Tæland – Bangkok

Fyrsta daginn okkar í Bangkok lentum við í einstaklega metnaðarfullri útgáfu af elsta tuk-tuk svindli borgarinar. Vingjarnleg kona sem virtist fyrir tilviljun vera að fara yfir götu á sama tíma og við byrjaði að spjalla við okkur á léttu nótunum. Hún sagði að í dag væri helgidagur og ókeypis inn í ýmis hof sem annars kostaði fúlgu fjár að skoða. Á þeim tímapunkti var hún ekki að selja neitt og þótti okkur því ekki ástæða til að draga það í efa. Eftir að hafa sýnt okkur þá staði sem við vildum sjá á korti, þar á meðal ríkisrekna ferðaskrifstofu sem gæti selt okkur miða til Koh Tao, bætti hún við að í dag og aðeins í dag væri hægt að fá tuk-tuk bílstjóra á sérlega góðu verði, 37  ISK á mann, sem mundi keyra okkur um allan daginn. Þetta átti þó alls ekki við alla  tuk-tuka heldur aðeins þá sem höfðu gulan fána sem þýddi að þeir væru ríkisreknir. Það var ekki að því að spyrja að eins og þruma úr heiðskýru lofti birtist einn slíkur við hliðina á okkur. Þá fóru að renna á okkur tvær grímur og ræddum við fram og til baka hverrar tegundar umrætt svindl væri. Eftir að hafa fengið þrístaðfest að við færum á tilgreinda áfangastaði og greiddum aðeins 10 baht (37 ISK) á mann settumst við inn og lögðum af stað. Allt gekk samkvæmt áætlun og við skoðuðum Giant Buddha sem er, eins og nafnið gefur til kynna, risastórt búddalíkneski. Þar sem við skoðuðum hof með „Lucky Buddha“, um það bil það ómerkilegasta sem við höfum séð og átti af einhverri ástæðu að vera lokað túristum alla aðra daga, fór „öryggisvörðurinn“ að tala um ríkisrekna klæðskerastofu sem saumaði fyrir Armani og ýmsa fleiri. Klæðskerastofan var svo ferlega góð að almenningur fékk ekki að stíga fæti þar inn nema einmitt í dag. Þarna vorum við búin að átta okkur á því í hverju svindlið fólst en bílstjórarnir fá greitt fyrir að mæta með okkur á slíka staði og ekki í fyrsta skiptið sem við lendum í því.  Þar sem Steinar Huga hafði langað kanna verð á sérsaumuðum jakkafötum vorum við til í það. Sú heimsókn endaði þó ekki betur en svo að okkur var hent út þar sem ekki náðist samkomulag um verðið. Eftir þetta nenntum við ekki að taka þátt svindlinu lengur og létum hann skutla okkur í kongungshöllina.

Í Tælandi er mikil kóngadýrkun og má sjá myndir af konunginum og spúsu hans hvar sem maður er staddur, innandyra sem utan. Við vorum því nokkuð spennt að sjá höllina og um hvað allt þetta snerist. Þegar að þangað var komið var okkur þó ekki hleypt inn sökum ósiðsamlegs klæðnaðar. Til dæmis sást í öklana á okkur og stelpurnar voru með sjöl yfir öxlunum sem er náttúrulega út í hött. Á meðan á þessu stóð sáum við hvar stúlka í snípsíðu pilsi spásseraði um hallargarðinn. Við höfðum lítinn áhuga á að taka þátt í slíku misrétti og láta kúga okkur til að leigja náttbuxur og kaupa annan ljótan stuttermabol svo við snerum við. Í stað hallarinnar skoðuðum við risastóran liggjandi Búdda úr gulli sem sjá má í kvikmyndinni The Beach. Þar börðumst  við af mikilli elju við her Japana, með liðsauka frá Indlandi, sem höfðu hertekið alla heppilega myndatökustaði. Við höfðum þó hæðina okkur í vil og sigruðum að lokum.


