Ástralía: Roadtrip frá Brisbane til Sydney

Áður en við lögðum af stað í þetta skemmtilega ferðalag okkar tókum við þá ákvörðun að leigja húsbíl og keyra austurströnd Ástralíu eins og hún leggur sig. Þrátt fyrir að vera meðvituð um stærð landsins gerðum við okkur í raun og veru ekki grein fyrir hversu gríðarmiklar vegalengdirnar eru þarna og vanmátum þar af leiðandi þann tíma sem við þyrftum í slíkt roadtrip. Við sáum því fram á að þurfa að keyra dag og nótt með stoppum sem jöfnuðust aðeins á við pissustopp til að halda áætlun. Við tókuð því þá erfiðu ákvörðun að slaufa hluta austurstrandarinnar og bókuðum flug til Brisbane frá Cairns. Þar sem Ástralíuför okkar hófst í Brisbane fannst okkur ekkert vit í að stoppa þar í annað sinn og hoppuðum því beint upp í lest við lendingu sem flutti okkur til Gullnu strandarinnar, nánar tiltekið til Surfers Paradise. Líkt og nafn svæðisins bendir til er þetta paradís brimbrettakappans og má sjá gullnar strendur eins langt og augað eygir. Surfers Paradise er jafnframt einn vinsælasti ferðamannastaður Ástralíu og fylkist fólk þangað hvaðanæva úr heiminum. Við bjuggust því við lífi og fjöri en enginn hefði þó getað undirbúið okkur fyrir það sem koma skyldi. Bærinn var troðfullur af áströlskum unglingum, eða „schoolies“, sem voru að fagna sumarfríinu sínu með margra daga djammsessioni (nokkurs konar spring break Ástralíu). Krakkarnir höfðu bókstaflega yfirtekið bæinn og uppbókað alla gistingu á svæðinu. Við gengum því milli hostela, gistiheimilla og hótela, með búslóðina á bakinu, í leit að herbergi í dágóðan tíma. Loks römbuðum við á hostel sem hafði sett aldurstakmark og tók því ekki við schoolies (okkur gamlingjunum til lukku) og vorum við svo heppin að fá þar inni. Þar var fjölmennasta dormið sem við höfðum gist í hingað til og innihélt það heilar 10 kojur, rúmpláss fyrir 20 manns, takk kærlega fyrir.

Við stoppuðum frekar stutt í Surfers Paradise en náðum þó að skoða bæinn, kíkja á ströndina og fara í bíó. Við eyddum líka töluverðum tíma í að finna hentugan húsbíl, sem kostaði ekki aðra höndina af okkur öllum. Það hófst að lokum og bókuðum við einn flottan frá fyrirtækinu Britz og sóttum hann í grennd við Byron Bay daginn eftir. Bíllinn var skírður Kári og átti hann eftir að vera heimili okkar næstu vikuna.

Það væri lýgi að segja að við höfum öll verið sultuslök þegar við beygðum Kára út af plani bílaleigunnar. Allt í einu vorum við stödd í húsbílaflykki, hinu megin á hnettinum og þurftum að fara að keyra öfugu megin á veginum. Sem betur fer var bíllinn sjálfskiptur og gat bílstjórinn því einbeitt sér að því að halda sér á réttum vegarhelmingi í stað þess að þurfa að vera að skipta á milli gíra í leiðinni. Aksturinn gekk eins og í sögu og það var ekki fyrr en við komum til Byron Bay að þessir undarlegu aksturshættir Ástrala fóru að segja til sín. Nú þurftum við að vera meðvituð um aðra bílstjóra, sem keyrðu einnig öfugu megin og komu því að okkur úr fáránlegum áttum, og við tölum nú ekki um hringtorgin! Að keyra öfugt inn í hringtorg og að keyra öfugt úr úr hringtorgi er hið undarlegasta mál. Aksturshættirnir vöndust þó fljótlega og má segja að við urðum öll svakalega sjóuð í því að keyra svona öfugt.

Við ákváðum að stoppa yfir nótt í Byron Bay og keyrðum spennt um bæinn til að finna hentugan stað til að leggja Kára. Fljótlega fóru að renna á okkur tvær grímur og fórum við að efast um þá stórgóðu hugmynd okkar að gista í húsbíl til að spara gistikostnað. Hvert sem við fórum mátti sjá skilti þar sem stóð „no camping“ og mátti sjá glitta í lögreglumenn hér og þar sem voru tilbúnir með skrifblokkirnar sínar og sektarmiðana. Við ákváðum því að rúlla í miðjan bæinn og borga okkur inn á tjaldstæði þessa fyrstu nótt. Verðið á plássinu jafnaðist þó á við gistingu á fimm stjörnu hóteli í Asíu og borguðum við með tárin í augunum. Við gátum þó huggað okkur við að við kæmumst þó í sturtu og að við þyrftum hvort eð er að komast í rafmagn til að hlaða bílinn.

