Fiji

Eftir hálfgerða Íslandsdvöl á Nýja Sjálandi lá leið okkar beint inn í sumarið á Fiji. Við stigum upp í flugvélina í roki og rigningu og stigum út úr henni aðeins þremur klukkutímum síðar í glampandi sól og blíðu. Við flugum til Nadi sem er þriðji stærsti borgarklasinn á Viti Levu, aðal eyju Fiji-eyjaklasans. Eftir kuldahretið á Nýja Sjálandi þráðum við ekkert heitar en að liggja á ströndinni með kokteil í hönd og ákváðum því að vera ekkert að stoppa að óþörfu í borginni heldur hoppuðum beint upp í næsta leigubíl (eftir að hafa hrist nokkra leigubílasvindlara af okkur) og brunuðum út á hafnarsvæðið. Þar stukkum við upp í svakalegan flugbát sem ferjaði okkur yfir í Mamanuca eyjaklasann og á partýeyjuna Beachcomber Island. Þar sem Fiji heimsóknin var tiltölulega seint á ferðaplaninu héldum við sparnaðarháttum okkar að sjálfsögðu áfram og bókuðum ódýrustu gistinguna á eynni. Nóttunum á Beachcomber var því eytt í rúmlega 86 manna, kynjaskiptum, dormkofa þar sem herbergin voru aðskilin með einum þunnum vegg sem hægt var að gægjast yfir, Hressandi!

Það tekur einungis um 10 mínútur að ganga hringinn um Beachcomber eyjuna svo þið getið rétt ímyndað ykkur að það er ekki beint mikið um að vera á eynni. Við nutum þess þó í botn að slaka á í sólbaði, snorkla í kristaltærum sjónum og borða misvondan mat.

Þar sem Beachcomber eyjan er þekkt fyrir að vera partýstaður Fiji eyjaklasans urðum við auðvitað að vekja upp partýljónin í okkur og kíkja á barinn – það var kannski ekki hægt að forðast það þar sem eyjan er álíka stór og tveir fótboltavellir og samanstendur af einum bar, dormi og nokkrum bungalowum. Partýið á partýeyjunni byrjaði á því að við fjárfestum í forlátum bjórturni sem við nefndum Búkollu, skelltum okkur svo í strandlimbó og enduðum í partýheitapottinum hinu megin á eyjunni.

Eftir þrjá daga á Bechcomber var komið að því að kveðja og stukkum við upp í hraðbátinn á nýjan leik. Í þetta skiptið ferjaði hann okkur yfir í Yasawa eyjaklasann og beint á nýja eyju, Mantaray Island Resort. Þar tók lítill sönghópur á móti okkur og bauð okkur þannig velkomin. Það er erfitt að lýsa Mantaray eyjunni í orðum en ef maður reynir þá hallast maður að orðum eins og “stórkostleg”, “draumur”, “fullkomnun” og “paradís”.

Það verður seint sagt að það hafi verið mikið aksjón í gangi á Mantaray þar sem eyjan er í raun bara eitt stórt resort. Á öðrum enda eyjunnar er matsalur, dorm, bungalowar og bar en hinum megin eru hýbýli starfsfólksins. Þó það hafi ekki verið mikið aksjón var samt hægt að gera ýmislegt á þessum draumastað. Við héldum að sjálfsögðu uppteknum Fiji-hætti áfram og byrjuðum dagana okkar á því að rúlla okkur fram úr rúminu og skríða niður á strönd þar sem við hlömmuðum okkur á sólbekk. Eftir að á sólbekkinn var komið leið sjaldan langur tími þar til við vorum komin með Fiji Export bjór í hönd eða Mudslide, sem er besti kokteill í heimi! Á milli sólbaðstunda skelltum við okkur út í kristaltæran sjóinn til að kæla okkur niður eða heilsa upp á Nemo fiskana og Bob, gæluhárkarl Mantaray. Við höfðum líka aðgang að kajökum og nokkur okkar prófuðum jafnframt paddle board og fengum klikkaða sjóferð aftan á sjóketti.

