Víetnam

Ferðin til Víetnam byrjaði með næturdvöl á Singapore flugvelli. Okkur til mikillar gleði leit hann frekar út sem skemmtigarður en hefðbundin flugstöð. Á þessum geysistóra stað var sólblómagarður, fiðrildagarður, bíó, nuddstólar og -stofur, hinar ýmsu verslanir og veitingastaðir, barir með live tónlist, tölvuleikjasalir og fleira. Klósettin voru hrein en það er ákveðinn lúxus sem við höfðum ekki upplifað í ágætis tíma. Inni á hverju klósetti var ábyrgðarmaður sem kynnti sig með nafni og ræddi við okkur um daginn og veginn. Við vorum eins og litlir krakkar  í nammibúð og misstum okkur í vestræna fílíngnum þar sem við eyddum fúlgu í Burger King og Starbucks. Við byrjuðum með smá uppreisn þar sem við neituðum að fara að sofa og ætluðum sko að upplifa allt sem flugstöðin hafði upp á að bjóða en að lokum sigraði Óli Lokbrá og við steinsváfum í „lúxus“ svefnstólum í Oasis lounge-inu í hitastigi sem var eflaust við frostmark.

Sólblómagarðurinn sem var á þakinu á Singapore flugstöðinni

Þessi var í miðri flugstöðinni - takið eftir fiskunum

Hér mátti finna afþreyingu fyrir alla

Ekki er allt í stærðarhlutföllum á Singapore flugvellinum

Frítt fótanudd fyrir þreytta ferðafætur

Þegar við vorum á leið okkar frá flugvellinum í Hanoi lentum við í elsta leigubílasvindlinu sem til er í bókinni þar sem kauði ætlaði að keyra okkur á vitlaust hótel. Við sáum þó í gegnum fölsku Dolce&Gabbana skyrtuna, Chanel skóna og  Gucci sólglerugun og ætluðum ekki að láta Víetnamskan wannabe mafósa gabba okkur – fool us once shame on you, fool us twice shame on us.

Herbergið okkar minnti skemmtilega mikið á fangaklefa

Skálað við tjörnina

Líkt og á Íslandi þar sem kindur eru fleiri en fólk virðist það vera sem svo að í Víetnam eru fleiri vespur (scooters) en fólk. Maður sá varla bíla á götunum en vespurnar þustu áfram á ógnarhraða í þúsundatali. Það virtist engum takmörkum vera háð hversu mörgum Víetnömum er hægt að troða á hjólin og var til dæmis ekki óalgengt að sjá heilu fjölskyldurnar á einu og sama hjólinu.

Traffíkin í Hanoi

Í Hanoi sáum við ýmislegt skemmtilegt eins og grafhýsi Ho Chi Minh en það var því miður lokað því herra Ho Chi Minh var í sinni árlegu endursmurningu í Rússlandi. Fyrir þá sem ekki vita var  Ho Chi Minh kommúnista leiðtogi sem spilaði stórt hlutverk í að mynda lýðveldisríkið Vietnam. Hann stofnaði einnig Víetkong herinn sem flæmdi Bandaríkjamenn úr landinu í Víetnam stríðinu. Síðar meir var fyrrum höfuðborg S-Víetnam, Saigon, endurskýrð Ho Chi Minh City til heiðurs honum. Það sem okkur þykir svo nokkuð merkilegt er að hans hinsta ósk var að láta brenna sig en Víetnamar ákváðu að heiðra ekki þá ósk og geyma hann, smurðan og fínan, uppi á stalli í risa stóru grafhýsi og skoða lík hans reglulega.

Steinar náði að mastera grafhýsis-pósuna

Vaktaskipti

Sötrað á bátsþaki

Sölutrix sem við höfðum ekki lent í áður

Við sáum einnig önnur kennileiti í borginni eins og forsetahöllina (sem er þó aðeins nýtt til opinbera heimsókna), hof, ýmsar styttur, herminjasafn og afskaplega rómantíska tjörn sem var umkringd af neonljósum og ástföngnum víetnömskum pörum.

María hitti fjarskylda ættingja sem vildu ólmir taka myndir

Steinar á leið í loftið

Peace

Kung fu taktar af bestu gerð

 

Við fórum í þriggja daga ferð um Ha Long Bay sem var sannkölluð paradísarferð. Ha Long Bay samanstendur af óteljandi klettaeyjum og er á heimsminjaskrá UNESCO. Fyrri nóttina gistum við á Asia Cruise bátnum okkar og þá seinni í strandkofum (bungalow) á Monkey Island. Bátsferðin var ótrúlega skemmtileg og leið okkur soldið eins og við værum komin í „frí“ frá langa og stranga ferðalaginu okkar. Við skoðuðum helli, sem búið var að pimpa upp með neonljósum og marmaragólfi, fórum á kayak, syntum í sjónum og enduðum kvöldið í hörku karókí partýi þar sem starfsmenn bátsins léku á alls oddi og sungu hvert víetnamska lagið á fætur öðru. Þegar við vorum á mörkum þess að hoppa fyrir borð í þeim tilgangi að drekkja víetnömsku tónunum ákváðum við að betri hugmynd væri að rífa mækinn af starfsmönnunum og syngja nokkur vel valin ENSK lög. Þegar stemningin var í hámarki klifraði vel gelaður, hundblautur, kandaískur, úber töffari í annarlegu ástandi um borð og sagðist hafa heyrt í tónlistinni og ákveðið að þar væri fjörið. Fljótlega hóf hann einræðu þar sem hann lýsti eigin ágæti í mjög löngu og endurteknu máli. Hann tjáði okkur til dæmis að hann væri atvinnu snjóbretta-, brimbretta- og sundmaður en auk þess sagðist hann vera vínsmakkari, sem fyndi kengúrubragð af Áströlskum vínum, og kokkur í gæðaflokki. Þegar atvinnusundmaðurinn ætlaði svo loks að snúa aftur til síns heimabáts brást honum heldur betur bogalistin þar sem hann synti í hring og kom aftur til baka á bátinn okkar. Þegar við sögðum honum að hann væri aftur komin til okkar gapti hann af undrum og botnaði hvorki upp né niður í hvernig það hefði gerst. Hann lagði þá aftur af stað en þá vildi það þó ekki betur en svo að áfangastaðurinn varð aftur rangur bátur, þó ekki okkar í þetta skiptið.