Í Byron röltum við um bæinn sem var krúttlegur og skemmtilegur, grilluðum hamborgara og kynntumst furðulegum Áströlum á tjaldsvæðinu sem voru greinilega búnir að fá sér aðeins of mikið í litlu tána og höfðu þann furðulega kjæk að endurtaka alltaf síðasta orðið í setningunni þrisvar sinnum. Þeir sögðu okkur t.d. ofur steiktar sögur af svaðilförum sínum og enduðu frásögnina á „that was so funny, funny, funny“. Öðrum fylliraftinum leist mjög vel á Maríu og var hún svo heppin að fá bónorð stuttu eftir kynni þeirra. Hún afþakkaði þó pent og tók ekki þá afdrifaríku ákvörðun að verða eftir á tjaldstæðinu í Byron.

Fyrsta nóttin í Kára gekk vonum framar og sváfu allir sínu værasta alla nóttina og meira að segja aðeins lengur en ætlunin var. Þegar tvær mínútur voru í að við ættum að vera farin út af tjaldstæðinu (eða eiga á hættu að vera rukkuð fyrir aðra rándýra nótt) sáum við áttfættan og loðinn laumufarþega skjóta sér inn í bílinn. Engum líkaði vel við nýjasta farþegann en þar sem tíminn var að renna út neyddumst við til að fara inn í bílinn og keyra honum út fyrir hliðið. Við vorum ekki fyrr komin út fyrir hliðið þegar við stukkum öll út, eipandi af hrolli. Köngulóinni var svo ýtt út með mjög löngu priki og héldum við för okkar áfram án hennar.

Við ákváðum að rúlla við hjá vitanum í Byron (Cape Byron Lighthouse) en hann stendur á austasta tanga Ástralíu. Vitinn stendur á kletti og gnæfir yfir umhverfi sitt sem er ótrúlega fallegt. Búið er að gera slóða umhverfis vitann og niður að sjó og var virkilega gaman að ganga þar um. Við klifruðum því niður einhverjar tröppur og hættum okkur út á kletti sem sjórinn skall á í þeim tilgangi að ná skemmtilegum myndum. Við fórum þó misvarlega og náði Steinar að slasa sig í klettunum við myndatökurnar. Hann gekk því um með blóðuga hendi þar til hjálpsöm kona dró plástur upp úr veskinu sínu og lappaði upp á drenginn.

Við höfðum kynnst nokkrum Áströlum á meðan dvöl okkar í Indónesíu stóð yfir og mælti einn þeirra með því að við myndum keyra að Minyon Falls í Nighcap þjóðgarðinum. Við ákváðum að taka ráðleggingum hans og brunuðum beinustu leið inn í landið á fund fossins. Kári naut sín á þjóðvegum landsins og komst alveg upp í 120 km/klst áður en hann fór að hristast og skjálfa. Við reyndum því að halda okkur innan hristihraða og flugum um vegi landsins syngjandi glöð. Við getum þó seint sagt að Kári hafi verið lítill og nettur og miðað við þá litlu bíla sem við erum vön að keyra á heimaslóðum fannst okkur eins og hann passaði bara rétt innan línanna á veginum. Það var þó ekki fyrr en við komum á minni vegi sem aksturinn fór að vera erfiður og við þurftum að leggja okkur öll fram við að fara okkur ekki að voða. Hluti leiðarinnar að Nighcap þjóðgarðinum er þröngur malarvegur og stukku hjörtu okkar beint niðrí brækurnar í hvert sinn sem við mættum bíl. Hvernig í ósköpunum átti feitur húsbíll að ná að mæta öðrum bíl á vegi sem leit út eins og einstefnuvegur í Reykjavík án þess að rekast á hann? Við komum okkur því upp mjög góðu systemi þar sem aðstoðarbílstjórinn hékk út um hliðargluggann og leiðbeindi aðalbílstjóranum í akstri. Aðstoðarbílstjórinn sá semsagt um að aðalbílstjórinn myndi keyra eins nálægt brúninni og hægt væri, án þess að velta bílnum niður brekkurnar sem voru að sjálfsögðu beggja vegna vegarins. Þetta system gekk frábærlega upp og komumst við allar leiðir okkar svona.

