Indónesía

Þegar við lentum í Denpasar, Bali, var tekið að skyggja og þar sem við vorum orðin svo afskaplega spennt fyrir því að liggja á ströndum Gili eyja ákváðum við að vera ekkert að stoppa í borginni. Við hoppuðum því upp í næsta leigubíl og báðum hann um að fara með okkur á tæplega 2 klst rúnt yfir á höfnina í Padang Bai, en þaðan ætluðum við að koma okkur yfir til draumaeyjunnar Gili Trawangan. Þegar við komum til Padang Bai lentum við svo að sjálfsögðu í hringiðu sölumanna sem börðust um að bjóða okkur „besta dílinn“ í siglingu en þar sem við vorum komin með svarta beltið í ferðamennsku og höfðum engan áhuga á að lenda í sjóræningasvikurum ákváðum við að gera eins og innfæddir og fara með almennings ferjunni. Siglingin byrjaði þó ekki betur en svo að við misstum næstum því af ferjunni. Það var þó að sjálfsögðu ekki okkur að kenna heldur voru engar upplýsingar um hvaða ferja það var nákvæmlega sem við áttum að taka og hvernig við ættum að komast í hana. Við hlupum því út og suður, upp og niður stiga, fram og til baka, þangað til við komum loks að bakborða ferjunnar, þar sem bílarnir keyrðu inn. Að komast þaðan yfir á farþegarýmið reyndist ekki vera auðvelt verkefni þar sem við þurftum að príla upp á sillu og fikra okkur yfir hana, með búslóðina á bakinu og hlæjandi indónesíska áhorfendur allt um kring. Við komumst þó yfir á endanum og fundum okkur bekki þar sem við ætluðum að reyna að sofa ferðalagið af okkur. Það gekk þó eitthvað hálf brösulega því stærðarinnar kakkalakkar hlupu um allt og enduðum við því á að bylta okkur fram og til baka næstu fimm tímana.

Þegar ferjan kom að landi á nágrannaeyjunni Lombok beið okkar enn eitt verkefnið en það var að redda okkur fari yfir í annan bæ, og það um miðja nótt. Samningshæfileikar okkar náðu ekki mjög langt svona eldsnemma morguns og enduðum við því á að samþykkja mun hærra verð en við hefðum annars getað gert. Bílferðin varð heldur betur undarleg þar sem við keyrðum um óupplýsta vegi, í svarta myrkri, og rákumst á fjöldan allan af „draugum“ sem gengu í vegkantinum. Draugarnir reyndust þó vera lifandi verur, eða nánar tiltekið innfæddir sveitungar, huldir kuflum, á leið til messu.

Við komumst þó á leiðarenda þar sem síðasta vesen ferðarinnar tók við, en við áttum í stökustu vandræðum með að fá far yfir á litlu eyjuna okkar. Sölumaður bátaferðanna neitaði að selja okkur miða með innfæddum og ætlaði að pranga inn á okkur einkabát. Við neituðum því að sjálfsögðu og reyndi kauði þá að þrefalda verðið í venjulega bátinn. Eftir rökræður fram og til baka, hótanir og skammir komumst við að samkomulagi og við tróðum okkur í ofhlaðinn bát sem var stútfullur af heyi og innfæddum.

Gili Trawangan reyndist vera algjör paradísareyja og röltum við meðfram ströndinni í leit að gistingu. Fólk var alltaf að segja okkur að taka “Oscar” og fara á þennan og hinn stað en við hristum bara hausinn yfir þessari vitleysu og gengum áfram. Það leið vandræðalega langur tími þar til við uppgötvuðum loks hver þessi Oscar var en hann reyndist vera Horse car (með indónesískum framburði), en það voru engin rafknúin ökutæki á eyjunni, bara hestakerrur. Að lokum fundum við ódýra gistingu, einfalda kofa með mjög frumstæðu baðherbergi, en það var undir berum himni og samanstóð af kraftlítilli saltvatnssturtu og klósetti sem þurfti að sturta niður með aðstoð fötu og vatns.

Lífið á Gili Trawangan var afskaplega ljúft og gerðum við lítið annað en að slappa af, liggja í sólbaði, drekka bjór og borða misgóðan mat á strandveitingarstöðum.

Steinar ákvað þó fljótt að þetta letilíf hentaði honum ekki nógu vel og skellti sér á köfunarnámskeið númer tvö – Advanced Open Water Diving – og fékk í kjölfarið leyfi til að fara niður í 30 metra dýpi. Áslaug skellti sér sömuleiðis í eina köfun en Eva og María létu snorklið duga. Sjávarlífið við Gili eyjarnar var stórkostlegt og mátti sjá marglita fiska hvert sem litið var og tókum við sundtök með nokkrum sæskjaldbökum.

