Nýja Sjáland

Næst lá leiðin til norðureyju Nýja Sjálands en þar dvöldum við í eina viku. Við eyddum henni í að keyra frá Wellington, syðst á eyjunni, og upp til Auckland í norðri. Við getum öll verið sammála um að þegar við keyrðum frá flugvelli þessa nýja áfangastaðar leið okkur eins og við værum stödd í einhverskonar twilight zone-i, en landslagið þarna hinu megin á hnettinum er skuggalega líkt landslaginu á Íslandi. Fyrstu viðbrögð okkar við þessu Íslands-líkis-landi voru því nokkuð ólík og án þess að fara neitt sérstaklega út í það getum við þó sagt að einn ferðalangurinn vildi helst snúa við og fara aftur á flugvöllinn. Hvort það var Íslands-áminningin eða sú staðreynd að Ástralía hafi þurft að vera kvödd látum við liggja á milli hluta. Við brölluðum annars ýmislegt í Wellington þar sem við fórum með sporvagni upp á hæsta punkt borgarinnar, skoppuðum um jólamarkað, röltum um verslunargötuna Cuba Street og skoðuðum Te Papa safnið, sem hýsir 500 kílóa hlussu smokkfisk sem ber þann vafasama heiður að vera stærsti smokkfiskur í heimi.

Eftir tvær nætur í Wellington var tími til kominn að halda leið okkar áfram. Við leigðum okkur því eins ódýran bílaleigubíl og við gátum og bókstaflega tróðum okkur fimm inn í hann sem og okkar hafurtaski. Eftir á að hyggja hefðum við betur mátt henda nokkrum auka dollurum í púkkið og blæða í stærri bíl og koma þannig í veg fyrir ferðalag sem minnti helst á rútuferðina í Kambódíu hér fyrr í reisunni. Við létum okkur þó hafa þessa nánd og keyrðum um Nýja Sjáland, pikkföst inni í persónulegu svæði hvers annars. Þar sem við vorum komin á Lord of the Ring slóðir kom auðvitað ekkert annað til greina en að skíra bílinn okkar Fróða.
Eftir formlega nafnaveislu brunuðum við inn í landið og til fjallabæjarins Ohakune þar sem við skelltum Teva söndulunum á fæturnar og dembdum okkur í 19,4 km gönguferð. Leiðin sem við fórum kallast Tongariro Alpine Crossing og liggur meðfram virkum eldfjöllum og túrkisbláum vötnum. Það má segja að þarna höfum við verið komin inn í miðja Hringadróttinsmynd þar sem við gengum fram hjá einu frægasta eldfjalli heims, Mt. Ngauruhoe sem “lék” sjálft Mt. Doom í myndunum góðu.

Næst lá ferðalag okkar til bæjarins Rotorua en á leiðinni þangað stoppuðum við á Wai-O-Tapu jarðhitasvæðinu þar sem við skoðuðum fullt af alls konar lituðum gígum og vötnum. Þar sáum við líka prumpupoll sem er mjög svipaður the Bog of eternal Stench úr kvikmyndaperlunni the Labirynth, ef einhver man eftir henni http://www.youtube.com/watch?v=2TY8T9iTUxc.