Surprising cave - sem við endurskýrðum diskóhellir

Það var mikil umferð í flóanum

Steinar tók fyrsta stökkið (og braut ljósið í leiðinni)

Víetnamskir söngtaktar í fullu swingi

Báturinn okkar

Næsta dag fórum við í fjallgöngu í þjóðgarði á Cat Ba eyjunni og sigldum svo yfir á Monkey Island. Þar tók á móti okkur einkaströnd og lúxus strandkofar og nutum við lífsins þar sem við sóluðum okkur, hittum apa, fórum á kayak o.fl.

Ekki fyrir lofthrædda

Monkey Island

Við fengum lúxus bungalow

Steinsi boy að chilla fyrir utan bungalow-inn sinn

Það voru apar á Apaeyjunni

Við gáfum þeim hnetur

Sólsetrið var afskaplega fallegt

Þessi tekur öll flækingsdýr í fangið og furðar sig á öllum "flóa"bitunum sem hún fær

Eftir Ha Long Bay ferðina lá leið okkar aftur til Hanoi og þaðan til Laos. Við höfðum planað að fara aftur til Víetnam eftir Laos en þar sem tíminn flýgur áfram munum því miður ekki hafa tíma til þess. Okkur líkaði þó mjög vel við Víetnam og værum öll til í heimsækja landið aftur.

Sérstök matarmenning á götum Hanoi

 Yfir og út – hin fjögur fræknu

11 thoughts on “Víetnam

 1. Frábærar myndir og hrikalega skemmtileg lesning. Ég hló upphátt þegar ég sá myndina af Maríu með fjarskildum ” ættingjum sínum ” 🙂

  Það er ekki laust við að hér gæti smá öfundar í ykkar garð, þetta virðist vera svakalega skemmtileg upplifun 🙂

 2. Ég hefði líka tekið í höndina á apanum.. en æðislegt!! Mikill söknuður hérna á klakanum :´( og öfund áfram.

 3. Hæ hæ 🙂
  þekki engan í þessum hóp en rakst á bloggið ykkar á facebook. hef sjálf ferðast svolítið til staðanna sem þið eruð á og ætlið til, og vildi bara deila einu góðu ferðaráði með ykkur.. sérstaklega fyrir þá í hópnum sem eru vinsælir hjá moskítóflugunum 😉
  það sem drepur kláðann og bitið sjálft langbest, betur en allt afterbite sem ég hef prófað, er eins brennandi heitt vatn og viðkomandi þolir að láta renna á það. ef maður byrjar með heitt vatn þá dofnar bitið og maður getur hækkað hitann smám saman. sá sem gaf mér þetta ráð (einhver góðhjartaður í suður-ameríku, man ekki hver) talaði um að heita vatnið opnar bitið og eitrið rennur út. Veit ekki hve mikið er til í því, en þetta virkar! góða ferð og njótið vel 😀

 4. Ég fæ alltaf gæsahúð af því að lesa ferðasöguna ykkar. Myndirnar eru magnaðar! Góða ferð áfram.

 5. Vá.. Ég er gapandi yfir þessum myndum – myndin af Steinari á svölunum á kofanum ykkar og sólsetrið.. þetta virðist vera algjör paradís! Þið að synda í sjónum á meðan við tökum á móti fyrsta snjónum hér. Ég er strax farin að vorkenna ykkur að koma heim í hversdagsleikann.

 6. Ótrúlega flottar myndir sem þið hafið verið að taka og ferðasögurnar alltaf jafn skemmtilegar… hló líka upphátt þegar ég sá að María hafi loksins fundið fjarskyldu ættingjana sína, Sveinbjörn yrði örugglega mjög ánægður með að heyra þetta!
  Gaman að fá að fylgjast með ykkur, njótið ferðarinnar í botn 😉

 7. Vá þetta hljómar eins og algjör paradís! Mér fannst samt algjörlega vanta mynd af kanadíska töffaranum! Haldið áfram að setja öryggið á oddinn 😉

 8. æðislegar myndir og ótrúlega skemmtileg lesning. ER ánægð að sjá hvað allt gengur vel. Það verður líka fjör að fá ykkur heim. Get eiginlega ekki beðið eftir því.
  Haldið áfram að rúlla þessu upp 😉 kveðja ´frá kuldanum.

 9. Þetta er fyrsta landið sem virkar hreinlegt! Ekki kæmi mér á óvart ef þið fréttuð það í næstu viku að þessi “stigi” (ryðteinar og fúnar spýtur) hafi hrunið. Svona miðað við það sem á undan er gengið.

  Verið dugleg að setja inn myndir og deila með okkur
  hafið það gott

 10. Bíð spennt eftir nýjustu fréttum og myndum af ykkur!

Leave a Reply

Your email address will not be published.