Á eyjunni var hvorki þörf á skóm né úrum, því við upphaf hvers matmálstíma var barið á drumbur sem heyrðust um alla eyjuna, og jók það enn á aflappandi og exótíska stemningu staðarins. Það má með sanni segja að í orðaforða Fiji búa eru tvö orð sem heyrast oftar en önnur orð, “Bula” og “Fiji-time”. Bókstafleg merking “Bula” er “líf” en orðið er notað í alls kyns merkingu. Fyrst og fremst er það þó notað sem kveðja og sagði maður og heyrði orðið því ótt og títt út daginn. “Fiji-time” vísar hins vegar í þá afslöppuðu stemningu sem ríkir á Fiji og svöruðu innfæddir hvenær-spurningum túristanna oftar en ekki með “It´s Fiji time”. Hlutirnir á Fiji gerast nefnilega bara þegar þeir gerast! Eyjalífið fer sko alls ekki eftir klukkunni og það þykir ekki tiltökumál ef hlutir sem ættu að gerast fljótlega gerist eftir nokkra daga.

Starfsmenn Mantaray voru upp til hópa yndislegir og plönuðu ágætis skemmtun fyrir okkur túristana yfir daginn. Á slíkum skemmtunum lærðum við m.a að búa til armbönd úr kókoshnetum og kókoshnetulaufum og tókum þátt í æsispennandi krabbakapphlaupi.  Kvöldin voru ekki síðri en dagarnir á þessari draumaeyju og söfnuðust gestirnir venjulega saman niðri á strandbarnum þar sem farið var í ýmsa leiki. Eitt kvöldið vorum við meira að segja kynnt fyrir Kava, “þjóðardrykk” Fijibúa. Þá plöntuðum við okkur á gólfið, í kringum stóra skál með brúnleitum vökva í. Stjórnandi Kava-athafnarinnar sá um að láta þátttakendur smakka og notaði til þess skorna kókoshnetuskál. Þegar það kom að manni að drekka átti maður að klappa einu sinni, taka við skálinni og drekka vökvann í einum sopa. Þá næst klappaði maður aftur og sagði “Bula!”. Kava er líklega einn versti drykkur veraldar og bragðast eins og moldarvatn. Drykkurinn hefur slævandi áhrif og fann maður hvernig maður dofnaði upp í munninum eftir fyrsta sopa. Þetta er klárlega ekki drykkur sem við myndum kjósa dagsdaglega en það var virkilega gaman að fá að smakka og kynnist þannig menningu Fiji búa enn frekar.

Við eyddum jólunum á Fiji og má með sanni segja að þau jól voru afskaplega ólík þeim sem við vorum vön. Á aðfangadegi skelltum við okkur í þorpsferð til eyjunnar Soso þar sem við gengum um þorpið og skoðuðum okkur um. Við fórum inn í kirkju, skoðuðum grunnskóla og kíktum heim til leiðsögumannsins okkar. Litlum götumarkaði var skellt upp okkur til heiðurs og þurftum við því að sjálfsögðu að fjárfesta í einhverju ómerkilegu glingri svo okkur yrði ekki hent öfugum af eyjunni. Við hittum fullt af fólki og má þá helst nefna einn lítinn snáða sem faldi sig og öskraði úr sér lungun þegar hann sá okkur. Okkur grunar sterklega að þarna hafi hann verið í fyrsta skipti að sjá fólk með svona undarlegan og litlausan húðlit og ekki litist á blikuna.

 

Við eyddum aðfangadagskvöldi á Mantaray og var maturinn sem við fengum örlítið öðruvísi en við erum vön á þessum merka degi. Við fengum því ekki hamborgarhrygg, rjúpu né kalkún heldur var boðið upp á tómatsúpu, brauð og makkarónur! Jóladagur reyndist hins vegar vera örlítið hátíðlegri en þá var slegið upp heljarinnar átveislu, þar sem hlaðborði með öllu tilheyrandi var skellt upp fyrir gesti.

Mantaray er fullkominn staður fyrir kafara og nýttu Áslaug, Eva og Steinar sér nýtilkomin réttindi sín og skelltu sér út í djúpið. Haukur ákvað einnig að verða maður með mönnum og tók köfunarréttindi á meðan dvölinni stóð. Á töfraeyjum gerast töfrandi hlutir og féllst María meira að segja á að prófa eina köfun sem varð jólagjöfin til Steinars. Þar sem gott er að kafa er einnig gott að snorkla og verðum við að minnast aðeins á rómantísku nætursnorklferðina sem pörin tvö skelltu sér í (ásamt innfæddum leiðsögusnorklara) á meðan einhleypingurinn skellti sér í partý með hinum einhleypu ferðalöngunum á eyjunni. Þegar snorklhópurinn var kominn langt út á kóralrifið, í kolniðamyrkur, bað leiðsögumaðurinn alla að slökkva á vasaljósunum og hrista hendurnar hratt í vatninu. Við það lýstist sjórinn upp eins og stjörnuhiminn! Þetta var ólýsanlega fallegt og kemur til vegna ákveðinna þörunga í sjónum sem gefa frá sér ljós sem varnarmekanisma. Í snorklferðinni sáu þau líka ýmsar furðuverur, sem sjást oftast ekki á daginn, eins og lítinn dansandi orm sem heitir Spanish Dancer og sæbjúgu sem sprautaði einhverju hvítu og klístruðu efni út úr sér þegar komið var við hana. Það var líka skondið að sjá sofandi fiska út um allt, sem áttu sér einskis ills von. Hákarlinn Bob var svo að sjálfsögðu ekki langt undan og endaði nætursnorklið á því að Steinar elti hann á röndum og fylgdust hinir snorklararnir furðu lostnir með.