Þegar við vorum búin að koma okkur vel fyrir á hótelinu í Rotorua, sem var mjög heimilislegt með sjónvarpsholi og heitum potti, ákváðum við að rúnta út fyrir bæinn og skoða sjálflýsandi orma við árbakka Kaituna ánnar. Við lögðum af stað með kort að vopni og vorum nokkuð örugg með að svo sjóaðir ferðalangar eins og við myndum finna staðinn á núll einni. En eins og okkur var orðinn vaninn þá náðum við að sjálfsögðu að villast aðeins í myrkrinu og skrölti Fróði upp og niður vegi og spændi upp rándýra bensíninu sem enginn vildi missa. Við vorum komin ansi nálægt því að gefast upp þegar við römbuðum loks á rétta staðinn, parkeruðum bílnum og röltum af stað niður að ánni. Leiðin að ánni var algjörlega óupplýst og höfðum við ekkert nema litlu lyklakippu vasaljósin okkar til að vísa veginn. Það þarf varla að minnast á þær ofsóknarhugmyndir sem poppuðu upp í huga okkar þegar við mjökuðum okkur áfram í myrkrinu með ekkert nema fossadyn í eyrunum og hugmyndir um Ný Sjálenskar myrkraverur í kollinum. Okkur var svo öllum lokið þegar við sáum glitta í afar drungalegan kofa á leið okkar að ormunum en þá breyttust hugmyndir okkar um myrkraverur snögglega í hugmyndir um morðingja. Tilhugsunin um að vera tengd við fréttir í íslenskum dagblöðum um fimm frækna ferðalanga sem drepnir voru í leit sinni að sjálflýsandi ormum var svo langt í frá að vera heillandi þannig að við gáfum í og skokkuðum niður að ánni. Ótrúlegt en satt, þá komumst við þangað heil að höldnu, laus við dramatískar morðtilraunir, og slökktum á litlu vasaljósunum okkar. Þá komu í ljós hundruðir lítilla, sjálflýsandi orma sem gerðu þessa svaðilför okkar að ánni vel þess virði.

Daginn eftir leiðangurinn góða skelltum við okkur í bráðskemmtilega fljótasiglingu (river rafting) niður sömu á og ormarnir bjuggu við. Við vorum sótt heim að dyrum af nett klikkuðum rafting leiðsögumönnum sem ætluðu að leiða okkur niður þessa fimm stjörnu rafting á. Í rútunni beið okkar skemmtilegur glaðningur, eitt stykki íslenskur víkingur sem ætlaði að sigra þessa sömu á og við. Íslendingunum sex var því öllum smalað í sama bátinn og voru látnir gera alls kynns gloríur á leið sinni niður ána eins og t.d. standa niður flúðir. Við fengum því ansi gott adrenalínkikk út úr þessari ferð og erum öll sammála um að 7 metra hái fossinn sem við steyptumst niður hafi verið svakalegasti partur siglingarinnar.

Við höfðum það notalegt það sem eftir var dvalarinnar í Rotorua þar sem við grilluðum, fórum í heita pottinn á hótelinu og fengum okkur bjór á Lava Bar. Þar tók Steinar þátt í “parallel bungee jumping” keppni þar sem teygja var bundin um hann miðjann og átti hann að hlaupa sem lengst eftir bargólfinu án þess að skjótast til baka. Að fylgjast með keppninni reyndist vera hin argasta skemmtun en þátttakendur skutust út og suður, klesstu á veggi og héldu örvæntingarfullu dauðahaldi í það sem þeir náðu taki á. Steinar gerði sér að sjálfsögðu lítið fyrir, rústaði keppninni og hlaut gjafabréf í adrenalíngarð að launum.

Vegna íþróttamannshæfileika Steinars bættist smá auka krókur á leið okkar frá Rotorua til Auckland og brunuðum við því beint í adrenalíngarðinn þar sem Steinar nýtti gjafabréfið sitt. Hann byrjaði á því að skella sér í 43 metra hátt teygjustökk á meðan við hin stóðum með öndina í hálsinum. Þar á eftir fór hann í svokallað “free fall extreme” tæki sem gerði honum kleift að fljúga líkt og súperman! Flugið vakti ómælda lukku hjá okkur hinum og þótti okkur sérstaklega skemmtilegt að sjá andlitið á Steinari afmyndast í ferlinu.

Við enduðum ferð okkar um Nýja Sjáland í borginni Auckland en þaðan áttum við flug á næsta áfangastað. Við eyddum aðeins nokkrum klukkustundum í borginni og vildi svo óheppilega til að það rigndi á okkur allan tímann. Við sáum því heldur lítið af borginni en María, Steinar og Eva skelltu sér í bíó á meðan Áslaug og Haukur fóru á kaffihús.

Eftir eina viku í þessu áhugaverða landi sem minnir óneitanlega á Ísland flugum við áfram í sólina og sandinn á Fiji! Við segjum betur frá því síðar….

2 thoughts on “Nýja Sjáland

  1. Link exchange is nothing else except it is only placing the other person’s blog
    link on your page at suitable place and other person will also do same in support of you.

Leave a Reply

Your email address will not be published.