Laos

Laos byrjaði á heldur betur skrautlegri flugferð með Vietnam Airlines. Í flugtaki tókum við eftir því að sumar handfarangursgeymslurnar voru ennþá opnar og flugþjónarnir of uppteknir í símunum sínum til að taka eftir því. Vatnsflöskur rúlluðu frjálsar um gangveginn, eftir því í hvora áttina vélin hallaði, og enn voru flugþjónarnir í símunum sínum þegar við lentum í Laos.  Flugvöllurinn sem við lentum á í Luang Prabang minnti á Egilsstaðaflugvöll, fyrir breytingu. Um var að ræða eina flugbraut og lítinn kofa með afar rólegri öryggisgæslu og krúttlegum púðlufíkniefnahundum.

Í Luang Prabang vorum við saman í herbergi með einkaklósetti. Minniháttar vandamál var stærðarinnar glerlaus gluggi milli baðherbergisins og herbergisins sem  takmarkað næði þar inni. Þó hafði það sína kosti að geta haldið spjallinu áfram þótt einhver væri í sturtu eða að sinna örðum verkefnum þar inni.

Luang Prabang er lítil og falleg borg við Mekong fljótið umkringd skógi vöxnum hlíðum. Við nutum þess að ganga óáreitt um næturmarkaðinn, skoða hof, hjóla í rólegheitunum um miðbæinn og fórum svo í sólseturssiglinu á Mekong fljótinu. Á þessum tímapunkti voru ferðlalangarnir aðeins þrír þar sem Eva var komin með einhverskonar matareitrun og sá þar af leiðandi ekki mikið af borginni.

Við pöntuðum okkur eina skipulagaða dagsferð sem byrjaði á kajaksiglinu niður Nam Khan ána að Tad Se fossinum.  Þar hittum við tvo stærðarinnar fíla sem báru okkur um svæðið. Fíllinn hans Steinar skeit nokkum fótboltum í fossinn og fíll stelpnanna var með unglingaveiki og gerði nákvæmlega það sem honum sýndist. Eftir að hafa kvatt fílana okkar böðuðum við okkur svo ofar í fossinum. Eftir það héldum við áfram á kajakönum niður ána við undurfagran söng leiðsögumannsins okkar sem söng vestræn popplög að mikilli innlifun með eigin textaútfærslum.

Næst lá leiðin í partýbæinn Vang Vieng en til þess að komast þangað lögðum við upp í 6 tíma bílferð í smárútu. Vegirnir voru verulega hlykkjóttir og skoppuðum við upp og niður í sætunum okkar alla leiðina. Sjá mátti merki um aurskriður með reglulegu millibili og voru vegirnir eftir því. Áslaug sat við hliðina á ofsaglöðum Laosbúa sem hló að öllu sem við sögðum og fylgdist spenntur með öllu sem fram fór í iPodinum hennar.

Eins og áður segir er Vang Vieng partýbær sem er gjörsamlega gegnsósaður af ferðamannaiðnaðinum. Allir veitingastaðirnir voru með flennistór sjónvörp sem sýndu ýmist Friends eða Family Guy allan daginn. Helsta íþrótt bæjarins er svokallað „tubing“ sem flest í því að fljóta á uppblásnum dekkjum milli skemmistaða við bakka Nam Song ánnar, sem liggur gegnum bæinn. Að sálfsögðu tókum við þátt í því og var það heldur betur fjörug upplifun. Ferðin byrjar á fyrsta barnum þar sem tekið var á móti okkur með ókeypis viskískoti. Við drukkum blandaða drykki úr sandkassafötum, sveifluðum okkur úr tarzanrólum út í ána, kepptum í limbó og kynntumst ýmsum ferðalöngum á leið okkar niður ána. Auk fríu viskískotanna, sem allstaðar voru í boði, var hægt að vinna sér inn frítt áfengi með því leysa hinar ýmsu þrautir, t.d. klifra eftir stálvír út í miðja ána og slá þar í fötu sem Steinar gerði með miklum sóma. Fyrir vikið hlaut hann fötu af glundri sem hann deildi vissulega með ferðafélögunum og nývinum sínum. Tíminn flaug áfram og fyrr en varði skall á myrkur. Þá uppgötvuðum við að dekkin okkar voru horfin og þá eru góð ráð dýr. Valið stóð á milli þess að fara dekkjalaus heim eða synda á næsta bar og stela dekkjunum okkar aftur. Hafa ber í huga að tryggingin okkar var í húfi, heilar 250 íslenskar krónur á mann. Að sjálfsögðu stungum við okkur til sunds í myrkrinu, létum draga okkur á land á bar númer 4 og endurheimtum dekkin okkar sigri hrósandi.

