Kambódía

Laos endaði á því að okkur var „hent“ út úr rútunni á landamærunum þar sem okkur var sagt að grípa bakpokana okkar og labba yfir til Kambódíu. Þar tók vafasamur læknir á móti okkur og hitamældi með furðulegum mæli sem líktist helst hraðamæli lögreglunnar. Við reyndumst öll vera með 35° hita sem renndi stoðum undir grunsemdir okkar um að hann væri að mæla lofthita í stað líkamshita. VIP rútan sem átti að taka við okkur í Kambódíu reyndist vera yfirfull og var okkur því troðið í minibus sem kom akandi út úr skóginum. Eftir u.þ.b. klukkustundar akstur stoppaði bíllinn og okkur var sagt að færa okkur yfir í annan, töluvert minni minibus. Þar voru fyrir nokkuð margir heimamenn og því alls ekki pláss fyrir okkur og hina ferðalangana. Við vorum ekki sátt við þennan ferðamáta en eftir töluvert þras gáfumst við upp og tróðum okkur inn í bílinn. Fljótt kom í ljós að við vorum ekki stödd í neinum áætlunarbíl heldur var þetta local bus sem þýddi að við þurftum að skipta fimm sinnum um bíl á leiðinni og taka ýmsa ónauðsynlega útúrdúra. VIP ferðin sem átti að vera „non-stop“ ferð  endaði því í trilljón stoppum þar sem fólki og vörum var hent inn og út úr bílnum eða bílstjórinn ákvað að reykja, pissa eða spígspora í kringum bílinn án þess að gera nokkurn skapaðan hlut. Þess má þó geta að okkur gafst aldrei færi á að fara á klósettið eða kaupa okkur að borða alla tíu tímana sem ferðin tók. Það sem merkilegast var við þessa ferð var hversu mörgum farþegum bílstjóranum tókst að troða inn í þennan litla bíl. Á tímabili voru 21 manns í 11 manna smárútu og þar af voru tveir í bílstjórasætinu þar sem bílstjórinn sat á annarri rasskinninni, berfættur, spjallandi í símann, á 120 km hraða. Þegar við héldum svo að ekkert gæti komið okkur á óvart lengur stoppaði rútan og vaskir menn tóku að hlaða illa lyktandi pokum í skottid sem reyndust innihalda einhverskonar dýrahræ.  Á meðan á þessu stóð náðum við að teygja aðeins úr löppunum og rákum þá augun í nokkra heimamenn sem voru að verka hunda sem eru væntanlega orðnir að hamborgum í dag. Við komum að lokum brunandi til höfuðborgarinnar Phnom Penh, með hundahræin í skottinu og ærandi teknótónlist í eyrunum.

Kambódía er eitt fátækasta ríki í heimi en jafnframt ríkir þar mikil mismunun eins og við tókum mjög fljótlega eftir þar sem sjá mátti kofahreysi og glæsivillur í sama hverfinu. Saga Kambódíumanna er jafnframt mjög sorgleg og blóði drifin þar sem fyrir einungis 30 árum fór fram þjóðarhreinsun þar sem Rauðu Khmerarnir ollu því að þriðjungur þjóðarinnar var þurrkaður út. Í upphafi drápu þeir alla sem voru menntaðir eða töluðu ensku en að lokum virtust þeir drepa fólk eftir hentugsemi þar sem þeir drápu t.d. þá sem voru með gleraugu. Ein helsta vinnuregla þeirra var „Better to kill an innocent by mistake than spare an enemy by mistake“. Allt þetta gerðu þeir í þeim tilgangi að þvinga öfga kommúnisma upp á þjóðina. Í Phnom Penh skoðuðum við „Killing fields“ sem var eitt af fjölmörgum svæðum sem Rauðu Khmerarnir notuðu til að taka fólk af lífi. Þeir sýndu enga miskunn en við sáum til dæmis „Killing tree“ sem var notað í þeim tilgangi að drepa börn. Börnin voru tekin upp á fótunum og höfði þeirra slegið í tréð þangað til þau hreyfðu sig ekki lengur. Þeir töluðu um að „Pull up the grass, dig up the roots“ sem er vísun í að nauðsynlegt sé að drepa börnin með foreldrum sínum svo þau leiti ekki hefnda síðar.

Við skoðuðum líka gamlan skóla sem Rauðu Khmerarnir breyttu í fangelsi, S-21. Á þeim fjórum árum sem fangelsið var starfrækt voru u.þ.b. 20.000 fangar pyntaðir og drepnir og af þeim lifðu aðeins sjö manns dvölina af. Okkur þótti mjög fróðlegt að skoða S-21 og Killing fields en jafnframt var það mjög átakanlegt og erfitt  að sjá hversu grimm mannskepnan  getur verið.

Í Phnom Penh gerðum við ýmislegt annað en að læra um sögu lands og þjóðar. Við skoðuðum t.d. Konunglegu höllina, kíktum á Rússneska markaðinn og röltum um borgina.

