Kambódía

Laos endaði á því að okkur var „hent“ út úr rútunni á landamærunum þar sem okkur var sagt að grípa bakpokana okkar og labba yfir til Kambódíu. Þar tók vafasamur læknir á móti okkur og hitamældi með furðulegum mæli sem líktist helst hraðamæli lögreglunnar. Við reyndumst öll vera með 35° hita sem renndi stoðum undir grunsemdir okkar um að hann væri að mæla lofthita í stað líkamshita. VIP rútan sem átti að taka við okkur í Kambódíu reyndist vera yfirfull og var okkur því troðið í minibus sem kom akandi út úr skóginum. Eftir u.þ.b. klukkustundar akstur stoppaði bíllinn og okkur var sagt að færa okkur yfir í annan, töluvert minni minibus. Þar voru fyrir nokkuð margir heimamenn og því alls ekki pláss fyrir okkur og hina ferðalangana. Við vorum ekki sátt við þennan ferðamáta en eftir töluvert þras gáfumst við upp og tróðum okkur inn í bílinn. Fljótt kom í ljós að við vorum ekki stödd í neinum áætlunarbíl heldur var þetta local bus sem þýddi að við þurftum að skipta fimm sinnum um bíl á leiðinni og taka ýmsa ónauðsynlega útúrdúra. VIP ferðin sem átti að vera „non-stop“ ferð  endaði því í trilljón stoppum þar sem fólki og vörum var hent inn og út úr bílnum eða bílstjórinn ákvað að reykja, pissa eða spígspora í kringum bílinn án þess að gera nokkurn skapaðan hlut. Þess má þó geta að okkur gafst aldrei færi á að fara á klósettið eða kaupa okkur að borða alla tíu tímana sem ferðin tók. Það sem merkilegast var við þessa ferð var hversu mörgum farþegum bílstjóranum tókst að troða inn í þennan litla bíl. Á tímabili voru 21 manns í 11 manna smárútu og þar af voru tveir í bílstjórasætinu þar sem bílstjórinn sat á annarri rasskinninni, berfættur, spjallandi í símann, á 120 km hraða. Þegar við héldum svo að ekkert gæti komið okkur á óvart lengur stoppaði rútan og vaskir menn tóku að hlaða illa lyktandi pokum í skottid sem reyndust innihalda einhverskonar dýrahræ.  Á meðan á þessu stóð náðum við að teygja aðeins úr löppunum og rákum þá augun í nokkra heimamenn sem voru að verka hunda sem eru væntanlega orðnir að hamborgum í dag. Við komum að lokum brunandi til höfuðborgarinnar Phnom Penh, með hundahræin í skottinu og ærandi teknótónlist í eyrunum.

Kambódía er eitt fátækasta ríki í heimi en jafnframt ríkir þar mikil mismunun eins og við tókum mjög fljótlega eftir þar sem sjá mátti kofahreysi og glæsivillur í sama hverfinu. Saga Kambódíumanna er jafnframt mjög sorgleg og blóði drifin þar sem fyrir einungis 30 árum fór fram þjóðarhreinsun þar sem Rauðu Khmerarnir ollu því að þriðjungur þjóðarinnar var þurrkaður út. Í upphafi drápu þeir alla sem voru menntaðir eða töluðu ensku en að lokum virtust þeir drepa fólk eftir hentugsemi þar sem þeir drápu t.d. þá sem voru með gleraugu. Ein helsta vinnuregla þeirra var „Better to kill an innocent by mistake than spare an enemy by mistake“. Allt þetta gerðu þeir í þeim tilgangi að þvinga öfga kommúnisma upp á þjóðina. Í Phnom Penh skoðuðum við „Killing fields“ sem var eitt af fjölmörgum svæðum sem Rauðu Khmerarnir notuðu til að taka fólk af lífi. Þeir sýndu enga miskunn en við sáum til dæmis „Killing tree“ sem var notað í þeim tilgangi að drepa börn. Börnin voru tekin upp á fótunum og höfði þeirra slegið í tréð þangað til þau hreyfðu sig ekki lengur. Þeir töluðu um að „Pull up the grass, dig up the roots“ sem er vísun í að nauðsynlegt sé að drepa börnin með foreldrum sínum svo þau leiti ekki hefnda síðar.