Við höfðum heyrt af helsta hippabæ Ástralíu, Nimbin, og gátum ekki með nokkru móti sleppt því að koma þar við. Nimbin hefur verið lýst sem „dóphöfuðborg Ástralíu“ og er hægt að kaupa cannabis, sem ræktað er á svæðinu, inni á kaffihúsum og úti á götu, fyrir opnum tjöldum. Við stóðum til að mynda fyrir framan búðaklasa þegar vel freðinn bæjarbúi gekk að okkur og bauð okkur að kaupa gras. Við afþökkuðum pent og hann labbaði í burtu. Nokkrum mínútum seinna kom kauði aftur og bauð okkur að gera sömu kostakaup. Við afþökkuðum aftur og hann labbaði aftur í burtu. Þegar hann birtist svo í þriðja sinn föttuðum við að hann var hreinlega búinn að gleyma því að hann væri búinn að bjóða okkur grasið og að þetta myndi líklega halda svona áfram næstu tímana. Við afþökkuðum því aftur og ákváðum að færa okkur um set til að flýja þessa gullfiskalegu atburðarrás.

Eins og búist var við er Nimbin mjög afslappaður bær og var gaman að ganga þar um og skoða öll litríku húsin og búðirnar sem voru svo skemmtilega öðruvísi en við höfum vanist.

Líkt og áður hefur komið fram var hægara sagt en gert að finna stað til að leggja húsbílnum yfir nóttu sem kostaði ekki nýru og lungu. Við stunduðum því það að rúnta um í myrkrinu og finna ótrúlegustu staði til að parkera honum. Einn af fyrstu stöðunum sem við lögðu Kára á yfir nóttu var á bílastæði við leikvöll sem staðsettur var rétt fyrir utan hverfi með fullt af hálfkláruðum húsum. Það var því lítið um að fólk væri á ferli og vorum við nokkuð viss um að við hefðum fundið góðan stað og að lögreglan myndi ekki banka upp á og reka okkur í burtu. Við sváfum værum blundi alla nóttina og vorum enn í fastasvefni þegar hróp og köll voru farin að ýta sér inn í draumaheim okkar. Fyrir utan bílinn var hópur kvenna, hoppandi og skoppandi í miðjum bootcamp tíma. Ferðalangarnir fjórir gátu ekki hugsað sér að láta sjá til sín og drógu því betur fyrir gluggatjöldin og fóru ekki fyrr en þessar íþróttahúsmæður voru horfnar til síns heima. Burt séð frá vakningarópunum völdum við frábæran stað til að parkera á þessa fyrstu nótt, Við leikvöllin voru úti sturtur og gátum við skolað af okkur mesta ferðarykið. Við tókum svo smá göngutúr út frá leikvellinum og römbuðum á ótrúlega fallega og mannlausa strönd sem kallast Sapphire Beach.

Eftir að hafa leikið okkur á Sapphire Beach, tekið myndir og séð höfrunga ákváðum við að keyra inn í næsta bæ, Coffs Harbour, til að fara á kameldýrabak á ströndinni þar. Eva hélt þó sínum nískuhætti áfram og ákvað að sleppa að skella sér á bak því hún hafði farið áður. Hún lét sér því duga að knúsa dýrin og taka myndir af knöpunum þremur sem skemmtu sér stórvel.

Næsti áfangastaður var Dorrigo þjóðgarðurinn sem er afar fallegur regnskógur sem frægur er fyrir fjölskrúðugt fuglalíf. Á leið okkar þangað skoðuðum við fossana Newell Falls, Sherrard Falls og Dangar Falls. Þjóðgarðurinn er víst afskaplega vinsæll hjá göngufólki og eru skemmtilegar gönguleiðir sem gerir fólki kleift að komast nær dýralífinu og leiðir það fram hjá nokkrum fossum. Við fórum ekki langt inn í skóginn en tókum stuttan hring og gengum yfir göngubrú sem gefur gott útsýni yfir garðinn.

Við vorum lítið búin að plana hvað við ætluðum að skoða í þessu vegahoppi okkar og ákváðum næsta áfangastað í raun um leið og við keyrðum frá þeim síðasta. Við rötuðum að sjálfsögðu ekki neitt og áttum það til að að enda á öðrum stað en við ætluðum upprunalega. Við studdumst við kort og ef við sáum eitthvað sem leit út fyrir að vera spennandi bær eða kennileiti keyrðum við beinustu leið þangað. Við lögðumst því ekki í rannsóknarvinnu né eyddum tíma í að meta hvort það væri góð ákvörðun að fara til  Newcastle þegar við sáum það nafn á kortinu. Við bara brunuðum af stað og trúðum ekki öðru en borgin væri stútfull af afþreyingu og náttúrufegurð. Við veðjuðum þó á rangan hest í þetta skiptið og enduðum í borg sem okkur þótti vera heldur ómerkileg. Lítið var um að vera og eyddum við óendanlega löngum tíma í að finna miðbæinn sem reyndist svo ekki vera til. Stoppið varð því stutt en við gáfum okkur þó tíma í að rúnta um borgina endilanga og skoða Bogey Hole sem er sjávarlaug sem er á heimsminjaskrá áður en við brunum aftur úr henni. Við ákváðum þó að fara ekki ofan í laugina í þetta skiptið og létum okkur duga að horfa bara á hana frá bakkanum.