Það var örlítið vesen að komast inn á svæðið þar sem Konunglega höllin stendur því það mátti ekki vera ósiðsamlega klæddur og uppfyllti klæðaburður stelpnanna því ekki þær kröfur sem gilda. Þær neyddust því til að kaupa rándýra og forljóta stuttermaboli til að fá inngöngu. Það var ýmislegt fallegt að sjá á þessu svæði eins og demantsskreyttan buddha úr gulli sem við, fátæku ferðamennirnir, íhuguðum að gera að fimmta ferðafélaga okkar. Á meðan stelpurnar gengu um eins og fáráðlingar í „fallegu“ bolunum sínum ákvað Steinar að ráfa í burtu frá þeim og kynntist þremur buddha munkum sem hann spjallaði heilmikið við.Á leið okkar á Rússneska markaðinn sáum við enn eitt dæmið um hversu góðir Kambódíumenn eru að troða fólki inn í bíla. Einn bíllinn sem þaut framhjá okkur innihélt heila stórfjölskyldu þar sem amman, sem heima hefði fengið framsætið, var klesst við farþegagluggann aftur í og afinn deildi ökumannssætinu með bílstjóranum. Rússneski markaðurinn var týpískur markaður þar sem  hægt var að finna allt milli himins og jarðar og náðum við að mastera prútt-taka okkar á örskotstíma.

Næst lá leiðin norður til Siem Reap með VIP rútu. Í þetta skiptið var um alvöru VIP rútu um að ræða og er sú ferð því ekki frásögu færandi. Í Siem Reap áttum við bókaða gistingu á notalegu gistiheimili þar sem við vorum einu gestirnir. Hótelstrákarnir höfðu því ekkert annað að gera en að stjana við okkur og virtist þeim ekkert þykja verra að gera það vel í glasi og önguðu þeir því alltaf í takt við það.

Þegar við sögðumst ætla að skoða Angkor hofin sögðust strákarnir geta skutlast með okkur fyrir spottprís og stukkum við að sjálfsögðu á það vitandi að ökumaðurinn gæti eflaust ekki gengið beina línu þótt hann fengi milljón fyrir. Á Angkor svæðinu skoðuðum við að sjálfsögðu stolt Kambódíumanna, Angkor Wat, Tomb Raider hofið og önnur hof.

Við gerðum ýmislegt í Siem Reap eins og að fara á Aspara danssýningu, í nudd fyrir $1, fótsnyrtingu, ráfuðum um næturmarkaðinn þar sem við sýndum prútthæfileika okkar og skelltum okkur barinn sem Angelina Jolie stundaði þegar hún var við tökur á Tomb Raider.

Nokkrum dögum áður en við komum til Siem Reap hafði allt verið á floti en þegar við mættum á staðinn var orðið þurrt. Okkur var sagt að von væri á nýju flóði en virtust borgarbúar ekkert vera að kippa sér upp við það svo ekki gerðum við það heldur. Við gerðum bara allt það sem góðum túristum sæmir og fórum til dæmis út að borða á ekta kambódískum stað eitt kvöldið þar sem við fengum að elda kjötið okkar sjálf. Á boðstólnum var kengúra, snákur, krókódíll, strútur og naut. Skriðdýrin brögðuðust ágætlega en voru nokkuð gúmmíkennd og tók því nokkuð á kjálkavöðvana að tyggja þau. Kengúran stóð klárlega upp úr og erum við öll sammála um að kengúrukjöt verður aftur á matseðlinum í Ástralíu. Rétt er að minnast á að Steinari þótti þetta allt afbragðsgóður matur og kláraði alla afganga sem stelpurnar neituðu að láta ofan í sig. Þegar við komum út af veitingarstaðnum var örlítið vatn komið á göturnar en við ákváðum að láta svoleiðis smámuni ekki á okkur fá og skelltum okkur inn á næsta bar þar sem við pöntuðum okkur kokteila sem kostuðu 150 ISK á haus. Þegar við vorum búin að tjútta og ákváðum að segja þetta gott var allt komið á flot og þurftum við því að vaða strætin heim.

Kambódía er magnað land og var æðislegt að vera þar og mælum við eindregið með því að fólk leggi leið sína þangað. Það sem gerði landið svo enn betra var fólkið sem býr þar en það var það vingjarnlegasta sem við höfum kynnst. Okkur þótti það mjög aðdáunarvert miðað við það sem þjóðin gekk í gegnum fyrir alls ekki svo löngu síðan.

Eftir Kambódíu lá leið okkar til Tælands og segjum við frá því síðar.

10 thoughts on “Kambódía

 1. … .. og ég sem er ennþá að býða eftir að skoða eyðibýli

 2. Magnaðar myndir eins og alltaf! Haldið áfram að njóta.

 3. Váááá þetta er svo geðveikt … farin að sakna ykkar of mikið!

 4. úff þetta hljómar allt svo vel.. myndinar af ykkur í rústunum váá þetta er sko staður sem ég VERÐ að fara á!! hlakka til næsta bloggs 😉

 5. Takk fyrir að blogga! Flottar myndir og þið eruð sólbrún og sæt. Geggjað tré, þ.e. þetta méð stóru ræturnar en ekki barnatréð ;-(

 6. Takk fyrir skemmtilegt blogg og myndirnar eru æðislegar. Ég skellti upp úr þegar ég las um afskipti ykkar af VIP rútum sem reynast vera Local bus, endalaus rútuskipti og minibus – ég er nýbúin að standa í þessu .. þetta er magnað og maður er eitthvað svo clueless! Kambódía er æðislegt land og fólkið ótrúlega indælt, sammála. Góða skemmtun í Tælandi.

 7. ég er þessi anoní – mús
  virðist ekki geta skrifað nafnið mitt á réttann stað
  kv . Aldís

Leave a Reply

Your email address will not be published.