Við skoðuðum líka gamlan skóla sem Rauðu Khmerarnir breyttu í fangelsi, S-21. Á þeim fjórum árum sem fangelsið var starfrækt voru u.þ.b. 20.000 fangar pyntaðir og drepnir og af þeim lifðu aðeins sjö manns dvölina af. Okkur þótti mjög fróðlegt að skoða S-21 og Killing fields en jafnframt var það mjög átakanlegt og erfitt  að sjá hversu grimm mannskepnan  getur verið.

Í Phnom Penh gerðum við ýmislegt annað en að læra um sögu lands og þjóðar. Við skoðuðum t.d. Konunglegu höllina, kíktum á Rússneska markaðinn og röltum um borgina.

Það var örlítið vesen að komast inn á svæðið þar sem Konunglega höllin stendur því það mátti ekki vera ósiðsamlega klæddur og uppfyllti klæðaburður stelpnanna því ekki þær kröfur sem gilda. Þær neyddust því til að kaupa rándýra og forljóta stuttermaboli til að fá inngöngu. Það var ýmislegt fallegt að sjá á þessu svæði eins og demantsskreyttan buddha úr gulli sem við, fátæku ferðamennirnir, íhuguðum að gera að fimmta ferðafélaga okkar. Á meðan stelpurnar gengu um eins og fáráðlingar í „fallegu“ bolunum sínum ákvað Steinar að ráfa í burtu frá þeim og kynntist þremur buddha munkum sem hann spjallaði heilmikið við.Á leið okkar á Rússneska markaðinn sáum við enn eitt dæmið um hversu góðir Kambódíumenn eru að troða fólki inn í bíla. Einn bíllinn sem þaut framhjá okkur innihélt heila stórfjölskyldu þar sem amman, sem heima hefði fengið framsætið, var klesst við farþegagluggann aftur í og afinn deildi ökumannssætinu með bílstjóranum. Rússneski markaðurinn var týpískur markaður þar sem  hægt var að finna allt milli himins og jarðar og náðum við að mastera prútt-taka okkar á örskotstíma.

Næst lá leiðin norður til Siem Reap með VIP rútu. Í þetta skiptið var um alvöru VIP rútu um að ræða og er sú ferð því ekki frásögu færandi. Í Siem Reap áttum við bókaða gistingu á notalegu gistiheimili þar sem við vorum einu gestirnir. Hótelstrákarnir höfðu því ekkert annað að gera en að stjana við okkur og virtist þeim ekkert þykja verra að gera það vel í glasi og önguðu þeir því alltaf í takt við það.

Þegar við sögðumst ætla að skoða Angkor hofin sögðust strákarnir geta skutlast með okkur fyrir spottprís og stukkum við að sjálfsögðu á það vitandi að ökumaðurinn gæti eflaust ekki gengið beina línu þótt hann fengi milljón fyrir. Á Angkor svæðinu skoðuðum við að sjálfsögðu stolt Kambódíumanna, Angkor Wat, Tomb Raider hofið og önnur hof.

Við gerðum ýmislegt í Siem Reap eins og að fara á Aspara danssýningu, í nudd fyrir $1, fótsnyrtingu, ráfuðum um næturmarkaðinn þar sem við sýndum prútthæfileika okkar og skelltum okkur barinn sem Angelina Jolie stundaði þegar hún var við tökur á Tomb Raider.

Nokkrum dögum áður en við komum til Siem Reap hafði allt verið á floti en þegar við mættum á staðinn var orðið þurrt. Okkur var sagt að von væri á nýju flóði en virtust borgarbúar ekkert vera að kippa sér upp við það svo ekki gerðum við það heldur. Við gerðum bara allt það sem góðum túristum sæmir og fórum til dæmis út að borða á ekta kambódískum stað eitt kvöldið þar sem við fengum að elda kjötið okkar sjálf. Á boðstólnum var kengúra, snákur, krókódíll, strútur og naut. Skriðdýrin brögðuðust ágætlega en voru nokkuð gúmmíkennd og tók því nokkuð á kjálkavöðvana að tyggja þau. Kengúran stóð klárlega upp úr og erum við öll sammála um að kengúrukjöt verður aftur á matseðlinum í Ástralíu. Rétt er að minnast á að Steinari þótti þetta allt afbragðsgóður matur og kláraði alla afganga sem stelpurnar neituðu að láta ofan í sig. Þegar við komum út af veitingarstaðnum var örlítið vatn komið á göturnar en við ákváðum að láta svoleiðis smámuni ekki á okkur fá og skelltum okkur inn á næsta bar þar sem við pöntuðum okkur kokteila sem kostuðu 150 ISK á haus. Þegar við vorum búin að tjútta og ákváðum að segja þetta gott var allt komið á flot og þurftum við því að vaða strætin heim.