Fyrir utan tubing gerðum við fátt merkilegt í Vang Vieng fyrir utan að horfa á Friends og borða sveitta hamborgara. Engin hámenning hér á ferð en kærkomin skemmtun. Næst lá leiðin til Don Det sem er lítil eyja í Mekong fljótinu syðst í Laos, við landamæri Kambódíu. Rútuferðin þangað var samkvæmt áætlun 17 tímar en endaði á að vera 28 klukkustundir. VIP svefnrútan okkar var alls ekki eins og á myndum og tveggja manna kojurnar heldur litlar fyrir Íslendinga í fullri stærð. Blessunarlega er fjöldi okkar slétt tala og gátum við deilt rúmum, annað en ísraelski vinur okkar sem þurfti að kúra með laoskum karlmanni alla leiðina. Rútan bilaði stöðugt sem olli því að við misstum af rútunni okkar síðasta hluta leiðarinnar. Á endanum tókst okkur að fá hana endurgreidda og skipulögðum okkar eigin smárútu ásamt fleiri ferðalöngum í sömu vandræðum. Að lokum komumst við dauðþreytt á leiðarenda.

Eyjan Don Det var enn rólegri en Luang Prabang og minnti á Flatey. Þar eru engir bílar, enginn hraðbanki og óupplýstir moldarstígar lágu á milli staða. Við fundum ódýra og frumstæða gistingu í bungalow-kofum við Mekong fljótið sem höfðu hengirúm á veröndinni og fljölskrúðugt dýralíf. Í miðjum garðinum var sameiginlegt klósett og sturta þar sem María lenti í slímugri froskaárás í sinni fyrstu heimsókn. Eftir það líkaði henni verulega illa við froska og notaði klósettið eins sjaldan og hún komst upp með. 

Við fórum í ferð þar sem við skoðuðum skoðuðum Khone Phapheng fossinn sem er sá vatnsmesti í Suðaustur-Asíu. Hann minnti á efsta hlutann í Gullfossi og vakti passlega lítinn áhuga hjá okkur. Við sigldum svo yfir til Kambódíu þar sem við sáum afar sjaldgæfa Irrawaddy ferskvatnshöfrunga en þeir voru hinsvegar mjög feimnir við myndavélarnar okkar.

Seinnipart dagsins hjóluðum við um Don Det og yfir á Don Khon eyjuna. Þar hittum við brúarvarðmann sem sagði að við þyrftum að borga brúartoll ef við vildum komast yfir á Don Khon. Eftir að hafa skeggrætt málin og spurt aðra vegfarendur hvort að það væri þess virði að fara þarna yfir ákváðum við að slá til og borga 100 ISK á haus. Á Don Khon skoðuðum við annan foss og hjóluðum niður að strönd þar sem við rákumst á risastórt spikfeitt svín sem lá í mestu makindum sínum og sólaði sig. Steinari varð svo um og ó að hann var næstum dottinn þar sem hann hjólaði í rólegheitunum eftir ströndinni. 

Næst lá leiðin til Kambódíu sem við segjum frá í næstu færslu.

