Ástralía: Sydney og Melbourne

Eftir vikulangt húsbílalíf var kominn tími til að bruna inn í Sydney til að taka á móti Hauki, kærasta Áslaugar, og skila Kára okkar á bílaleiguna. Það gekk nú ekki betur en svo að við festumst í þvílíkri umferðateppu og siluðumst í átt að flugvellinum á lúsarhraða og greyið Haukur þurfti að hýrast á flugvellinum í meira en tvo tíma á meðan á þessu stóð. Ekki beinlínis glæsilegar móttökur sem hann fékk eftir ferðalag yfir hálfan hnöttinn. Okkur var þó fljótt fyrirgefið og skunduðum við inn í borgina til að skoða Darling Harbour og fá okkur í gogginn.

Þrátt fyrir að vera í Sydney í byrjun desember, og þar af leiðandi á sumartíma hjá þeim Down Under, þá fengum við að heyra frá innfæddum að það væri óvenju kalt miðað við árstíma. Við fundum vel fyrir því og áttum frekar erfitt með að aðlagast þessu “íslenska” veðri eftir þriggja mánaða dvöl í hitanum í Asíu og norðar í Ástralíu. Ekki bætti heldur úr skák að við vorum með bakpoka fulla af sumarklæðnaði og gátum því erfiðlega klætt kuldann af okkur.

Vegna smá skipulagsklúðurs endaði hópurinn á sitthvoru hostelinu í Sydney. Steinar, María og Eva höfðu bókað sig á ágætis hostel í göngufæri við miðbæinn en Haukur og Áslaug á frekar vafasömu hosteli í mesta djamm-og vændiskonuhverfi Sydney, Kings Cross. Þar deildu þau herbergi með tveimur drukknum Lettum sem unnu sem iðnaðarmenn rétt fyrir utan Sydney og komu iðulega um helgar á hostelið til að liggja í bjórdrykkju og fangi fagurra meyja. Semsagt mjög rómantískt setting fyrir Áslaugu og Hauk eftir þriggja mánaða aðskilnað.

Þegar hópurinn sameinaðist á ný skoðuðum við Óperuhúsið, sem stóð algjörlega undir væntingum, og röltum um höfnina. Þrátt fyrir kuldann var mikið mannlíf við höfnina en meðfram henni voru ótal barir og veitingastaðir og skemmtileg stemning þar sem fólk gæddi sér á eftirvinnudrykk. Við kíktum líka á lítinn kvöldmarkað í the Rocks og fengum okkur götumat og bjór á þýskum bar þar sem starfsfólkið klæddist lederhosen og öllum tilheyrandi októberfest klæðnaði.

Við tókum næsta dag snemma þar sem við vorum búin að bóka ferð í vínsmökkun í Hunter Valley, rétt norðan við Sydney. Þar heimsóttum við nokkrar vínekrur sem framleiða gæðavín í litlu magni og fengum að smakka á þeim. Við fórum á fjóra mismunandi staði og kynntumst búskaparháttum í kringum vínframleiðsluna. Í sumum tilfellum hittum við bændurna sjálfa sem kynntu fyrir okkur vínin og slúðruðu um nágrannana. Á einni ekrunni fengum við nokkur mjög sérstök, en jafnframt góð vín frá fyrrum efnafræðingi sem hafði lagt sloppinn á hilluna og gerst vínbóndi. Á næsta stað þar á eftir fengum við að vita að sá sem við höfðum hitt áður væri enginn víngerðarmaður heldur bara góður að láta tölvuna sína blanda skrýtin vín, auk þess sem hann væri alræmdur fyrir að daðra ótæpilega við ljóshærðar konur á fertugsaldri sem kæmu í vínsmökkun hjá honum. Hrepparígurinn tíðkast greinilega víða.

Eins og áður sagði vorum við fremur óheppin með veður í Sydney. Steininn tók þó úr þegar við ákváðum að ganga á milli Bondi strandarinnar og Coogee standarinnar. Steinari, Maríu og Evu leist ekki á blikuna, slaufuðu göngunni og fundu sér hlýja verslunarmiðstöð í staðinn. Áslaug og Haukur hins vegar örkuðu af stað en Haukur hafði fengið ábendingu hjá vinnufélaga um að þetta væri falleg og skemmtileg gönguleið, sem hún og var. Þau náðu meðal annars nokkrum fínum myndum á leiðinni af sjóbarinni og klettóttri strandlengjunni. Þau gerðu hins vegar ekki ráð fyrir slagveðursrigningu eins og hún gerist best uppi á Íslandi á haustin. Það hefði í sjálfu sér verið í góðu lagi hefði útbúnaðurinn verið eftir því en svo var þó ekki og því voru þau orðin ansi veðruð og blaut þegar þau loksins komumst í strætó við Coogee ströndina.