Eftir u.þ.b. vikudvöl á Mantaray var komið að því að snúa til baka á aðal eyjuna því flugið sem átti að ferja okkur á næsta áfangastað nálgaðist óðum. Á þessum tíma gerðist þó það sem alla ferðalanga hryllir við. Eva gat ekki borgað reikninginn sinn og gat því ekki farið af eyjunni! Kortin voru tóm, bankinn í jólafríi og allt í volli og vitleysu. María og Steinar aumkuðu sig yfir Evu og buðust til að vera eina nótt í viðbót með henni svo þau gætu komið henni til hjálpar ef þörf væri á og komið þannig í veg fyrir að dvölin myndi enda á því að hún yrði hlekkjuð við uppvaskið á Mantaray næstu árin til að borga skuld sína. Áslaug og Haukur áttu hins vegar bókað í hákarlaköfun í Pacific Harbour og var ákveðið að þau skyldu halda þeirri bókun og halda ferð sinni áfram. Þau yfirgáfu því Mantaray einum degi á undan restinni af hópnum og skelltu sér í hákarlaköfunina langþráðu. Í djúpinu bláa komust þau í návígi við hvorki meira né minna en sjö mismunandi tegundir hákarla, þar á meðal risastóran Bull Shark sem sveimaði um og át fiskhausa beint úr höndum leiðsögukafaranna. En þess má geta að Bull Shark er talinn annar hættulegasta hákarl í heimi, á eftir sjálfum Great White. Nokkrum metrum frá fylgdust Áslaug og Haukur stjörf með öllu sem fram fór, bak við mjótt reipi sem hafði verið strengt á milli eins og hálfgerð girðing. Fiji búar virðast nefnilega ekkert vera að stressa sig á að nota búr við svona kafanir. Eftir átveislu hákarlanna fylgdu þau einum kafaranum sem sýndi þeim gamalt skipsflak og leyfði þeim að að klappa Tawny Nurse Shark, eins og ekkert væri sjálfsagðara. Þau eiga því miður engar myndir úr köfuninni sjálfri en við látum fylgja með link á vídjó af eins hákarlaköfun og skötuhjúin fóru í. Nota bene, Áslaugu finnst þetta klikkun í dag og myndi ekki fara aftur í svona köfun ef það stæði til boða (ætli það megi ekki skrifa það á nýtilkomið mömmuhlutverkið).

Youtube: Fiji shark diving with Aqua-trek at Pacific Harbour

Herbergið sem Áslaug og Haukur gistu í fyrir hákarlaköfunina

Eva náði sem betur fer að redda peningamálunum á síðustu stundu svo strandaglóparnir á Mantaray gátu komið sér yfir til Nadi. Steinar hafði fengið það merka verkefni að bóka gistingu og fann fínt, ódýrt hostel sem ferðalangarnir þrír fóru beint á við komuna til Nadi. Hremmingarnar héldu þó áfram en þegar komið var á hostelið kom í ljós að þau áttu ekki bókaða gistingu þetta kvöld, heldur eftir eitt ár! Jebb, bókunin hafði verið gerð fyrir 27. desember 2012 í stað 27. desember 2011. Hostelið var að sjálfsögðu fullbókað og það var ekki séns á að koma þessum þremur ferðalöngum fyrir í einhverjum herbergjum. Starfsfólk hostelins voru þó afskaplega almennilegt, hringdu trilljón símtöl og  enduðu á því að koma þeim inn á nærliggjandi gistiheimili fyrir sama pening. Þremenningarnir þáðu það að sjálfsögðu með þökkum og skelltu sér yfir á nýja staðinn þar sem útúrdópaður hundur tók á móti þeim (greyið hafði nýlega verið í “klipp klipp” aðgerð). Þríeykið henti dótinu sínu inn í nýja herbergið og hoppaði beint yfir á næsta bar þar sem þau eyddu síðasta kvöldinu með bjór í hönd og horfðu á danssýningu innfæddra.