Víetnam

Ferðin til Víetnam byrjaði með næturdvöl á Singapore flugvelli. Okkur til mikillar gleði leit hann frekar út sem skemmtigarður en hefðbundin flugstöð. Á þessum geysistóra stað var sólblómagarður, fiðrildagarður, bíó, nuddstólar og -stofur, hinar ýmsu verslanir og veitingastaðir, barir með live tónlist, tölvuleikjasalir og fleira. Klósettin voru hrein en það er ákveðinn lúxus sem við höfðum ekki upplifað í ágætis tíma. Inni á hverju klósetti var ábyrgðarmaður sem kynnti sig með nafni og ræddi við okkur um daginn og veginn. Við vorum eins og litlir krakkar  í nammibúð og misstum okkur í vestræna fílíngnum þar sem við eyddum fúlgu í Burger King og Starbucks. Við byrjuðum með smá uppreisn þar sem við neituðum að fara að sofa og ætluðum sko að upplifa allt sem flugstöðin hafði upp á að bjóða en að lokum sigraði Óli Lokbrá og við steinsváfum í „lúxus“ svefnstólum í Oasis lounge-inu í hitastigi sem var eflaust við frostmark.

Sólblómagarðurinn sem var á þakinu á Singapore flugstöðinni

Þessi var í miðri flugstöðinni - takið eftir fiskunum

Hér mátti finna afþreyingu fyrir alla

Ekki er allt í stærðarhlutföllum á Singapore flugvellinum

Frítt fótanudd fyrir þreytta ferðafætur

Þegar við vorum á leið okkar frá flugvellinum í Hanoi lentum við í elsta leigubílasvindlinu sem til er í bókinni þar sem kauði ætlaði að keyra okkur á vitlaust hótel. Við sáum þó í gegnum fölsku Dolce&Gabbana skyrtuna, Chanel skóna og  Gucci sólglerugun og ætluðum ekki að láta Víetnamskan wannabe mafósa gabba okkur – fool us once shame on you, fool us twice shame on us.

Herbergið okkar minnti skemmtilega mikið á fangaklefa

Skálað við tjörnina

Líkt og á Íslandi þar sem kindur eru fleiri en fólk virðist það vera sem svo að í Víetnam eru fleiri vespur (scooters) en fólk. Maður sá varla bíla á götunum en vespurnar þustu áfram á ógnarhraða í þúsundatali. Það virtist engum takmörkum vera háð hversu mörgum Víetnömum er hægt að troða á hjólin og var til dæmis ekki óalgengt að sjá heilu fjölskyldurnar á einu og sama hjólinu.

Traffíkin í Hanoi

Í Hanoi sáum við ýmislegt skemmtilegt eins og grafhýsi Ho Chi Minh en það var því miður lokað því herra Ho Chi Minh var í sinni árlegu endursmurningu í Rússlandi. Fyrir þá sem ekki vita var  Ho Chi Minh kommúnista leiðtogi sem spilaði stórt hlutverk í að mynda lýðveldisríkið Vietnam. Hann stofnaði einnig Víetkong herinn sem flæmdi Bandaríkjamenn úr landinu í Víetnam stríðinu. Síðar meir var fyrrum höfuðborg S-Víetnam, Saigon, endurskýrð Ho Chi Minh City til heiðurs honum. Það sem okkur þykir svo nokkuð merkilegt er að hans hinsta ósk var að láta brenna sig en Víetnamar ákváðu að heiðra ekki þá ósk og geyma hann, smurðan og fínan, uppi á stalli í risa stóru grafhýsi og skoða lík hans reglulega.

Steinar náði að mastera grafhýsis-pósuna

Vaktaskipti

Sötrað á bátsþaki

Sölutrix sem við höfðum ekki lent í áður

Við sáum einnig önnur kennileiti í borginni eins og forsetahöllina (sem er þó aðeins nýtt til opinbera heimsókna), hof, ýmsar styttur, herminjasafn og afskaplega rómantíska tjörn sem var umkringd af neonljósum og ástföngnum víetnömskum pörum.

María hitti fjarskylda ættingja sem vildu ólmir taka myndir

Steinar á leið í loftið

Peace

Kung fu taktar af bestu gerð

 