Gili eyjaklasinn samanstendur af þremur eyjum og kalla sumir eyjuna sem við völdum, Gili Trawangan, “partýeyjuna”. Það gefur því auga leið að við fórum í nokkur partý á meðan við vorum þarna. Skipulögð partý voru haldin annan hvern dag og vorum við líka svo heppin að Full moon partý var haldið á meðan við vorum á staðnum. Það reyndist þó vera fjarskyldur frændi tælensku Full moon partýanna þannig að við gátum ekki strikað þvílíkt partý af must do listanum.

Það sem kom okkur helst á óvart við næturlífið á Gili Trawangan var að maður gat ekki gengið um án þess að lenda í eftirfarandi samræðum:

  • Indónesískur gaur: “Pissst, viljiði sveppi?”
  • Við: “Nei takk.”
  • Indónesískur gaur: “Viljiði maríjúana?”
  • Við: “Nei takk.”
  • Indónesískur gaur: “Viljiði spítt?”
  • Við: “Nei takk.”

Í ljósi þess að dauðarefsing bíður þeirra sem eru teknir með eiturlyf í Indónesíu kom þessi auðveldi aðgangur að efnunum okkur mjög á óvart. Okkur var þó seinna sagt að þetta væri engan vegin lýsandi fyrir Indónesíu því þar sem engar löggur eru staðsettar á Gili eyjunum sjá innfæddir sér fært um að ná sér inn smá aukapening án þess að enda á höggstokknum.

Eftir að hafa eytt viku á Gili Trawangan ákváðum við halda ferðalaginu áfram og fara í lítinn bæ á Bali sem kallast Ubud. Við lögðum ekki í að fara sömu leið og síðast og borguðum því himinháa upphæð fyrir hraðbát og beint far í bæinn. Þegar þangað var komið fundum við gistiheimili sem leit ágætlega út, hentum dótinu okkar inn og röltum um þennan krúttlega bæ. Fljótlega römbuðum við á Starbucks kaffihús og fengum því fyrsta almennilega kaffibollan í langan tíma, okkur til mikillar gleði. Í Ubud fengum við líka ekta indónesískan mat og fótsnyrtingu á spotprís.

Við ákváðum að fara í fjallgöngu við sólarupprás og fórum því snemma í bólið þetta kvöld. Ágæta gistiheimilið okkar reyndist þó ekki vera svo ágætt þar sem María og Steinar komust fljótt að því að þau deildu herbergi með stærðarinnar rottum sem hlupu fram og til baka yfir stólpana í loftinu. Það var því lítið sofið þessa nótt og voru það fjórir þreyttir ferðalangar sem lögðu í næturfjallgöngu upp eldfjallið Batur. Þegar upp var komið gleymdist þreytan þó fljótt og nutum við þess að fylgjast með sólinni koma upp yfir Lombok, Mt. Agung, sem er stærsta eldfjallið á Bali, og Lake Batur.

Við enduðum Indónesíuför okkar á Bali, eða nánar tiltekið á Kuta beach sem reyndist vera nokkurs konar Benidorm Indónesíu. Þar eyddum við mestum tíma okkar á ströndinni og létum langþráðan draum rætast og gerðumst brimbrettakappar.

Eftir yndislega 11 daga í Indónesíu var kominn tími til að kveðja Asíu og fljúga til Ástralíu. Flugleiðin var heldur skrítin þar sem við þurftum að  fljúga til Singapore og taka flug þaðan til Brisbane. Þegar við vorum að bíða eftir að fá að ganga um borð fengum við upplýsingar um að fluginu til Singapore myndi seinka þar sem það þyrfti að loka flughelginni yfir Bali því Barack Obama, Bandaríkjaforseti, var að koma til Indónesíu. Við komum því allt of seint til Singapore og sáum fram á að missa af tengifluginu okkar. Við vorum því eiginlega búin að sætta okkur við að eyða næstu tímunum á flugvellinum og gengum því út úr vélinni í stökustu rólegheitum. Fljótt heyrðum við þó einhvern vera að hrópa nöfnin okkar en það reyndist vera starfsmaður Singapore flugvallar sem ætlaði að koma okkur í Brisbane vélina sem var að bíða eftir okkur. Við þurftum því að klæða okkur úr flip flop skónum og hlaupa um ganga flugvallarins og beint upp í lítinn flugvallarbíl sem brunaði um gangana með okkur. Vegna kappaksturshæfileika starfsmannsins og spretthæfileika okkar, náðum við vélinni og lögðum af stað til Ástralíu. Hið sama var þó ekki hægt að segja um farangurinn okkar, en það er önnur saga…

Leave a Reply

Your email address will not be published.