Eftir nokkurra daga dvöl í Sydney var kominn tími á að setjast upp í lest og bruna til Melbourne. Við komum til borgarinnar rétt í þann mund sem hún var að vakna á mánudagsmorgni í björtu og fallegu veðri. Við skárum okkur eilítið úr jakkafataklædda fjöldanum með bakpokana okkar og í stuttbuxum, úfin og mygluð eftir takmarkaðan svefn í næturlestinni frá Sydney. Okkur leist strax vel á borgina sem virtist hreinlegri og fallegri en Sydney. Þennan fyrsta dag skoðuðum við Federation Square, tókum ókeypis sporvagn í kringum miðbæinn og um kvöldið fórum við niður að sjónum í St. Kilda hverfinu í þeirri von að sjá mörgæsir. Þar átti að sögn að vera mörgæsanýlenda sem áhugavert væri að skoða í ljósaskiptunum þegar mörgæsirnar kæmu að landi eftir að hafa eytt deginum við fæðuleit úti á hafi. Eftir að hafa norpað ásamt nokkrum tugum annara áhugasamra túrista með mundaðar myndavélar í kaldri nepju í tvo klukkutíma birtist loksins ein vesæl mörgæs við skerjagarðinn og skaut sér á nokkrum sekúndum inn á milli steinanna. Vissulega svolítið antíklæmax en eiginlega vorum við mest fegin að geta þá með góðri samvisku komið okkur í burtu og inn á næsta bar í heitan drykk.

Eitt af aðal markmiðum Evu á meðan á Melbourne dvölinni stóð var að komast í Neighbours túr, en óhætt er að segja að Eva hafi verið einn dyggasti aðdáandi Nágranna á Íslandi á árum áður. Restin af hópnum var ekki jafn vel inni í þessari sápuóperu en fannst samt áhugavert að skella sér í túrinn og kynnast þessum vinsælu þáttum betur á bak við tjöldin. En fyrir þá sem ekki vita þá hafa þeir verið á skjánum í hátt í 30 ár, sýndir í yfir 50 löndum og eru seríurnar orðnar hvorki meira né minna en 29 talsins. Þættirnir eru teknir upp í myndveri í úthverfi Melbourne og útiatriðin í nálægri húsagötu. Ferðin reyndist vera hin besta skemmtun þar sem við vorum keyrð á milli tökusvæða í sérmerktri Nágrannarútu með þrælskemmtilegan leiðsögumann sem þuldi upp ótrúlegustu staðreyndir úr sögu þáttanna. Spennan náði svo hámarki þegar við fengum að hitta einn af leikurum þáttanna, Scott Major sem leikur Lucas Fitzgerald. Ekkert okkar kannaðist þó við þennan mann, ekki einu sinni Neighbours aðdándinn hún Eva þar sem leiðir hennar og þáttarins skildu áður en Lucas kom til sögu. Það er skondið frá því að segja að áður en Scott landaði þessu hlutverki hafði hann leikið stuttlega í þáttunum árið 1993, en þá sem önnur persona, Darren Stark. Eftir að hafa kynnst stjörnunni betur og fengið mynd og eiginhandaráritun var stefnan sett á sjálfa Ramsey Street en þar fengum við að rölta um og virða fyrir okkur hús aðalpersónanna. Leiðsögumaðurinn vippaði svo fram tveimur götuskiltum úr skottinu og við rifumst um að pósa með þau fyrir framan húsin.

Ramsay Street heitir reyndar Pin Oak Court í alvörunni og býr fólk í öllum húsunum nema einu, en það tilheyrir framleiðslufyrirtækinu. Okkur þótti heldur merkilegt að hægt væri að taka upp heilu seríurnar af sápuóperu í íbúðargötu þar sem fólk byggi að staðaldri. Ótrúlegt en satt virðist þetta ekki vera neinum til trafala en upptökum er víst háttað þannig að sem flestar útiseríur eru teknar í einu og þeim svo skipt niður á þættina. Íbúar götunnar fá svo upplýsingar um hvenær tökur verða og þurfa þá að leggja bílum sínum annars staðar, draga fyrir gluggana og halda sig frá götunni eða vera innan dyra. Þeim er svo launað ríkilega fyrir afnotin þannig að allir eru sáttir.