Við fórum í þriggja daga ferð um Ha Long Bay sem var sannkölluð paradísarferð. Ha Long Bay samanstendur af óteljandi klettaeyjum og er á heimsminjaskrá UNESCO. Fyrri nóttina gistum við á Asia Cruise bátnum okkar og þá seinni í strandkofum (bungalow) á Monkey Island. Bátsferðin var ótrúlega skemmtileg og leið okkur soldið eins og við værum komin í „frí“ frá langa og stranga ferðalaginu okkar. Við skoðuðum helli, sem búið var að pimpa upp með neonljósum og marmaragólfi, fórum á kayak, syntum í sjónum og enduðum kvöldið í hörku karókí partýi þar sem starfsmenn bátsins léku á alls oddi og sungu hvert víetnamska lagið á fætur öðru. Þegar við vorum á mörkum þess að hoppa fyrir borð í þeim tilgangi að drekkja víetnömsku tónunum ákváðum við að betri hugmynd væri að rífa mækinn af starfsmönnunum og syngja nokkur vel valin ENSK lög. Þegar stemningin var í hámarki klifraði vel gelaður, hundblautur, kandaískur, úber töffari í annarlegu ástandi um borð og sagðist hafa heyrt í tónlistinni og ákveðið að þar væri fjörið. Fljótlega hóf hann einræðu þar sem hann lýsti eigin ágæti í mjög löngu og endurteknu máli. Hann tjáði okkur til dæmis að hann væri atvinnu snjóbretta-, brimbretta- og sundmaður en auk þess sagðist hann vera vínsmakkari, sem fyndi kengúrubragð af Áströlskum vínum, og kokkur í gæðaflokki. Þegar atvinnusundmaðurinn ætlaði svo loks að snúa aftur til síns heimabáts brást honum heldur betur bogalistin þar sem hann synti í hring og kom aftur til baka á bátinn okkar. Þegar við sögðum honum að hann væri aftur komin til okkar gapti hann af undrum og botnaði hvorki upp né niður í hvernig það hefði gerst. Hann lagði þá aftur af stað en þá vildi það þó ekki betur en svo að áfangastaðurinn varð aftur rangur bátur, þó ekki okkar í þetta skiptið.

Surprising cave - sem við endurskýrðum diskóhellir

Það var mikil umferð í flóanum

Steinar tók fyrsta stökkið (og braut ljósið í leiðinni)

Víetnamskir söngtaktar í fullu swingi

Báturinn okkar

Næsta dag fórum við í fjallgöngu í þjóðgarði á Cat Ba eyjunni og sigldum svo yfir á Monkey Island. Þar tók á móti okkur einkaströnd og lúxus strandkofar og nutum við lífsins þar sem við sóluðum okkur, hittum apa, fórum á kayak o.fl.

Ekki fyrir lofthrædda

Monkey Island

Við fengum lúxus bungalow

Steinsi boy að chilla fyrir utan bungalow-inn sinn

Það voru apar á Apaeyjunni

Við gáfum þeim hnetur

Sólsetrið var afskaplega fallegt

Þessi tekur öll flækingsdýr í fangið og furðar sig á öllum "flóa"bitunum sem hún fær

Eftir Ha Long Bay ferðina lá leið okkar aftur til Hanoi og þaðan til Laos. Við höfðum planað að fara aftur til Víetnam eftir Laos en þar sem tíminn flýgur áfram munum því miður ekki hafa tíma til þess. Okkur líkaði þó mjög vel við Víetnam og værum öll til í heimsækja landið aftur.

Sérstök matarmenning á götum Hanoi

 Yfir og út – hin fjögur fræknu

Nepal

Nú erum við nýkomin til Laos frá Víetnam en ætlum að byrja á að segja ykkur frá Nepal.

Við höfðum aðeins 5 daga í Nepal og var dagskráin því mjög þétt. Við komum okkur fyrir á hostelinu í sameiginlegu 6 manna herbergi á 6. hæð. Nóttin kostaði 225 ISK. Í móttökunni var einskonar félagsmiðstöð þar sem við kynntumst fólki  hvaðanæva að úr heiminum, almennileg bakpokastemning. Við vorum dregin inn á ferðaskrifstofu þar sem við bókuðum fjallaflug og „létta“ 2ja daga göngu gegnum Shivapuri þjóðgarðinn. Eldsnemma morguninn eftir vorum við keyrð aftur út á flugvöllinn og ferjuð upp í litla flugvél sem flaug meðfram Himalaya fjallgarðinum og að Mount Everest.  Við fengum að taka myndir út um flugstjórnarklefann og í lok ferðarinnar var okkur afhent prófskírteini sem staðfesti að við hefðum séð Mount Everest. Útsýnið var vægast sagt stórfenglegt.

