Tæland – Koh Tao

Koh Tao reyndist vera algjör paradísareyja þar sem barir, veitingastaðir og gistiheimili lágu meðfram hvítri strandlengjunni. Á daginn snérist allt um ströndina, köfun og snorkl en á kvöldin tók dúndrandi diskótónlist við þar sem fólk safnaðist saman á strandbörum, drakk úr sandkassafötum og fylgist með elddönsurum sýna listir sínar. Eflaust hefði þessi listgrein verið brot á ýmsum mismunandi lögum í vestrænum ríkjum en í Tælandi þótti engum athugavert ad drukknir táningsstrákar væru að dansa með logandi prik og hnetti í keðjum í miðjum mannfjöldanum. Það sem toppaði fáranleikann var svo allt hitt sem gert var í tengslum við eldsýningarnar, en þegar fólk var orðið nógu drukkið drógu elddansararnir fram logandi sippubönd og limbóstangir og „neyddu“ fólk til að taka þátt. Okkur þótti þó ekkert athugavert við þetta og tókum við glöð í bragði þátt í öllu því sem var í boði. Nokkur okkar gengu þó skrefinu lengra og heimtuðu að fá að taka þátt í sýningunni sjálfri.

Við höfðum heyrt að Koh Tao væri einn besti staðurinn í Tælandi til að kafa og skelltu Áslaug, Eva og Steinar sér því á fjögurra daga Open Water köfunarnámskeið. Með námskeiðinu fylgdi gisting í Seashell Resort þar sem við fengum einka bungalowa og aðgang að glæsilegum sundlaugargarði. Bakpokararnir fjórir fengu því að lifa eins og kóngar í þessa fjóra daga og nutu þess í botn. Það dugði Maríu þó að skoða fiskana ofan frá svo hún skráði sig í snorklferð í staðinn og notaði tímann þar á milli til að vinna í brúnkunni. Eins og margir vita þá er Tæland þekkt fyrir dömudrengi (ladyboys) og var Koh Tao engin undantekning þar á. Að sjálfsögðu skelltum við okkur á sýningu þar sem stífmálaðir dömudrengir mæmuðu og dönsuðu við ýmis þekkt lög með miklum tilþrifum. Dömustrákarnir töluðu þó um að þeim vantaði nýtt kjöt í hópinn og var Steinar dreginn baksviðs, skellt í viðeigandi búning og hent út á dansgólfið. Hann stóð sig svo svakalega vel að stelpurnar óttuðust í örskamma stund að hann yrði eftir á Koh Tao.

  

Vegakerfið á eyjunni var ekki upp á marga fiska og var algengasti ferðamátinn vespur á torfærudekkjum. Við prófuðum auðvitað öll að rúnta um á slíkum grip, með misgóðum árangri, en Steinar og María fóru alla leið og leigðu sitt eigið hjól til að kanna eyjuna betur.

Næturlífið á eyjunni var ansi fjörugt og vorum við dugleg í því, sumir duglegri en aðrir. Það einkenndist af hressum ferðamönnum, litríkum dömudrengjum og undarlegum local gæjum og má því segja að það hafi verið töluvert frábrugðið næturlífinu heima.

Næst lá leið okkar til Phuket sem var þriðji og síðasti áfangastaður okkar í Tælandi. Bloggið kemur inn von bráðar svo þið getið beðið spennt!

6 thoughts on “Tæland – Koh Tao

  1. Tæland er æði! Þið hafið svo sannarlega notið ykkar 😉 Æðilegar myndir***

  2. Mér finnst rauða sundskýlan BEST! haha

    Gaman alltaf að lesa þetta hjá ykkur og frétta af ævintýrunum, pínkuponsu öfund hér!

  3. Haha, þessi gaur var algjör milljón! Sprangaði þarna um í strandpartýinu á rauðu speedo skýlunni sinni eins og hann ætti pleisið. Vid bara urðum að fá mynd með þessum meistara. PRICELESS!
    p.s. Tæland er svo sannarlega æði! Eitt af mínum uppáhalds löndum 🙂

  4. Þetta blogg fór alveg framhjá mér greinilega því ég var fyrst að reka glyrnurnar í það núna 🙂 gaman að skoða myndirnar og mikið rosalega eruð þið orðin brún og sælleg (smá öfund í gangi)!

Leave a Reply

Your email address will not be published.