Næsta dag sameinaðist ferðahópurinn við innritunarborðið á flugvellinum í Nadi og stökk í kjölfarið upp í flugvél sem ferjaði hann yfir hálfan hnöttinn.

Nýja Sjáland

Næst lá leiðin til norðureyju Nýja Sjálands en þar dvöldum við í eina viku. Við eyddum henni í að keyra frá Wellington, syðst á eyjunni, og upp til Auckland í norðri. Við getum öll verið sammála um að þegar við keyrðum frá flugvelli þessa nýja áfangastaðar leið okkur eins og við værum stödd í einhverskonar twilight zone-i, en landslagið þarna hinu megin á hnettinum er skuggalega líkt landslaginu á Íslandi. Fyrstu viðbrögð okkar við þessu Íslands-líkis-landi voru því nokkuð ólík og án þess að fara neitt sérstaklega út í það getum við þó sagt að einn ferðalangurinn vildi helst snúa við og fara aftur á flugvöllinn. Hvort það var Íslands-áminningin eða sú staðreynd að Ástralía hafi þurft að vera kvödd látum við liggja á milli hluta. Við brölluðum annars ýmislegt í Wellington þar sem við fórum með sporvagni upp á hæsta punkt borgarinnar, skoppuðum um jólamarkað, röltum um verslunargötuna Cuba Street og skoðuðum Te Papa safnið, sem hýsir 500 kílóa hlussu smokkfisk sem ber þann vafasama heiður að vera stærsti smokkfiskur í heimi.

Eftir tvær nætur í Wellington var tími til kominn að halda leið okkar áfram. Við leigðum okkur því eins ódýran bílaleigubíl og við gátum og bókstaflega tróðum okkur fimm inn í hann sem og okkar hafurtaski. Eftir á að hyggja hefðum við betur mátt henda nokkrum auka dollurum í púkkið og blæða í stærri bíl og koma þannig í veg fyrir ferðalag sem minnti helst á rútuferðina í Kambódíu hér fyrr í reisunni. Við létum okkur þó hafa þessa nánd og keyrðum um Nýja Sjáland, pikkföst inni í persónulegu svæði hvers annars. Þar sem við vorum komin á Lord of the Ring slóðir kom auðvitað ekkert annað til greina en að skíra bílinn okkar Fróða.
Eftir formlega nafnaveislu brunuðum við inn í landið og til fjallabæjarins Ohakune þar sem við skelltum Teva söndulunum á fæturnar og dembdum okkur í 19,4 km gönguferð. Leiðin sem við fórum kallast Tongariro Alpine Crossing og liggur meðfram virkum eldfjöllum og túrkisbláum vötnum. Það má segja að þarna höfum við verið komin inn í miðja Hringadróttinsmynd þar sem við gengum fram hjá einu frægasta eldfjalli heims, Mt. Ngauruhoe sem “lék” sjálft Mt. Doom í myndunum góðu.

Næst lá ferðalag okkar til bæjarins Rotorua en á leiðinni þangað stoppuðum við á Wai-O-Tapu jarðhitasvæðinu þar sem við skoðuðum fullt af alls konar lituðum gígum og vötnum. Þar sáum við líka prumpupoll sem er mjög svipaður the Bog of eternal Stench úr kvikmyndaperlunni the Labirynth, ef einhver man eftir henni http://www.youtube.com/watch?v=2TY8T9iTUxc.