 

Kathmandu iðaði af lífi í góða veðrinu en hitinn var um 25°C. Við skoðuðum Durbar Square ásamt bandarískum ný-vini okkar, en Durbar Square er torg í hjarta borgarinnar sem er fullt af hofum og minnisvörðum. Inn á torgið kostaði 450 ISK fyrir útlendinga en frítt fyrir innfædda. Þar sem slíkt er ólöglegt á Íslandi tókum við það ekki í mál og tókst að svindla okkur óséð inn á torgið. Stuttu síðar voru stelpurnar nappaðar í miðri ljónastyttumyndatöku af vopnuðum hermanni sem krafði þær um aðgöngumiða. Þær þurftu því að fara að næsta sölubási og borga sig inn með skottið á milli lappanna. Á torginu fór fram einhvers konar hindúa hátíð þar fólk safnaðist saman til að fylgjast með skrúðgöngu. Endaatriði skrúðgöngunnar var vagn með Kumari sem er stúlkubarn sem þeir trúa að sé hindúgyðjan Durga endurholguð. Þegar krakkinn birtist gjörsamlega trylltist allt og áttum við fullt í fangi með að halda jafnvæginu fyrir æstum miðaldra nepölskum konum sem vildu berja barnið augum.Snemma um morgunn vorum við sótt á hostelið og var formlega lagt af stað í trekking ferðina. Fjórum Íslendingum og tveimur Nepölum var troðið í Suzuki af minnstu gerð. Ekki bætti úr skák að vegirnir minntu á Kjöl að vori til. Eftir að gangan hófst komumst við fljótlega að því að ekki var um að ræða þægilega ellismellagöngu eins og við héldum heldur alvöru fjallgöngu með öllu tilheyrandi. Hinsvegar skemmtum við okkur vel og vorum stöðugt að sjá eitthvað athyglisvert. Reglulega mættum við innfæddum sem hlupu framhjá okkur í flip-flop skóm hlaðnir varningi sem hékk á höfðinu á þeim. Við gengum gegnum fjallaþorp með eldhressum hönum, hænum, geitum og fólki sem bruggaði vín og vann önnur dagleg störf.  Útsýnið yfir Kathmandu dalinn var mjög fallegt og gerði erfiðið algjörlega þess virði. Eftir 5 klukkustunda göngu vorum við komin á hæsta punkt Shivapuri þjóðgarðsins í um 2200 metrum yfir sjávarmáli. Þar komum við inn á mjög vafasamt gistiheimli sem innihélt töluvert fjölbreyttara dýralíf en við kærðum okkur um. Ekki bætti úr skák að loftið var mjög rakt og kalt. Þoka lág allt í kring sem gerði þetta heldur kuldalegt.


Við kenndum leiðsögumanninum okkar Ólsen-Ólsen og hann kenndi okkur spilagaldra í staðinn. Þegar til stóð að fara í háttinn kom í ljós að bæði herbergin voru ljóslaus. Þegar hótelstjórinn hafði tekið einu ljósaperuna sem var á ganginum og flutt hana inn í herbergi Maríu og Steinars kom í ljós stærsta könguló í heimi fyrir ofan rúmgaflinn, þar sem þau höfðu tekið lúr fyrr um daginn. Uppi varð fótur og fit og eftir myndatöku var henni fargað á fagmannlegan hátt með tveimur strákústum af hótelstarfsmanni sem virtist ekki vera að þessu í fyrsta skipti. Eftir grandskoðun herbergjanna með vasaljósum var hótelstarfsmaðurinn líka fenginn til að sjá um risa-margfætlu og könguló í hinu herberginu. Þótti honum þetta full mikill tepruskapur og sagði að þessi væri ekki einu sinni hættuleg eins og hin hefði verið. Við sváfum frekar laust þessa nótt.

Morguninn eftir mátti sjá Himalaya fjallgarðinn í sólarupprásinni eins og sést á meðfylgjandi mynd.