Um kvöldið ákváðum við að tríta okkur aðeins og splæsa í bjór og kengúrusteik, sem var algjört lostæti. Í Ástralíu er svo mikið af kengúrum að þær eru hálfgerð plága og sporðrenndum við því þessu einkennisdýri landsins með góðri samvisku.

Daginn eftir skelltu Haukur og Áslaug sér í dagsferð sem endaði á Philip Island sem er skammt utan við Melbourne og fræg fyrir samskonar mörgæsir og við sáum við St Kilda höfnina. Þar sem mörgæsirnar láta aðeins sjá sig í skamma stund í ljósaskiptunum var deginum eitt í að skoða ýmis önnur áströlsk dýr, t.d. kóalabirni og emúa. Þau kynntumst líka áströlskum búskaparháttum á bóndabýli þar sem bóndinn reyndist vera með öll verk á hreinu. Hann smalaði kindum og kalkúnum með þrautþjálfuðum smalahundi og rúði stærðarinnar rollu á nokkrum sekúndum. Toppaði þetta svo með því að bjóða upp á kennslu í búmmerang kasti.
Þegar loks var komið undir kvöld á Philip Island bjuggust þau ekki við neinni flugeldasýningu eftir vonbrigðin við St. Kilda. Nóg var hins vegar gert úr þessu. Nokkur þúsund gestir voru mættir á svæðið og stærðarinnar miðstöð með alls konar upplýsingum og afþreyingu tengdum mörgæsunum hafði verið reist til að þjónusta iðnaðinn í kringum þetta. Í mestu rólegheitum keyptum þau sér popp og biðu þess að klukkan nálgaðist tímann sem mörgæsirnar höfðu látið sjá sig kvöldið áður. Ætlunin var ekki að vinna nein verðlaun þetta kvöldið fyrir að þrauka sem lengst úti kaldri hafgolunni blásandi beint frá Suðurskautslandinu. Þegar klukkan nálgaðist tylltu þau sér framarlega í þar til gerðri áhorfendastúku og biðu þess sem verða vildi. Litlu mörgæsirnar létu sjá sig þremur mínútum seinna en deginum á undan og tóku hikandi að fikra sig upp ströndina. Þær safnast saman í sjónum rétt utan við ströndina eftir að hafa verið allan daginn að safna fæðu og fara saman í hópum á land í holurnar sínar til að minnka líkurnar á að verða rándýrum að bráð. Þær eru mjög varar um sig áður en hlaupið er af stað stuttan spölinn yfir sandinn. Í þetta skiptið stungu þær sér hvað eftir annað aftur til sunds þegar mávarnir gerðu sér að leik að stinga sér niður í átt að þeim. Loks stóðu þær upp í flæðarmálinu nokkrar saman og biðu uns sú kjarkmesta tók af skarið og hljóp af stað. Þá fylgdu hinar á eftir á harðahlaupum við mikinn fögnuð áhorfenda. Á landi urðu svo fagnaðarfundir þegar mörgæsirnar fundu holurnar sínar þar sem makinn og ungarnar tóku á móti fyrirvinnunni þann daginn með því að stinga innilega að henni nefinu.

Eva, María og Steinar eyddu síðasta Ástralíudeginum í hjarta Melbourne. Þar gengu þau um borgina, fóru á skemmtilegan markað og skoðuðu safnið Old Melbourne Gaol, sem var starfrækt sem fangelsi á árunum 1845 til 1924. Þar sátu margir af alræmdustu glæpamönnum Ástralíu inni og endaði fjöldi þeirra jafnframt ævi sína þar inni. Alls voru 133 einstaklingar hengdir í fangelsinu og var Ned Kelly án efa þekktastur af þeim.

Old Melbourne Gaol er á þremur hæðum og þar má sjá ýmsa hluti eins og ljósmyndir af föngunum, bækur með nöfnum fanganna og upplýsingum um þá glæpi sem þeir frömdu, ólíkar gerðir fangaklefa, hengingartækið sjálft og svokallaðar dauðagrímur (death masks) en það eru gips eða vax eftirmyndir sem voru teknar af andlitum fanganna eftir að þeir voru teknir af lífi.


Við vorum mjög ánægð með þessar þrjár vikur sem við eyddum í Ástralíu enda náðum við að sjá og upplifa ótal staði í þessu annars feikistóra landi. Næst lá leiðin til nágrannalandsins Nýja Sjálands þar sem stefnan var að eyða viku á Norðureyjunni, Meira um það síðar!

Leave a Reply

Your email address will not be published.