Eftir stoppið í Newcastle áttum við í nokkrum vandræðum með að finna gististað. Við keyrðum út og suður í nokkra klukkutíma og villtumst m.a. inn í smábæ sem var yfirfulllur af kengúrum. Það var virkilega skrítið að sjá kengúrur hoppandi milli húsa og þar sem við sáum engar mannverur leið okkur dálítið eins og við værum í apocalypse mynd þar sem kengúrur væru búnar að ná yfirráðum. Augljóslega enduðum við ekki á að gista í þessum bæ heldur fundum við bílastæði við lestarstöð sem uppfyllti allar okkar kröfur. Aðrir staðir sem við lögðum honum Kára á yfir nóttu á voru bílastæði við skólalóð, bílastæði sundlaugar og við golfklúbb.

Svakalegasta akstursminning okkar tengist klárlega komu okkar til stórborgarinnar Sydney. Við ætluðum rétt að keyra þar í gegn á leið okkar upp í Blue Mountains en ílengdumst örlítið. Áslaug var svo heppin að vera við stýrið í það skiptið og mátti hún hafa sig alla við til að koma okkur heilu að höldnu út úr borginni. Umferðin í Sydney er svakaleg og enduðum við á að keyrða í hringi því við hreinlega rötuðum ekki út úr borginni. GPS tækið okkar koksaði og lét okkur keyra fram og til baka í gegnum göng með vegatollum því það náði ekki að staðsetja okkur á þriggja hæða hraðbrautinni. Við komumst þó út úr klikkuninni að lokum með nokkrar vegatollsrukkanir á bakinu.

Við komum því seinna en við ætluðum á leiðarenda og náðum ekki að sjá alveg jafn mikið og við ætluðum. Blue Mountains er 11.400 km2 fjallgarður sem býr yfir mikilli náttúrufegurð. Á leið okkar þar um fórum við í útskýniskláf þar sem við sáum Wentworth Falls, Katoomba Falls, Echo Point, Leaura Cascades og fræga kletta sem kallast Systurnar þrjár. Innfæddir segja að þrjár systur (Meehni, Wimlah og Gunnedoo) hafi orðnar ástfangnar af mönnum úr öðrum ættbálki en þeirra eigin, en lög ættbálks þeirra bönnuðu þeim að giftast. Bræðurnir sættu sig ekki við þessi lög og ákváðu að hneppa þær í ánauð. Þá brutust út átök milli ættbálkanna tveggja og systrunum var breytt í stein í þeim tilgangi að vernda þær. Sá sem breytti þeim var aftur á móti drepinn í bardaganum og engum tókst að breyta þeim til baka. Hversu mikið er til í þessari sögu getum við ekki sagt til um en klettarnir voru aftur á móti mikilfenglegir, eins og allt svæðið þar í kring.

Við eyddum einni viku í honum Kára okkar og upplifðum ótal margt á þeim tíma. Stelpurnar voru komnar með gott af þessu húsbílalífi eftir vikudvöl og þráðu fátt heitar en að fá að komast í almennilega sturtu og alvöru rúm. Steinar var hins vegar alsæll með húsbílalífið og skilaði bílnum með miklum söknuði. Hann hefði klárlega verið til í að eyða fleiri vikum í bílnum og má með sanni segja að hann hafi fundið húsbílamanninn í sér, sem stelpunum tókst ekki alveg.

Næst brunuðum við inn í Sydney í annað sinn til að sækja fimmta ferðafélagan sem var að fara að bætast í hópinn og skila Kára.

1 thought on “Ástralía: Roadtrip frá Brisbane til Sydney

  1. Sæl, ég veit ekki hvort þið fylgist með kommentum hér en ég datt inn á þessa síðu og vildi athuga hvort þið væruð til í að svara nokkrum spurningum fyrir vefsíðuna mína um ferðalagið ykkar? Ég rek sem sagt http://www.innblastur.is sem er vefsíða um ferðalög, nám og atvinnu fyrir unga Íslendinga. Ef þið áhuga þá megið þið endilega hafa samband á innblastur@innblastur.is.

    Kær kveðja,
    Guðný

Leave a Reply

Your email address will not be published.