að halda á kóalabirni í Viktoríufylki en ekki í Queensland og ákváðum við því að nýta tækifærið á meðan við værum stödd þar. Þrátt fyrir að það hafi klárlega verið hápunktur dýragarðsferðarinnar að fá að knúsa kóalabjörn fengum við þó líka að gefa kengúrum og wallabíum að borða, sáum krókódíla og eðlur, gengum í gegnum snákahús og spjölluðum við litríka fugla.

Helsti tilgangur Cairns ferðarinnar var án efa að fá að kafa/snorkla við Stóra kóralrifið (Great Barrier Reef) sem er 2010 km langt. Við lögðum því í leiðangur um allar helstu ferðaskrifstofur Cairns til að finna bestu, og ekki gleyma ódýrustu, ferðina. Við enduðum þann leiðangur á að kaupa ferð sem innihélt heilan dag á svakaleg flottum bát. Áslaug, Eva og Steinar ætluðu heldur betur að nýta nýfengna köfunarhæfileika sína og kafa um kóralrifið vítt og breitt. Spennan var í hámarki, allir listar útfylltir og búið var að kvitta á öll öryggisblöð þegar teppinu var kippt undan Áslaugu. Hún hafði asnast til að segja áhöfninni frá því að hún væri með háan blóðþrýsting og neituðu þeir henni því um að fá að kafa. Eftir miklar samningaviðræður, grátur og gnístan tanna högguðust þeir ekki og þurfti Áslaug að sætta sig við að snorkla eingöngu í þetta skiptið. Þrátt fyrir að vera orðin vön að stunda snorklið ein varð María nokkuð ánægð með að fá félaga í þetta skiptið. Hún náði þó ekki að njóta þess líkt og skyldi því sjóveikin heltist yfir hana þarna úti á opnu hafi. Hún lét það þó ekki stoppa sig og hoppaði út í sjóinn en fékk kóralrifið dálítið að kenna á því og getum við sagt með nokkurri vissu að það hafa ekki margir verið svo frægir að æla í kóralrifið líkt og hún.

Dvöl okkar í Cairns var afskaplega skemmtileg og gerðum við ýmsa hluti sem við munum seint gleyma. Það ferðalag sem beið okkar næst var heldur betur ólíkt lífinu sem við vorum farin að venjast og segjum við ykkur betur frá því síðar.

Leave a Reply

Your email address will not be published.