Fiji

Eftir hálfgerða Íslandsdvöl á Nýja Sjálandi lá leið okkar beint inn í sumarið á Fiji. Við stigum upp í flugvélina í roki og rigningu og stigum út úr henni aðeins þremur klukkutímum síðar í glampandi sól og blíðu. Við flugum til Nadi sem er þriðji stærsti borgarklasinn á Viti Levu, aðal eyju Fiji-eyjaklasans. Eftir kuldahretið á Nýja Sjálandi þráðum við ekkert heitar en að liggja á ströndinni með kokteil í hönd og ákváðum því að vera ekkert að stoppa að óþörfu í borginni heldur hoppuðum beint upp í næsta leigubíl (eftir að hafa hrist nokkra leigubílasvindlara af okkur) og brunuðum út á hafnarsvæðið. Þar stukkum við upp í svakalegan flugbát sem ferjaði okkur yfir í Mamanuca eyjaklasann og á partýeyjuna Beachcomber Island. Þar sem Fiji heimsóknin var tiltölulega seint á ferðaplaninu héldum við sparnaðarháttum okkar að sjálfsögðu áfram og bókuðum ódýrustu gistinguna á eynni. Nóttunum á Beachcomber var því eytt í rúmlega 86 manna, kynjaskiptum, dormkofa þar sem herbergin voru aðskilin með einum þunnum vegg sem hægt var að gægjast yfir, Hressandi!

Það tekur einungis um 10 mínútur að ganga hringinn um Beachcomber eyjuna svo þið getið rétt ímyndað ykkur að það er ekki beint mikið um að vera á eynni. Við nutum þess þó í botn að slaka á í sólbaði, snorkla í kristaltærum sjónum og borða misvondan mat.

Þar sem Beachcomber eyjan er þekkt fyrir að vera partýstaður Fiji eyjaklasans urðum við auðvitað að vekja upp partýljónin í okkur og kíkja á barinn – það var kannski ekki hægt að forðast það þar sem eyjan er álíka stór og tveir fótboltavellir og samanstendur af einum bar, dormi og nokkrum bungalowum. Partýið á partýeyjunni byrjaði á því að við fjárfestum í forlátum bjórturni sem við nefndum Búkollu, skelltum okkur svo í strandlimbó og enduðum í partýheitapottinum hinu megin á eyjunni.

Eftir þrjá daga á Bechcomber var komið að því að kveðja og stukkum við upp í hraðbátinn á nýjan leik. Í þetta skiptið ferjaði hann okkur yfir í Yasawa eyjaklasann og beint á nýja eyju, Mantaray Island Resort. Þar tók lítill sönghópur á móti okkur og bauð okkur þannig velkomin. Það er erfitt að lýsa Mantaray eyjunni í orðum en ef maður reynir þá hallast maður að orðum eins og “stórkostleg”, “draumur”, “fullkomnun” og “paradís”.

Það verður seint sagt að það hafi verið mikið aksjón í gangi á Mantaray þar sem eyjan er í raun bara eitt stórt resort. Á öðrum enda eyjunnar er matsalur, dorm, bungalowar og bar en hinum megin eru hýbýli starfsfólksins. Þó það hafi ekki verið mikið aksjón var samt hægt að gera ýmislegt á þessum draumastað. Við héldum að sjálfsögðu uppteknum Fiji-hætti áfram og byrjuðum dagana okkar á því að rúlla okkur fram úr rúminu og skríða niður á strönd þar sem við hlömmuðum okkur á sólbekk. Eftir að á sólbekkinn var komið leið sjaldan langur tími þar til við vorum komin með Fiji Export bjór í hönd eða Mudslide, sem er besti kokteill í heimi! Á milli sólbaðstunda skelltum við okkur út í kristaltæran sjóinn til að kæla okkur niður eða heilsa upp á Nemo fiskana og Bob, gæluhárkarl Mantaray. Við höfðum líka aðgang að kajökum og nokkur okkar prófuðum jafnframt paddle board og fengum klikkaða sjóferð aftan á sjóketti.

Á eyjunni var hvorki þörf á skóm né úrum, því við upphaf hvers matmálstíma var barið á drumbur sem heyrðust um alla eyjuna, og jók það enn á aflappandi og exótíska stemningu staðarins. Það má með sanni segja að í orðaforða Fiji búa eru tvö orð sem heyrast oftar en önnur orð, “Bula” og “Fiji-time”. Bókstafleg merking “Bula” er “líf” en orðið er notað í alls kyns merkingu. Fyrst og fremst er það þó notað sem kveðja og sagði maður og heyrði orðið því ótt og títt út daginn. “Fiji-time” vísar hins vegar í þá afslöppuðu stemningu sem ríkir á Fiji og svöruðu innfæddir hvenær-spurningum túristanna oftar en ekki með “It´s Fiji time”. Hlutirnir á Fiji gerast nefnilega bara þegar þeir gerast! Eyjalífið fer sko alls ekki eftir klukkunni og það þykir ekki tiltökumál ef hlutir sem ættu að gerast fljótlega gerist eftir nokkra daga.