Þegar við vorum búin að koma okkur vel fyrir á hótelinu í Rotorua, sem var mjög heimilislegt með sjónvarpsholi og heitum potti, ákváðum við að rúnta út fyrir bæinn og skoða sjálflýsandi orma við árbakka Kaituna ánnar. Við lögðum af stað með kort að vopni og vorum nokkuð örugg með að svo sjóaðir ferðalangar eins og við myndum finna staðinn á núll einni. En eins og okkur var orðinn vaninn þá náðum við að sjálfsögðu að villast aðeins í myrkrinu og skrölti Fróði upp og niður vegi og spændi upp rándýra bensíninu sem enginn vildi missa. Við vorum komin ansi nálægt því að gefast upp þegar við römbuðum loks á rétta staðinn, parkeruðum bílnum og röltum af stað niður að ánni. Leiðin að ánni var algjörlega óupplýst og höfðum við ekkert nema litlu lyklakippu vasaljósin okkar til að vísa veginn. Það þarf varla að minnast á þær ofsóknarhugmyndir sem poppuðu upp í huga okkar þegar við mjökuðum okkur áfram í myrkrinu með ekkert nema fossadyn í eyrunum og hugmyndir um Ný Sjálenskar myrkraverur í kollinum. Okkur var svo öllum lokið þegar við sáum glitta í afar drungalegan kofa á leið okkar að ormunum en þá breyttust hugmyndir okkar um myrkraverur snögglega í hugmyndir um morðingja. Tilhugsunin um að vera tengd við fréttir í íslenskum dagblöðum um fimm frækna ferðalanga sem drepnir voru í leit sinni að sjálflýsandi ormum var svo langt í frá að vera heillandi þannig að við gáfum í og skokkuðum niður að ánni. Ótrúlegt en satt, þá komumst við þangað heil að höldnu, laus við dramatískar morðtilraunir, og slökktum á litlu vasaljósunum okkar. Þá komu í ljós hundruðir lítilla, sjálflýsandi orma sem gerðu þessa svaðilför okkar að ánni vel þess virði.

Daginn eftir leiðangurinn góða skelltum við okkur í bráðskemmtilega fljótasiglingu (river rafting) niður sömu á og ormarnir bjuggu við. Við vorum sótt heim að dyrum af nett klikkuðum rafting leiðsögumönnum sem ætluðu að leiða okkur niður þessa fimm stjörnu rafting á. Í rútunni beið okkar skemmtilegur glaðningur, eitt stykki íslenskur víkingur sem ætlaði að sigra þessa sömu á og við. Íslendingunum sex var því öllum smalað í sama bátinn og voru látnir gera alls kynns gloríur á leið sinni niður ána eins og t.d. standa niður flúðir. Við fengum því ansi gott adrenalínkikk út úr þessari ferð og erum öll sammála um að 7 metra hái fossinn sem við steyptumst niður hafi verið svakalegasti partur siglingarinnar.

Við höfðum það notalegt það sem eftir var dvalarinnar í Rotorua þar sem við grilluðum, fórum í heita pottinn á hótelinu og fengum okkur bjór á Lava Bar. Þar tók Steinar þátt í “parallel bungee jumping” keppni þar sem teygja var bundin um hann miðjann og átti hann að hlaupa sem lengst eftir bargólfinu án þess að skjótast til baka. Að fylgjast með keppninni reyndist vera hin argasta skemmtun en þátttakendur skutust út og suður, klesstu á veggi og héldu örvæntingarfullu dauðahaldi í það sem þeir náðu taki á. Steinar gerði sér að sjálfsögðu lítið fyrir, rústaði keppninni og hlaut gjafabréf í adrenalíngarð að launum.

Vegna íþróttamannshæfileika Steinars bættist smá auka krókur á leið okkar frá Rotorua til Auckland og brunuðum við því beint í adrenalíngarðinn þar sem Steinar nýtti gjafabréfið sitt. Hann byrjaði á því að skella sér í 43 metra hátt teygjustökk á meðan við hin stóðum með öndina í hálsinum. Þar á eftir fór hann í svokallað “free fall extreme” tæki sem gerði honum kleift að fljúga líkt og súperman! Flugið vakti ómælda lukku hjá okkur hinum og þótti okkur sérstaklega skemmtilegt að sjá andlitið á Steinari afmyndast í ferlinu.

Við enduðum ferð okkar um Nýja Sjáland í borginni Auckland en þaðan áttum við flug á næsta áfangastað. Við eyddum aðeins nokkrum klukkustundum í borginni og vildi svo óheppilega til að það rigndi á okkur allan tímann. Við sáum því heldur lítið af borginni en María, Steinar og Eva skelltu sér í bíó á meðan Áslaug og Haukur fóru á kaffihús.

Eftir eina viku í þessu áhugaverða landi sem minnir óneitanlega á Ísland flugum við áfram í sólina og sandinn á Fiji! Við segjum betur frá því síðar….