Gistiheimilið okkar var í göngufjarlægð frá Laugavegi Bangkokbúa, Khaosan Road, og lögðum við leið okkar þangað nokkrum sinnum. Hann er tiltölulega stuttur, í mesta lagði ¼ af Laugaveginum vestan Snorrabrautar, en með mun fleiri búðum, börum og veitingastöðum en Laugavegurinn eins og hann leggur sig. Sama má segja um fólksfjöldann sem var svipaður því sem maður á að venjast á Menningarnótt, sambland af ferðamönnum, heimamönnum og æpandi sölumönnum sem ólmir vildu selja okkur allt milli himins og jarðar. Þrátt fyrir að bakpokarnir væru nú þegar yfirfullir komust stelpurnar þó að því að alltaf mætti troða betur og komu því gjarnan hlaðnar pokum af Kaosan Road.

 

Við keyptum okkur ferð í Tígrisdýrahofið (Tiger Temple) sem og heimsókn á fljótandi markað norðvestan við Bangkok. Steinar og María skelltu sér í siglingu um markaðinn en Eva og Áslaug fór á slöngusýningu í staðinn þar sem síðhærður slöngutemjari sveiflaði alls konar slöngum í allar áttir og  leyfði þeim svo að prófa að máta cobraslöngu eins og hálsmen.

Næst lá leið okkar í lítinn bæ, Kanchanaburi, sem hefur þekkt hersafn sem kostaði aukalega að komst inn á. Við tókum það ekki í mál og skoðuðum þess í stað gamla lestarbrú sem gegndi mikilvægu hlutverki í seinni heimsstyrðjöldinni. Hún gerði hernum kleyft að komast til Búrma sem var af einhverri ástæðu mjög mikilvægt. Það sem okkur þótti þó merkilegast var lítill hlébarðaungi sem hin kisuóða Áslaug hélt á, eins og ungabarni, og gaf pela.

Að lokum komumst við í Tígrisdýrahofið, orðin frekar þreytt en gríðarlega spennt, þar sem búddamunkar temja fjölda tígrisdýra með hjálp sjálfboðaliða hvaðanæva að úr heiminum. Þar vorum við eitt í einu leidd um tígrisdýragryfjuna og fengum að setjast hjá dýrunum og klappa þeim.

Flóðin í Bangkok voru að hefjast á þeim tíma sem við vorum þar og sáum við heimamenn stafla sandpokum og hlaða múrsteinum fyrir framan heimili sín og verslanir. Við heyrðum fréttir af því að herinn væri að setja upp stóran varnargarð fyrir ofan borgina og almenningsgarðar sem stóðu næst Chao Phraya ánni voru þegar komnir á flot. Við héldum þó áfram til eyjunnar Koh Tao áður en borgin fór á flot. Parið tók morgunrútuna suður en stelpurnar vildu kíkja á skrallið og sjá hvort það væri eins og í Hangover 2. Snemma morguns, fyrir utan gistiheimlið, mættust ferðalangarnir fjórir, nýr dagur hafinn hjá Maríu og Steinari en gærdagurinn að enda hjá Áslaugu og Evu.

Restin af ævintýrum okkar i Tælandi kemur inn á næstu dögum.

Stay tuned!

5 thoughts on “Tæland – Bangkok

 1. vúhú er búin að bíða lengi eftir nýrri bloggfærslu!! ótrúlega gaman að lesa um ævintýrin ykkar meðan ég sit yfir skólabókunum!! Hlakka til næsta bloggs 😉

 2. Það er undarlegt að horfa á ykkur klappa tígrisdýrum á sama hátt ov við klöppum hrossum hér heima á Fróni!

 3. voðalega hafa kommentin fækkað herna.. held fólk sé pínu abbó.. kallt og snjór hérna og leiðinda fréttir hægri vinstri um Gilz og svona meehh.. eins gott að fari að gjósa! skoðaði bara myndirnar núna fljótlega.. segja svosem margt 😉 ohhh þið eruð æði.. Eva þú og þínir svipir.. heitur gaur sem er að bjóða þér uppí dans 😀 og áslaug þú og þitt púður.. hlakka til að sjá ykkur.. hvaða Janúar?!?!? 🙂

 4. Alltaf jafn gaman að lesa um ævintýri ykkar 🙂

  Hlakka mikið til næstu færslu !

 5. You post interesting content here. Your blog deserves
  much bigger audience. It can go viral if you give it initial boost, i know useful tool that can help you, simply type in google:
  svetsern traffic tips

Leave a Reply

Your email address will not be published.