Starfsmenn Mantaray voru upp til hópa yndislegir og plönuðu ágætis skemmtun fyrir okkur túristana yfir daginn. Á slíkum skemmtunum lærðum við m.a að búa til armbönd úr kókoshnetum og kókoshnetulaufum og tókum þátt í æsispennandi krabbakapphlaupi.  Kvöldin voru ekki síðri en dagarnir á þessari draumaeyju og söfnuðust gestirnir venjulega saman niðri á strandbarnum þar sem farið var í ýmsa leiki. Eitt kvöldið vorum við meira að segja kynnt fyrir Kava, “þjóðardrykk” Fijibúa. Þá plöntuðum við okkur á gólfið, í kringum stóra skál með brúnleitum vökva í. Stjórnandi Kava-athafnarinnar sá um að láta þátttakendur smakka og notaði til þess skorna kókoshnetuskál. Þegar það kom að manni að drekka átti maður að klappa einu sinni, taka við skálinni og drekka vökvann í einum sopa. Þá næst klappaði maður aftur og sagði “Bula!”. Kava er líklega einn versti drykkur veraldar og bragðast eins og moldarvatn. Drykkurinn hefur slævandi áhrif og fann maður hvernig maður dofnaði upp í munninum eftir fyrsta sopa. Þetta er klárlega ekki drykkur sem við myndum kjósa dagsdaglega en það var virkilega gaman að fá að smakka og kynnist þannig menningu Fiji búa enn frekar.

Við eyddum jólunum á Fiji og má með sanni segja að þau jól voru afskaplega ólík þeim sem við vorum vön. Á aðfangadegi skelltum við okkur í þorpsferð til eyjunnar Soso þar sem við gengum um þorpið og skoðuðum okkur um. Við fórum inn í kirkju, skoðuðum grunnskóla og kíktum heim til leiðsögumannsins okkar. Litlum götumarkaði var skellt upp okkur til heiðurs og þurftum við því að sjálfsögðu að fjárfesta í einhverju ómerkilegu glingri svo okkur yrði ekki hent öfugum af eyjunni. Við hittum fullt af fólki og má þá helst nefna einn lítinn snáða sem faldi sig og öskraði úr sér lungun þegar hann sá okkur. Okkur grunar sterklega að þarna hafi hann verið í fyrsta skipti að sjá fólk með svona undarlegan og litlausan húðlit og ekki litist á blikuna.

 

Við eyddum aðfangadagskvöldi á Mantaray og var maturinn sem við fengum örlítið öðruvísi en við erum vön á þessum merka degi. Við fengum því ekki hamborgarhrygg, rjúpu né kalkún heldur var boðið upp á tómatsúpu, brauð og makkarónur! Jóladagur reyndist hins vegar vera örlítið hátíðlegri en þá var slegið upp heljarinnar átveislu, þar sem hlaðborði með öllu tilheyrandi var skellt upp fyrir gesti.

Mantaray er fullkominn staður fyrir kafara og nýttu Áslaug, Eva og Steinar sér nýtilkomin réttindi sín og skelltu sér út í djúpið. Haukur ákvað einnig að verða maður með mönnum og tók köfunarréttindi á meðan dvölinni stóð. Á töfraeyjum gerast töfrandi hlutir og féllst María meira að segja á að prófa eina köfun sem varð jólagjöfin til Steinars. Þar sem gott er að kafa er einnig gott að snorkla og verðum við að minnast aðeins á rómantísku nætursnorklferðina sem pörin tvö skelltu sér í (ásamt innfæddum leiðsögusnorklara) á meðan einhleypingurinn skellti sér í partý með hinum einhleypu ferðalöngunum á eyjunni. Þegar snorklhópurinn var kominn langt út á kóralrifið, í kolniðamyrkur, bað leiðsögumaðurinn alla að slökkva á vasaljósunum og hrista hendurnar hratt í vatninu. Við það lýstist sjórinn upp eins og stjörnuhiminn! Þetta var ólýsanlega fallegt og kemur til vegna ákveðinna þörunga í sjónum sem gefa frá sér ljós sem varnarmekanisma. Í snorklferðinni sáu þau líka ýmsar furðuverur, sem sjást oftast ekki á daginn, eins og lítinn dansandi orm sem heitir Spanish Dancer og sæbjúgu sem sprautaði einhverju hvítu og klístruðu efni út úr sér þegar komið var við hana. Það var líka skondið að sjá sofandi fiska út um allt, sem áttu sér einskis ills von. Hákarlinn Bob var svo að sjálfsögðu ekki langt undan og endaði nætursnorklið á því að Steinar elti hann á röndum og fylgdust hinir snorklararnir furðu lostnir með.