Kambódía er magnað land og var æðislegt að vera þar og mælum við eindregið með því að fólk leggi leið sína þangað. Það sem gerði landið svo enn betra var fólkið sem býr þar en það var það vingjarnlegasta sem við höfum kynnst. Okkur þótti það mjög aðdáunarvert miðað við það sem þjóðin gekk í gegnum fyrir alls ekki svo löngu síðan.

Eftir Kambódíu lá leið okkar til Tælands og segjum við frá því síðar.

Indland – Mathura, Agra og Varanasi

Mathura var staðurinn sem við vissum lítið sem ekkert um þegar við lögðum í hann. Við héldum að við værum að fara á lítinn friðsælan stað en raunveruleikinn var annar. Þegar við stigum út af lestarstöðinni tóku trilljón tuktuk bílstjórar á móti okkur, umkringdu okkur og reyndu að ýta okkur inn í bílinn sinn. Við skiptum okkur í tvö lið og keyrði tukka Áslaugar og Maríu fyrst af stað. Umferðin var kolrugluð að vanda en á þessu stigi vorum við hætt að kippa okkur upp við slíkt. Þegar seinni tukkan kom á hótelið með Evu og Steinar innanborðs voru Áslaug og María hvergi sjáanlegar. Korteri síðar og tveimur tjékk-innum síðar voru þær enn hvergi sjáanlegar og voru hótelstarfsmennirnir farnir að efast um að við værum í raun fjögur. Þegar þær mættu loks á svæðið kom í ljós að þær höfðu lagt upp í svaðilför sem endaði á lögreglustöð borgarinnar. Unglingsbílstjórinn þeirra hafði ekki hugmynd um, frekar en þær, hvert hann ætti að fara og tók handahófskenndar beygjur í von um að ramba á hótelið og allar tilraunir til samskipta á ensku voru frekar gagnslausar því enginn í borginni virtist skilja stakt orð í því tungumáli. Þrátt fyrir að þeim hafi ekki staðið á sama meðan á þessu stóð varð þetta að ágætis ævintýri og sáu þær meðal annars apa á flótta undan bálreiðum bæjarbúum með stolið knippi af bönunum. Apinn slapp með skrekkinn og klifraði upp á næsta húsþak og gæddi sér á fengnum.

 

Við skoðuðum merkilegasta hof bæjarinns sem Indverjar trúa að sé fæðingarstaður Krishna sem er einn af aðalguðunum í hindúatrúnni. Þegar við vorum að skoða hofið dúkkaði gömul indversk kona upp við hlið okkar og gaf okkur nammi og gekk á eftir Steinari, sagði honum að hann væri hennar Krishna og gaf honum hvíta perlufesti. Það sem okkur þótti þó merkilegast við þetta hof voru apakettirnir sem klifruðu í trjánum og létu sig gossa í lítið vatn.
Við skelltum okkur svo í siglingu á Yamuna ánni sem rennur í gegnum borgina en það var fyrsta rólega stundin sem við höfðum átt í langan tíma. Við fengum frábæran leiðsögumann sem sagði okkur frá því sem fyrir augu bar en gallinn var að við skildum ekki stakt orð af því sem hann sagði. Það gerði þó ekkert til því rólegheitin voru meira en nóg fyrir okkur. Eftir siglinguna var Steinar blessaður í „hreina“ vatinu af einum innfæddum, gegn þóknun, og við fengum öll rauðan punkt á ennið.

Það sem eftir lifði dagsins gengum við um borgina og sáum margt athyglisvert. Merkilegast þótti okkur þó að í heilan sólahring höfðum við ekki séð einn einasta ferðamann, fyrir utan okkur fjögur.