Ástralía: Sydney og Melbourne

Eftir vikulangt húsbílalíf var kominn tími til að bruna inn í Sydney til að taka á móti Hauki, kærasta Áslaugar, og skila Kára okkar á bílaleiguna. Það gekk nú ekki betur en svo að við festumst í þvílíkri umferðateppu og siluðumst í átt að flugvellinum á lúsarhraða og greyið Haukur þurfti að hýrast á flugvellinum í meira en tvo tíma á meðan á þessu stóð. Ekki beinlínis glæsilegar móttökur sem hann fékk eftir ferðalag yfir hálfan hnöttinn. Okkur var þó fljótt fyrirgefið og skunduðum við inn í borgina til að skoða Darling Harbour og fá okkur í gogginn.

Þrátt fyrir að vera í Sydney í byrjun desember, og þar af leiðandi á sumartíma hjá þeim Down Under, þá fengum við að heyra frá innfæddum að það væri óvenju kalt miðað við árstíma. Við fundum vel fyrir því og áttum frekar erfitt með að aðlagast þessu “íslenska” veðri eftir þriggja mánaða dvöl í hitanum í Asíu og norðar í Ástralíu. Ekki bætti heldur úr skák að við vorum með bakpoka fulla af sumarklæðnaði og gátum því erfiðlega klætt kuldann af okkur.

Vegna smá skipulagsklúðurs endaði hópurinn á sitthvoru hostelinu í Sydney. Steinar, María og Eva höfðu bókað sig á ágætis hostel í göngufæri við miðbæinn en Haukur og Áslaug á frekar vafasömu hosteli í mesta djamm-og vændiskonuhverfi Sydney, Kings Cross. Þar deildu þau herbergi með tveimur drukknum Lettum sem unnu sem iðnaðarmenn rétt fyrir utan Sydney og komu iðulega um helgar á hostelið til að liggja í bjórdrykkju og fangi fagurra meyja. Semsagt mjög rómantískt setting fyrir Áslaugu og Hauk eftir þriggja mánaða aðskilnað.

Þegar hópurinn sameinaðist á ný skoðuðum við Óperuhúsið, sem stóð algjörlega undir væntingum, og röltum um höfnina. Þrátt fyrir kuldann var mikið mannlíf við höfnina en meðfram henni voru ótal barir og veitingastaðir og skemmtileg stemning þar sem fólk gæddi sér á eftirvinnudrykk. Við kíktum líka á lítinn kvöldmarkað í the Rocks og fengum okkur götumat og bjór á þýskum bar þar sem starfsfólkið klæddist lederhosen og öllum tilheyrandi októberfest klæðnaði.

Við tókum næsta dag snemma þar sem við vorum búin að bóka ferð í vínsmökkun í Hunter Valley, rétt norðan við Sydney. Þar heimsóttum við nokkrar vínekrur sem framleiða gæðavín í litlu magni og fengum að smakka á þeim. Við fórum á fjóra mismunandi staði og kynntumst búskaparháttum í kringum vínframleiðsluna. Í sumum tilfellum hittum við bændurna sjálfa sem kynntu fyrir okkur vínin og slúðruðu um nágrannana. Á einni ekrunni fengum við nokkur mjög sérstök, en jafnframt góð vín frá fyrrum efnafræðingi sem hafði lagt sloppinn á hilluna og gerst vínbóndi. Á næsta stað þar á eftir fengum við að vita að sá sem við höfðum hitt áður væri enginn víngerðarmaður heldur bara góður að láta tölvuna sína blanda skrýtin vín, auk þess sem hann væri alræmdur fyrir að daðra ótæpilega við ljóshærðar konur á fertugsaldri sem kæmu í vínsmökkun hjá honum. Hrepparígurinn tíðkast greinilega víða.

Eins og áður sagði vorum við fremur óheppin með veður í Sydney. Steininn tók þó úr þegar við ákváðum að ganga á milli Bondi strandarinnar og Coogee standarinnar. Steinari, Maríu og Evu leist ekki á blikuna, slaufuðu göngunni og fundu sér hlýja verslunarmiðstöð í staðinn. Áslaug og Haukur hins vegar örkuðu af stað en Haukur hafði fengið ábendingu hjá vinnufélaga um að þetta væri falleg og skemmtileg gönguleið, sem hún og var. Þau náðu meðal annars nokkrum fínum myndum á leiðinni af sjóbarinni og klettóttri strandlengjunni. Þau gerðu hins vegar ekki ráð fyrir slagveðursrigningu eins og hún gerist best uppi á Íslandi á haustin. Það hefði í sjálfu sér verið í góðu lagi hefði útbúnaðurinn verið eftir því en svo var þó ekki og því voru þau orðin ansi veðruð og blaut þegar þau loksins komumst í strætó við Coogee ströndina.