Gangan til baka sem átti að vera þægilegt rölt reyndist vera 8 tíma langferð. Þar sem rignt hafði um nóttina höfðu myndast pollar víða á veginum sem þýddi að sársvangar blóðsugurnar biðu eftir okkur. Stelpurnar sluppu en þegar á leið á ferðina tóku þær eftir stærðarinnar blóðbletti á hvíta bolnum hans Steinars. Undir honum lág feit og alsæl blóðsuga sem gæddi sér á sjaldgæfu AB- blóði í hinum mestu makindum. Meðan stelpurnar stífnuðu upp sýndi leiðsögumaðurinn fumlaus viðbrögð, fjarlægði blóðsuguna og sýndi henni í tvo heimana með strigaskónum sínum.


Undir lok ferðarinnar tók að hellirigna. Á endanum komumst við inn í minnsta strætisvagn sem við höfum séð þar sem hundblautir Íslendingarnir vöktu eflaust ekki mikla lukku. Stöðugt var fleira og fleira fólki var troðið inn í mini-rútuna og siluðumst við áfram inn í Kathmandu þar sem rigningin hafði breytt götunum í beljandi fljót.

Gegnblaut og uppgefin komum við aftur á hostelið. Okkur til mikillar gleði hafði þeim láðst að taka frá herbergi fyrir okkur. Eftir einhvers konar reddingu var okkur troðið saman í lítið 2ja manna herbergi með aukadýnu á 5. hæð. Þegar Eva var nýbúin í sturtu og farin að þurrka sér við opinn gluggann byrjaði fólki úti á götu að æpa og góla. Þar sem hún furðaði sig á tepruskap fólksins bönkuðu ferðafélagarnir á baðherbergishurðina og sögðu henni að koma út því það væri jarðskjálfti. Þá tók Eva loksins eftir því að gólfið hríðskalf og byggingin sveiflaðist til og frá. Aldrei áður höfðum við fundið jafn langan jarðskjálfta og líktist tilfinningin því að standa á vaggandi báti. Stuttu síðar bankaði hótelstarfsmaður og bað okkur um að koma niður í hvelli. Viðbrögðin vorum misjöfn en María mætti fyrst niður berfætt og verulega stressuð og fylgdi Áslaug fast á eftir. Stuttu síðar komu Eva og Steinar, fullklædd og með fartölvuna ef biðin yrði löng. Um var að ræða stærsta jarðskjálfta Nepal í 78 ár sem átti upptök sín í Norður-Indlandi skammt frá landamærum Nepals. Hann var 6,9 á Richter og olli töluverðu manntjóni og skemmdum.

Síðasta daginn okkur í Nepal skoðuðum við Kathmandu með finnsku vinum okkar.


Við sáum nepalska útför, við Vishnumati ána, sem var mjög svipuð þeirri sem við sáum í Varanasi.

Eftir allt of margar tröppur komumst við upp í Swoyambhu Nath Stupa, öðru nafni Monkey Temple. Það er buddhahof á hæð með fallegu útsýni yfir Kathmandu og er fullt af apaköttum og buddhamunkum. Einn apinn varp full spenntur yfir Áslaugu og kexinu hennar og gerði sig líklegan til að stökkva á hana. Með snörum viðbrögðum tókst henni að koma sér undan og grýta kexinu í apann, sem át kexið af bestu lyst.

Okkur þótti mjög gaman í Nepal og hefðum gjarnan viljað vera lengur. Ferskt fjallaloftið og rólegt yfirbragðið var kærkomið eftir lætin í Indlandi.

Á þessum tímapunkti voru hryðjuverkamenn búnir að sprengja bæði í Delhi og Agra á Indlandi stuttu eftir að við vorum á hvorum stað. Jarðskálftinn reið yfir þegar við vorum nýkomin úr fjallgöngunni og viku eftir að við yfirgáfum Nepal komumst við að því að samskonar útsýnisflugvél og við fórum í hafði farist í aðflugi, full ferðamönnum. Svo virðist sem við séum einu skrefi á undan hættunum og er okkur satt best að segja farið að þykja þetta verulega skuggalegt. Þrátt fyrir að vissulega sé eingöngu um tilviljanir að ræða verður fróðlegt að sjá hvort eitthvað fleira gerist.

Kveðja frá Laos, meira síðar!