Tæland – Phuket og Phi Phi eyjar

Við komum seint til Phuket eftir langa rútuferð og ákváðum að rölta aðeins um Patong til að sjá hvort við vildum vera þar eða á einhverri annarri strönd. Fyrsti viðkomustaður var Bangla Road sem reyndist vera kolbrjáluð partýgata þar sem súludans og ping pong sýningar virtust vera í boði í öðru hverju húsi og þar á milli var einhver annars konar vafasöm starfsemi í gangi. Fyrir þá sem ekki vita þá eiga tælenskar ping pong sýningar ekkert sameiginlegt með ping pongi eins og við þekkjum það en þær fela í sér að sýningastúlkur nota sína allra heilugustu vöðva til að skjóta kúlum út um allar trissur og oftar en ekki er öðrum leikmunum bætt við til að krydda þetta örlítið meira. Það sem var einnig einkennandi fyrir Bangla Road voru vændiskonurnar sem röðuðu sér eftir götunni og þegar maður sá þær var nokkuð ljóst að gamlir vestrænir karlar með stórar bumbur væru sjaldnast langt frá.

Við ákváðum að fara í dagsferð til Phi Phi eyja en þar er Maya Bay þar sem kvikmyndin The Beach var tekin upp hér um árið. Við ferðuðumst með svakalegum hraðbáti sem þeyttist um sjóinn á ógnarhraða og áttum við í fullu fangi með að halda okkur kyrrum. Maya Bay er þekktur ferðamannastaður og virðast flestir Tælandsfarar leggja leið sína þangað. Dagurinn sem við fórum þangað var engin undantekning og var svo krökkt af túristum þar að okkur leið eins og við værum stödd í 17. júní skrúðgöngu á miðjum Laugaveginum  (fyrir utan hitann, sólina og ströndina). Fólksfjöldinn truflaði okkur þó ekki því Maya Bay er algjör paradísarstaður og augnakonfekt og mælum við með að allir fari þangað.

Þegar við vorum búin að skoða Maya Bay sigldum við um og skoðuðum það sem Phi Phi eyjar hafa upp á að bjóða. Við fengum einnig tækifæri til að snorkla, gefa öpum að borða og liggja í sólbaði.

Maríu og Steinari leist ekki nógu vel á geðveikina sem fylgdi Patong og ákváðu því að fara á rólegri strönd sem heitir Karon. Þar nutu þau lífsins, könnuðu nágrannasvæðið á vespu og brunuðu um sjóinn á sjóketti.

Áslaug og Eva héldu sig á Patong þar sem þær vildu kanna bæinn betur og kíktu út á lífið, fóru á markað og slöppuðu af. Þær skelltu sér einnig í skemmtiferð þar sem þær fóru á fílsbak, á fjórhljól, í river rafting, skoðuðu foss og fóru á undarlega apa- og fílasýningu þar sem dýrin voru látin sýna ýmsar listir eins og að hjóla, dripla körfubolta og húlla.

  

Næst á dagskrá var Kuala Lumpur en María og Steinar voru grand á því og flugu yfir á meðan Áslaug og Eva létu sig hafa rúmlega 20 tíma rútuferð.

2 thoughts on “Tæland – Phuket og Phi Phi eyjar

Leave a Reply

Your email address will not be published.