Eftir nokkurra daga dvöl í Sydney var kominn tími á að setjast upp í lest og bruna til Melbourne. Við komum til borgarinnar rétt í þann mund sem hún var að vakna á mánudagsmorgni í björtu og fallegu veðri. Við skárum okkur eilítið úr jakkafataklædda fjöldanum með bakpokana okkar og í stuttbuxum, úfin og mygluð eftir takmarkaðan svefn í næturlestinni frá Sydney. Okkur leist strax vel á borgina sem virtist hreinlegri og fallegri en Sydney. Þennan fyrsta dag skoðuðum við Federation Square, tókum ókeypis sporvagn í kringum miðbæinn og um kvöldið fórum við niður að sjónum í St. Kilda hverfinu í þeirri von að sjá mörgæsir. Þar átti að sögn að vera mörgæsanýlenda sem áhugavert væri að skoða í ljósaskiptunum þegar mörgæsirnar kæmu að landi eftir að hafa eytt deginum við fæðuleit úti á hafi. Eftir að hafa norpað ásamt nokkrum tugum annara áhugasamra túrista með mundaðar myndavélar í kaldri nepju í tvo klukkutíma birtist loksins ein vesæl mörgæs við skerjagarðinn og skaut sér á nokkrum sekúndum inn á milli steinanna. Vissulega svolítið antíklæmax en eiginlega vorum við mest fegin að geta þá með góðri samvisku komið okkur í burtu og inn á næsta bar í heitan drykk.

Eitt af aðal markmiðum Evu á meðan á Melbourne dvölinni stóð var að komast í Neighbours túr, en óhætt er að segja að Eva hafi verið einn dyggasti aðdáandi Nágranna á Íslandi á árum áður. Restin af hópnum var ekki jafn vel inni í þessari sápuóperu en fannst samt áhugavert að skella sér í túrinn og kynnast þessum vinsælu þáttum betur á bak við tjöldin. En fyrir þá sem ekki vita þá hafa þeir verið á skjánum í hátt í 30 ár, sýndir í yfir 50 löndum og eru seríurnar orðnar hvorki meira né minna en 29 talsins. Þættirnir eru teknir upp í myndveri í úthverfi Melbourne og útiatriðin í nálægri húsagötu. Ferðin reyndist vera hin besta skemmtun þar sem við vorum keyrð á milli tökusvæða í sérmerktri Nágrannarútu með þrælskemmtilegan leiðsögumann sem þuldi upp ótrúlegustu staðreyndir úr sögu þáttanna. Spennan náði svo hámarki þegar við fengum að hitta einn af leikurum þáttanna, Scott Major sem leikur Lucas Fitzgerald. Ekkert okkar kannaðist þó við þennan mann, ekki einu sinni Neighbours aðdándinn hún Eva þar sem leiðir hennar og þáttarins skildu áður en Lucas kom til sögu. Það er skondið frá því að segja að áður en Scott landaði þessu hlutverki hafði hann leikið stuttlega í þáttunum árið 1993, en þá sem önnur persona, Darren Stark. Eftir að hafa kynnst stjörnunni betur og fengið mynd og eiginhandaráritun var stefnan sett á sjálfa Ramsey Street en þar fengum við að rölta um og virða fyrir okkur hús aðalpersónanna. Leiðsögumaðurinn vippaði svo fram tveimur götuskiltum úr skottinu og við rifumst um að pósa með þau fyrir framan húsin.

Ramsay Street heitir reyndar Pin Oak Court í alvörunni og býr fólk í öllum húsunum nema einu, en það tilheyrir framleiðslufyrirtækinu. Okkur þótti heldur merkilegt að hægt væri að taka upp heilu seríurnar af sápuóperu í íbúðargötu þar sem fólk byggi að staðaldri. Ótrúlegt en satt virðist þetta ekki vera neinum til trafala en upptökum er víst háttað þannig að sem flestar útiseríur eru teknar í einu og þeim svo skipt niður á þættina. Íbúar götunnar fá svo upplýsingar um hvenær tökur verða og þurfa þá að leggja bílum sínum annars staðar, draga fyrir gluggana og halda sig frá götunni eða vera innan dyra. Þeim er svo launað ríkilega fyrir afnotin þannig að allir eru sáttir.

