Singapore

Það voru mikil viðbrigði að koma til Singapore eftir vanþróaðri Asíulöndin sem við höfðum dvalist í mánuðina tvo á undan. Singapore er sannkallaður suðupottur af fólki, sem kemur frá Kína, Indlandi, Malasíu og fleiri löndum og þar eru fjögur opinber tungumál; enska, kínverska, malay og tamil. Við áttum því loks auðvelt með að eiga í samskiptum við fólk og þurftum ekki að stóla á túlka eða ofur ýktar handahreyfingar okkur til stuðnings. Singapore búar eru einnig almennt hjálpsamir og kurteisir og sýndi það sig m.a. í lestarverðinum sem benti okkur góðfúslega á að við ættum að nota “fatlaða” innganginn í neðanjarðarlestina því það væri, eins og hann orðaði það “for people like you”. Hvort hann var að vísa til stóru pokanna sem við roguðumst um með á bakinu eða til líkamlegrar stærðar okkar er óvíst, en við kusum þó að líta svo á að hann væri að meina hið fyrra. Singapore er auðug og ofurhrein nútímaborg (algjör andstæða við Indland). Þar gilda óteljandi reglur og ef þær eru brotnar þarf að greiða háar sektir eða lúta þungum refsingum. Meðal annars er bannað að flytja inn eða selja tyggjó (stressuðu við sturtuðum því tyggjóbirgðunum okkar í ruslið við lendingu), henda rusli á göturnar, sleppa að sturta klósettinu niður eftir notkun og fóðra fugla úti á götu. Dauðrefsingu er beitt við eiturlyfjasmygli og samkynhneigðir menn mega ekki stunda kynlíf.  Maríu var þó hin glaðasta í þessu regluríki og fannst stórfínt að tyggjó væri litið hornauga enda með tyggjóklígju á háu stigi. Það má því segja að hún hafi verið í sannkölluðu himnaríki í Singapore.

Eftir að hafa fundið hostel stutt frá einni neðjanjarðarlestalínunni skunduðum við niður á Raffles Place þar sem við skoðuðum Merlion, sem er eins konar tákn Singapore, og dáðumst af öllum háhýsunum, Singapore Flyer parísarhjólinu, tónleikahöllinni og Marina Bay Sands hótelinu, sem er ábyggilega með því flottasta í heimi. Bjórþorstinn fór þá að segja til sín en í staðinn fyrir að setjast niður á bar og panta okkur bjór keyptum við hann í Seven-Eleven sökum nísku. Verðlagið í Singapore er mun hærra en við vorum orðin vön og vorum við ekki alveg tilbúin til að kaupa bjór á sama verði og heima.

Næsta dag stóðust stelpurnar ekki mátið og þefuðu uppi fyrstu H&M búð ferðarinnar. Þar voru þó engin stórkaup gerð því við áttuðum okkur fljótt á að það voru eiginlega bara vetrarvörur í boði og höfðum við ekki mikla þörf fyrir pelsa og loðhúfur á þessum tímapunkti. Hitinn í Singapore er svipaður allt árið um kring, milli 25 og 30 gráður, og áttum við bágt með að skilja hvaða klikkhausar keyptu eiginlega þessi vetrarföt. Eftir verslunarflippið notuðum við restina af deginum í að rölta um borgina og skoða Kínahverfið. Um kvöldmatarleytið ákváðum við svo að dekra smá við okkur og fengum okkur steik á fínum steikarstað í miðri verslunarmiðstöð. Það var þó ágætt að við stoppuðum bara fjóra daga í Singapore því veskin okkar voru byrjuð að finna ansi vel fyrir því. Fátækir bakpokaferðalangar, með takmarkað farangurspláss, eiga víst ekki að missa sig í fínum verslunarmiðstöðvum.

Dýragarðurinn í Singapore er rosalega stór og flottur með um 315 tegundum af dýrum. Við eyddum heilum degi þar og skemmtum okkur stórvel. Aðal aðdráttarafl dýragarðsins eru þrjú tígrisdýr sem búa þar. Ekki eru þetta venjuleg tígrisdýr heldur eru þau með glæsilegan, hvítan feld sem gerir þau afar sérstök. Við eyddum því töluverðum tíma fyrir framan hýbýli þeirra og fylgdumst með þegar starfsfólkið henti hverri kjötsneiðinni á fætur annarri ofan í gryfjuna þeirra. Við heilsuðum líka upp á órangúta og gáfum lemúrum banana að borða. Líkt og áður hefur komið fram er Singapore land reglna og sekta og er því auðvitað ólöglegt að gefa öpunum þar að borða. Við réðum þó ekki við okkur og ákváðum að taka sénsinn og viti menn, við sluppum með skrekkin og vorum ekki handtekin í þessum apaleiðangri. Gengum við því ánægð frá söddu, loðnu krúttunum með röndóttu skottin. Um kvöldið fórum við síðan í Night safari þar sem við sáum næturdýrin í allri sinni dýrð og fylgdumst með elddönsurum sýna listir sínar.

Línan sýnir hversu langt tígrisdýrin geta stokkið

Síðasta daginn í Singapore tókum við kláf yfir á litla eyju fyrir utan borgina sem heitir Sentosa. Þar röltum við um ströndina, fylgdumst með brimbrettaköppum í ölduhermi, fundum annað Merlion og var meinaður aðgangur að spilavíti sökum klæðnaðar (story of our life). Þegar tók að dimma skelltu María og Steinar sér upp í Singapore Flyer til að taka myndir yfir borgina og hittist hópurinn svo aftur í kvöldmat á sushi stað með réttum sem komu rúllandi framhjá á færibandi, sushi aðdáendum hópsins til mikillar gleði.


Þessir fjórir dagar voru ótrúlega fljótir að líða en þar sem við vorum búin að eyða síðustu vikunni í stórborgum þótti okkur vera kominn tími til að eyða smá tíma á ströndinni og vinna í brúnkunni. Við lögðum því spennt upp í leiðangur til Indónesíu.

 

Leave a Reply

Your email address will not be published.