Að vanda var netsambandið sem lofað var á hótelinu í besta falli mjög takmarkað sem leiddi til þess að við sátum í einni hrúgu í móttökunni, eina staðnum sem netsamband náðist, að reyna að finna okkur gistingu í Agra. Þar kynntumst við vingjarnlega hótelstjóranum Bobby. Hann byrjaði á að bóka fyrir okkur gistingu á góðu verði hjá frænda sinum í Agra, hélt svo áfram og bauð okkur upp á indverska tómatsúpu og toppaði það svo með því að senda kvöldverð til okkar upp á herbergi. Ekki nóg með það heldur kom hótelstjórinn með og mataði okkur öll upp í rúmi hjá Áslaugu og Evu (sjá mynd til sönnunar). Vingjarnlegi hótelstjórinn hætti ekki þar heldur bauð okkur í morgunmat til sín og fjölskyldu sinnar (þ.e. foreldra og systkina) og til að skutla okkur til Agra á bílnum sínum (klukkutíma akstur). Að sjálfsögðu tókum við boði inn á indverskt heimili fagnanadi og ekki verra að aksturinn fylgdi með í kaupbæti. Plön okkar að fá loksins að sofa út fuku út um gluggann því Bobby vildi leggja af stað klukkan 8, okkur tókst þó að seinka því til hálf 9. Morguninn eftir bankaði vingjarnlegi hótelstjórinn eldsnemma og stóð afskaplega óþægilega yfir okkur á dröttuðumst í fötin og pökkuðum. Á meðan fengum við heldur ótrúverðuga sögu um hvernig vegurinn heim til hans hafði skyndilega rifnað í sundur, án þess að dropi hefði komið úr lofti, og því gætum við alls ekki heimsótt fjölskylduna hans. Við kinkuðum þó skilningsrík kolli því mæður okkar hefðu heldur ekki verið ánægðar að fá fjóra útlendinga fyrirvaralaust í morgunmat. Við höfðum ekki séð bíl af þeirri tegund sem hann hafði til umráða áður en Toyota Yaris væri tröllslegur við hliðina á honum. Öll komumst við þó inn á endanum og töskunum svo troðið á eftir. Leiðin lá til beint til Agra með tveimur Hofslaugar-stoppum á leiðinni. Svo töskunum okkar yrði ekki rænt mútuðum við lögreglumanni til að vakta bílinn á meðan við skoðuðum Sikandara Tomb. Við keyptu líka banana og kex á miðri leið. Þar sem Áslaug er sérfræðingurinn okkar indversk-ensku fékk hún framsætið og þann vafasama heiður að mata bílstjórann, að hans beiðni.

Við tékkuðum okkur inn á hótelið í Agra og var Bobby hæst ánægður með herbergið „þeirra“, þá átti hann við herbergi sitt, Áslaugar og Evu. Þá fóru að renna á okkur tvær grímur og hótelstjórinn orðinn full vingjarnlegur, enda um 2ja manna herbergi að ræða. Eftir vandræðalega þögn héldum áfram og skoðuðum Red Fort/Agra Fort ásamt Bobby. Þar fór hann að fara hressilega í taugarnar á okkur með ýmsum tilraunum til að smala okkur eins og kindum. Fljótlega tókum við eftir því að áhugi hans beindist fyrst og fremst að Áslaugu. Vingjarnlegi hótelstjórinn umbreyttist í ástsjúka hótelstjórann. Eftir stutt stopp í einu verslunarmiðstöðinni sem við sáum í ferðinni var Bobby farinn að skipuleggja kvöldið og morgundaginn með okkur. Þá þótti okkur nóg komið og sendum hótelstjórann heim með brotið hjarta.

Blessunarlega birtist hótelstjórinn ekki morguninn eftir og örkuðum við af stað og skoðuðum Taj Mahal. Það var byggt sem grafhýsi fyrir eiginkonu keisara sem var uppi á 17. öld. Taj Mahal er þekktasta kennileiti Indlands og oft lýst sem magnaðasta minnisvarða ástarinnar. Það tók um 20 þúsund manns 20 ár að byggja þetta glæsilega mannvirki. Við mynduðum Taj Mahal í bak og fyrir, bæði í dagsljósi og sólsetri, rétt eins og innfæddir mynduðu okkur í bak og fyrir. Eftir sólsetur lögðum við af stað að útganginum sem er smá spölur. Gerði þá þvílíka rigningu að beljandi fljót mynduðust þar sem áður voru göngustígar. Við leituðum skjóls undir virkisveggnum sem er umhverfis hofið. Fljótlega tóku við þrumur og eldingar, okkur til mikillar gleði.

Daginn eftir gerðum við tilraun til að rölta gegnum bæinn sem gekk ekkert sérlega vel. Bæði vorum við svöng og þreytt og ekki bætti úr skák að Agra búar voru yfirþyrmandi ágengir. Þarna fundum við fyrir því hvað við vorum orðin þreytt á hávaðanum, áreitinu og óþrifnaðinum í Indlandi. Um kvöldið lá leiðin á síðsta áfangastað Indlands, Varanasi.