Eftir u.þ.b. vikudvöl á Mantaray var komið að því að snúa til baka á aðal eyjuna því flugið sem átti að ferja okkur á næsta áfangastað nálgaðist óðum. Á þessum tíma gerðist þó það sem alla ferðalanga hryllir við. Eva gat ekki borgað reikninginn sinn og gat því ekki farið af eyjunni! Kortin voru tóm, bankinn í jólafríi og allt í volli og vitleysu. María og Steinar aumkuðu sig yfir Evu og buðust til að vera eina nótt í viðbót með henni svo þau gætu komið henni til hjálpar ef þörf væri á og komið þannig í veg fyrir að dvölin myndi enda á því að hún yrði hlekkjuð við uppvaskið á Mantaray næstu árin til að borga skuld sína. Áslaug og Haukur áttu hins vegar bókað í hákarlaköfun í Pacific Harbour og var ákveðið að þau skyldu halda þeirri bókun og halda ferð sinni áfram. Þau yfirgáfu því Mantaray einum degi á undan restinni af hópnum og skelltu sér í hákarlaköfunina langþráðu. Í djúpinu bláa komust þau í návígi við hvorki meira né minna en sjö mismunandi tegundir hákarla, þar á meðal risastóran Bull Shark sem sveimaði um og át fiskhausa beint úr höndum leiðsögukafaranna. En þess má geta að Bull Shark er talinn annar hættulegasta hákarl í heimi, á eftir sjálfum Great White. Nokkrum metrum frá fylgdust Áslaug og Haukur stjörf með öllu sem fram fór, bak við mjótt reipi sem hafði verið strengt á milli eins og hálfgerð girðing. Fiji búar virðast nefnilega ekkert vera að stressa sig á að nota búr við svona kafanir. Eftir átveislu hákarlanna fylgdu þau einum kafaranum sem sýndi þeim gamalt skipsflak og leyfði þeim að að klappa Tawny Nurse Shark, eins og ekkert væri sjálfsagðara. Þau eiga því miður engar myndir úr köfuninni sjálfri en við látum fylgja með link á vídjó af eins hákarlaköfun og skötuhjúin fóru í. Nota bene, Áslaugu finnst þetta klikkun í dag og myndi ekki fara aftur í svona köfun ef það stæði til boða (ætli það megi ekki skrifa það á nýtilkomið mömmuhlutverkið).

Youtube: Fiji shark diving with Aqua-trek at Pacific Harbour

Herbergið sem Áslaug og Haukur gistu í fyrir hákarlaköfunina

Eva náði sem betur fer að redda peningamálunum á síðustu stundu svo strandaglóparnir á Mantaray gátu komið sér yfir til Nadi. Steinar hafði fengið það merka verkefni að bóka gistingu og fann fínt, ódýrt hostel sem ferðalangarnir þrír fóru beint á við komuna til Nadi. Hremmingarnar héldu þó áfram en þegar komið var á hostelið kom í ljós að þau áttu ekki bókaða gistingu þetta kvöld, heldur eftir eitt ár! Jebb, bókunin hafði verið gerð fyrir 27. desember 2012 í stað 27. desember 2011. Hostelið var að sjálfsögðu fullbókað og það var ekki séns á að koma þessum þremur ferðalöngum fyrir í einhverjum herbergjum. Starfsfólk hostelins voru þó afskaplega almennilegt, hringdu trilljón símtöl og  enduðu á því að koma þeim inn á nærliggjandi gistiheimili fyrir sama pening. Þremenningarnir þáðu það að sjálfsögðu með þökkum og skelltu sér yfir á nýja staðinn þar sem útúrdópaður hundur tók á móti þeim (greyið hafði nýlega verið í “klipp klipp” aðgerð). Þríeykið henti dótinu sínu inn í nýja herbergið og hoppaði beint yfir á næsta bar þar sem þau eyddu síðasta kvöldinu með bjór í hönd og horfðu á danssýningu innfæddra.

Næsta dag sameinaðist ferðahópurinn við innritunarborðið á flugvellinum í Nadi og stökk í kjölfarið upp í flugvél sem ferjaði hann yfir hálfan hnöttinn.