Um kvöldið ákváðum við að tríta okkur aðeins og splæsa í bjór og kengúrusteik, sem var algjört lostæti. Í Ástralíu er svo mikið af kengúrum að þær eru hálfgerð plága og sporðrenndum við því þessu einkennisdýri landsins með góðri samvisku.

Daginn eftir skelltu Haukur og Áslaug sér í dagsferð sem endaði á Philip Island sem er skammt utan við Melbourne og fræg fyrir samskonar mörgæsir og við sáum við St Kilda höfnina. Þar sem mörgæsirnar láta aðeins sjá sig í skamma stund í ljósaskiptunum var deginum eitt í að skoða ýmis önnur áströlsk dýr, t.d. kóalabirni og emúa. Þau kynntumst líka áströlskum búskaparháttum á bóndabýli þar sem bóndinn reyndist vera með öll verk á hreinu. Hann smalaði kindum og kalkúnum með þrautþjálfuðum smalahundi og rúði stærðarinnar rollu á nokkrum sekúndum. Toppaði þetta svo með því að bjóða upp á kennslu í búmmerang kasti.
Þegar loks var komið undir kvöld á Philip Island bjuggust þau ekki við neinni flugeldasýningu eftir vonbrigðin við St. Kilda. Nóg var hins vegar gert úr þessu. Nokkur þúsund gestir voru mættir á svæðið og stærðarinnar miðstöð með alls konar upplýsingum og afþreyingu tengdum mörgæsunum hafði verið reist til að þjónusta iðnaðinn í kringum þetta. Í mestu rólegheitum keyptum þau sér popp og biðu þess að klukkan nálgaðist tímann sem mörgæsirnar höfðu látið sjá sig kvöldið áður. Ætlunin var ekki að vinna nein verðlaun þetta kvöldið fyrir að þrauka sem lengst úti kaldri hafgolunni blásandi beint frá Suðurskautslandinu. Þegar klukkan nálgaðist tylltu þau sér framarlega í þar til gerðri áhorfendastúku og biðu þess sem verða vildi. Litlu mörgæsirnar létu sjá sig þremur mínútum seinna en deginum á undan og tóku hikandi að fikra sig upp ströndina. Þær safnast saman í sjónum rétt utan við ströndina eftir að hafa verið allan daginn að safna fæðu og fara saman í hópum á land í holurnar sínar til að minnka líkurnar á að verða rándýrum að bráð. Þær eru mjög varar um sig áður en hlaupið er af stað stuttan spölinn yfir sandinn. Í þetta skiptið stungu þær sér hvað eftir annað aftur til sunds þegar mávarnir gerðu sér að leik að stinga sér niður í átt að þeim. Loks stóðu þær upp í flæðarmálinu nokkrar saman og biðu uns sú kjarkmesta tók af skarið og hljóp af stað. Þá fylgdu hinar á eftir á harðahlaupum við mikinn fögnuð áhorfenda. Á landi urðu svo fagnaðarfundir þegar mörgæsirnar fundu holurnar sínar þar sem makinn og ungarnar tóku á móti fyrirvinnunni þann daginn með því að stinga innilega að henni nefinu.

Eva, María og Steinar eyddu síðasta Ástralíudeginum í hjarta Melbourne. Þar gengu þau um borgina, fóru á skemmtilegan markað og skoðuðu safnið Old Melbourne Gaol, sem var starfrækt sem fangelsi á árunum 1845 til 1924. Þar sátu margir af alræmdustu glæpamönnum Ástralíu inni og endaði fjöldi þeirra jafnframt ævi sína þar inni. Alls voru 133 einstaklingar hengdir í fangelsinu og var Ned Kelly án efa þekktastur af þeim.

Old Melbourne Gaol er á þremur hæðum og þar má sjá ýmsa hluti eins og ljósmyndir af föngunum, bækur með nöfnum fanganna og upplýsingum um þá glæpi sem þeir frömdu, ólíkar gerðir fangaklefa, hengingartækið sjálft og svokallaðar dauðagrímur (death masks) en það eru gips eða vax eftirmyndir sem voru teknar af andlitum fanganna eftir að þeir voru teknir af lífi.


Við vorum mjög ánægð með þessar þrjár vikur sem við eyddum í Ástralíu enda náðum við að sjá og upplifa ótal staði í þessu annars feikistóra landi. Næst lá leiðin til nágrannalandsins Nýja Sjálands þar sem stefnan var að eyða viku á Norðureyjunni, Meira um það síðar!