Við komum 4 tímum of seint til Varanasi því lestin keyrði niður tvo vísunda á leðinni og tók sinn tíma að skafa þá undan lestinni. Þegar kom að því að finna tuktuk-a gripum við þá bílstjóra sem buðu okkur ódýrasta verðið. Það reyndist þó ekki vera gáfulegt múv því þetta varð að einni allsherjar svikamyllu þar sem bílstjórinn fór með okkur á ógeðslega hótel bæjarins og sagði það vera hótelið sem við vildum fara á. Leiðin þangað var eins og úr verstu hryllingsmynd: þröng stræti, rotnandi hundur, feitar beljur sem fylltu út í gangveginn og klassíska indverska skítafýlan fyllti vit okkar. Við áttuðum okkur fljótt á því að við vorum líklega á röngum stað en gátum lítið gert í því þar sem við vissum ekkert hvar við vorum. Bílstjórinn stakk þá á upp á öðru hóteli og þar sem við vorum ekki búin að bóka hitt ákváðum við að  kíkja á það. Það reyndist þó til allrar lukku vera hið ágætasta hótel, með lokuðum garði þar sem við gátum fengið kærkominn frið og ágætan mat.

Í Varanasi fórum við tvær siglingar á Ganges fljótinu sem er heilagt í augum Indverja. Fólk baðar sig í fljótinu, burstar tennurnar, veiðir fisk, þvær þvottinn sinn, drekkur úr því en auk þess dreifir það ösku látinna ástvina í fljótið. Í fyrri siglingunni, sem var við sólarupprás, mátti litlu muna að Áslaug og María ældu í fljótið þegar þær sáu fólk baða sig og bursta tennurnar upp úr því vitandi af öllum viðbjóðnum sem leyndist í fljótinu fyrir neðan þær. Við fljótið eru u.þ.b 80 ghat, en það eru þar til gerðir brennslustaðir þar sem líkin eru brennd. Lík barna undir 10 ára aldri, óléttra kvenna og þeirra sem létust úr sjúkdómum eru þó sett beint í fljótið. Við fylgdumst með einni brennsluathöfn og þótti okkur það mjög merkileg sjón þar sem líkin lágu óhulin á bálkesti þannig að við horfðum framan í þau á meðan þau brunnu.

Án gríns þá er “Viltu vinna milljón” vinsælasti sjónvarpsþáttur Indlands og virðist vera í sjónvarpinu á hverju kvöldi. Oft sáum við alla hótelstarfsmennina spennta fyrir framan imbakassann að fylgjast með.

Á heildina litið erum við mjög ánægð með þessa Indlandsdvöl og hefðum aldrei viljað sleppa því að koma hingað. Hlutir sem við rákum áður upp stór augu yfir í byrjum eru orðnir ósköp eðlilegir. Fátt er orðið sjálfsagðara en ráfandi beljur og flækingshundar á götunum, vöntun á umferðarljósum og fátækt fólk hvert sem litið er. Nú erum við þó tilbúin í næsta ævintýri og bíðum spennt eftir því að sjá hvað mun á daga okkar drífa í Nepal.

Indland – Delhi

Líkt og kom fram í síðustu færslu er flugfélagið Virgin Atlantic nýja uppáhalds flugfélagið okkar. Ástæðan er einföld og góð: hressu karlkyns flugþjónarnir (einn hét Gaur) gáfu okkur gjafir! Svo nú erum við einu sokkapari, augngrímu, tannbursta, tannkremi, penna og “óhreinatauspoka” ríkari. Maturinn var líka betri en við bjuggumst við, og hann var ókeypis. Við fengum karrírétt í kvöldmat og með honum fylgdi dýrindis súkkulaði-karamellu-bananamús. En það var ekki allt sem við fengum. Morgunmatur var líka innifalinn en hann var borinn fram um miðja nótt og leit ískyggilega mikið út eins og kvöldmaturinn – sem sagt, karrýréttur í morgunmat.

Fjöllin í Afganistan

Dagur 1

Við lentum í Delhi rétt fyrir hádegi þar sem okkar beið bílstjóri sem hélt á spjaldi með nöfnunum okkar. Líkt og búist var við lentum við á “vegg” þegar við löbbuðum út úr flugstöðinni en hitinn hér er um og yfir 30°C. Bílferðin líktist frekar rússíbanaferð en einhverju öðru en umferðin hér er svakaleg. Bílar keyra þvers og kruss, bílstjórar flauta eins og brjálæðingar, fólk röltir í rólegheitunum inn í hraðbrautir (í veg fyrir bílana), beljur standa úti á miðri götu og lítil börn hanga á rúðunni manns og reyna að selja manni alls konar drasl. Það sem toppar þetta allt saman er svo að engin bílbelti eru í þessum skrjóðum – já og svo er afskaplega lítið af umferðarljósum.

Við komumst þó heil að höldnu á hostelið okkar sem er staðsett við líflega baazar götu en komumst þó ekki inn fyrr en nokkrir Indverjar voru búnir að “áreita” okkur. Við ákváðum svo að skoða hverfið en í þeirri háskaför kynntum við honum Chris vini okkar sem er bakpokaferðalangur frá Þýskalandi. Við slógumst í för með honum þar sem hann virtist vera örlítið reyndari heimshornaflakkari en við. Það gekk þó ekki betur en svo að við ráfuðum um í c.a 2 tíma og fengum allskyns áhangendur sem vildu ólmir “hjálpa okkur”. Við sáum þó ýmislegt í þessar ferð eins og markaði, apa, betlara, hof o.fl. Að lokum fundum við nokkurskonar miðbæ þar sem fullt af búðum og veitingastöðum eru en þar beið okkar betlari sem elti okkur á röndum með Gollum puttana sína. Hann var heldur ágengur þar sem hann togaði í okkur og strauk puttanum niður eftir handleggjunum okkar þannig að við gátum fátt annað gert í stöðunni en að flýja inn í skóbúð og spritta okkur í drasl.

Gatan okkar og TukTuk


Dagur 2

Við vöknuðum eldsnemma og fórum í morgunmat uppi á þaki á hostelinu þar sem drulluskítugir sokkar kokksins hengu til þerris á skilrúminu milli eldhússins og borðsins okkar.

Deginum eyddum við svo í skoðunarferð um Delhi með einkabílstjóra sem kostaði 2250 kr sem þýðir að bíllinn kostaði 280 kr á tímann. Þetta sáum við:

Shree lakshmi narayan mandir sem er hindúahof þannig að við þurftum að fara úr skónum og klæða okkur siðsamlega. Við prófuðum að biðja fyrir framan styttur í félagi við hóp af Indverjum og fengum punkta á ennið.

India gate sem er minnisvarði fyrir Indverska hermenn. Þar kynntumst við fyrst Indversku áreiti fyrir alvöru og gátum varla skoðað minnisvarðann að sökum vinsælda okkar. Okkur leið eins og Hollywood stjörnum þar sem fólk hópaðist í kringum okkur og vildi fá að sitja fyrir á mynd með okkur. Fyrir hvern sem fékk mynd bættust við fimm nýjir sem vildu mynd.


Ólöglegur slöngutemjari sýndi okkur dansandi kóbraslönguna sína milli tveggja bíla og vildi fá fúlgu fyrir – við gáfum honum 25 íslenskar krónur.


Forsetahöllina og skrifstofur forsetansIndira Gandhi safnið sem leiddi okkur í gegnum líf forætisráðherrans, þar til hún var skotin til bana.Qutub minar sem er ansi hár íslamskur turn með ýmsum byggingum í kring. Þar fengum við nokkra rigningardropa og ákvað Áslaug að klæða sig í bláa plast skikkju. Hún vakti ansi mikla athygli þar sem fólk byrjaði að benda á hana og hlægja.

Lotus hofið er stórt og fallegt hof sem svipar til óperuhússins í Sydney. Það er ætlað fólki, óháð trúarbrögðum.

Dagur 3

Síðasta  daginn í Delhi ákváðum við að prófa TukTuk sem eru litlu leigubílarnir í borginni sem líkjast golfbílum nema þeir hafa 3 hjól. Í fyrstu tilraun var okkur hent út út bílnum því við neituðum að fara í Indverska fatabúð í leiðinni. Í næstu tilraun tóku við fram að við vildum engar búðir og samþykkti bílstjórinn það. Deginum var eytt í túristaleik þar sem Chris nýji vinur okkar slóst í hópinn.

Við sáum:

Akshardum sem er stærsta hindúahof í heimi.

Humayun sem er grafhýsi sem svipar víst til Taj Mahal.

Um kvöldið lá leið okkar á lestarstöðina þar sem 12 klst lestarferð til Amritzar beið okkar. Líkt og venjulega vöktum við mikla athygli þar en fólk hópaðist í kring um okkur og starði. Meira um það síðar…