Nepal

Nú erum við nýkomin til Laos frá Víetnam en ætlum að byrja á að segja ykkur frá Nepal.

Við höfðum aðeins 5 daga í Nepal og var dagskráin því mjög þétt. Við komum okkur fyrir á hostelinu í sameiginlegu 6 manna herbergi á 6. hæð. Nóttin kostaði 225 ISK. Í móttökunni var einskonar félagsmiðstöð þar sem við kynntumst fólki  hvaðanæva að úr heiminum, almennileg bakpokastemning. Við vorum dregin inn á ferðaskrifstofu þar sem við bókuðum fjallaflug og „létta“ 2ja daga göngu gegnum Shivapuri þjóðgarðinn. Eldsnemma morguninn eftir vorum við keyrð aftur út á flugvöllinn og ferjuð upp í litla flugvél sem flaug meðfram Himalaya fjallgarðinum og að Mount Everest.  Við fengum að taka myndir út um flugstjórnarklefann og í lok ferðarinnar var okkur afhent prófskírteini sem staðfesti að við hefðum séð Mount Everest. Útsýnið var vægast sagt stórfenglegt.

 

Kathmandu iðaði af lífi í góða veðrinu en hitinn var um 25°C. Við skoðuðum Durbar Square ásamt bandarískum ný-vini okkar, en Durbar Square er torg í hjarta borgarinnar sem er fullt af hofum og minnisvörðum. Inn á torgið kostaði 450 ISK fyrir útlendinga en frítt fyrir innfædda. Þar sem slíkt er ólöglegt á Íslandi tókum við það ekki í mál og tókst að svindla okkur óséð inn á torgið. Stuttu síðar voru stelpurnar nappaðar í miðri ljónastyttumyndatöku af vopnuðum hermanni sem krafði þær um aðgöngumiða. Þær þurftu því að fara að næsta sölubási og borga sig inn með skottið á milli lappanna. Á torginu fór fram einhvers konar hindúa hátíð þar fólk safnaðist saman til að fylgjast með skrúðgöngu. Endaatriði skrúðgöngunnar var vagn með Kumari sem er stúlkubarn sem þeir trúa að sé hindúgyðjan Durga endurholguð. Þegar krakkinn birtist gjörsamlega trylltist allt og áttum við fullt í fangi með að halda jafnvæginu fyrir æstum miðaldra nepölskum konum sem vildu berja barnið augum.Snemma um morgunn vorum við sótt á hostelið og var formlega lagt af stað í trekking ferðina. Fjórum Íslendingum og tveimur Nepölum var troðið í Suzuki af minnstu gerð. Ekki bætti úr skák að vegirnir minntu á Kjöl að vori til. Eftir að gangan hófst komumst við fljótlega að því að ekki var um að ræða þægilega ellismellagöngu eins og við héldum heldur alvöru fjallgöngu með öllu tilheyrandi. Hinsvegar skemmtum við okkur vel og vorum stöðugt að sjá eitthvað athyglisvert. Reglulega mættum við innfæddum sem hlupu framhjá okkur í flip-flop skóm hlaðnir varningi sem hékk á höfðinu á þeim. Við gengum gegnum fjallaþorp með eldhressum hönum, hænum, geitum og fólki sem bruggaði vín og vann önnur dagleg störf.  Útsýnið yfir Kathmandu dalinn var mjög fallegt og gerði erfiðið algjörlega þess virði. Eftir 5 klukkustunda göngu vorum við komin á hæsta punkt Shivapuri þjóðgarðsins í um 2200 metrum yfir sjávarmáli. Þar komum við inn á mjög vafasamt gistiheimli sem innihélt töluvert fjölbreyttara dýralíf en við kærðum okkur um. Ekki bætti úr skák að loftið var mjög rakt og kalt. Þoka lág allt í kring sem gerði þetta heldur kuldalegt.


Við kenndum leiðsögumanninum okkar Ólsen-Ólsen og hann kenndi okkur spilagaldra í staðinn. Þegar til stóð að fara í háttinn kom í ljós að bæði herbergin voru ljóslaus. Þegar hótelstjórinn hafði tekið einu ljósaperuna sem var á ganginum og flutt hana inn í herbergi Maríu og Steinars kom í ljós stærsta könguló í heimi fyrir ofan rúmgaflinn, þar sem þau höfðu tekið lúr fyrr um daginn. Uppi varð fótur og fit og eftir myndatöku var henni fargað á fagmannlegan hátt með tveimur strákústum af hótelstarfsmanni sem virtist ekki vera að þessu í fyrsta skipti. Eftir grandskoðun herbergjanna með vasaljósum var hótelstarfsmaðurinn líka fenginn til að sjá um risa-margfætlu og könguló í hinu herberginu. Þótti honum þetta full mikill tepruskapur og sagði að þessi væri ekki einu sinni hættuleg eins og hin hefði verið. Við sváfum frekar laust þessa nótt.

Morguninn eftir mátti sjá Himalaya fjallgarðinn í sólarupprásinni eins og sést á meðfylgjandi mynd.

Gangan til baka sem átti að vera þægilegt rölt reyndist vera 8 tíma langferð. Þar sem rignt hafði um nóttina höfðu myndast pollar víða á veginum sem þýddi að sársvangar blóðsugurnar biðu eftir okkur. Stelpurnar sluppu en þegar á leið á ferðina tóku þær eftir stærðarinnar blóðbletti á hvíta bolnum hans Steinars. Undir honum lág feit og alsæl blóðsuga sem gæddi sér á sjaldgæfu AB- blóði í hinum mestu makindum. Meðan stelpurnar stífnuðu upp sýndi leiðsögumaðurinn fumlaus viðbrögð, fjarlægði blóðsuguna og sýndi henni í tvo heimana með strigaskónum sínum.


Undir lok ferðarinnar tók að hellirigna. Á endanum komumst við inn í minnsta strætisvagn sem við höfum séð þar sem hundblautir Íslendingarnir vöktu eflaust ekki mikla lukku. Stöðugt var fleira og fleira fólki var troðið inn í mini-rútuna og siluðumst við áfram inn í Kathmandu þar sem rigningin hafði breytt götunum í beljandi fljót.

Gegnblaut og uppgefin komum við aftur á hostelið. Okkur til mikillar gleði hafði þeim láðst að taka frá herbergi fyrir okkur. Eftir einhvers konar reddingu var okkur troðið saman í lítið 2ja manna herbergi með aukadýnu á 5. hæð. Þegar Eva var nýbúin í sturtu og farin að þurrka sér við opinn gluggann byrjaði fólki úti á götu að æpa og góla. Þar sem hún furðaði sig á tepruskap fólksins bönkuðu ferðafélagarnir á baðherbergishurðina og sögðu henni að koma út því það væri jarðskjálfti. Þá tók Eva loksins eftir því að gólfið hríðskalf og byggingin sveiflaðist til og frá. Aldrei áður höfðum við fundið jafn langan jarðskjálfta og líktist tilfinningin því að standa á vaggandi báti. Stuttu síðar bankaði hótelstarfsmaður og bað okkur um að koma niður í hvelli. Viðbrögðin vorum misjöfn en María mætti fyrst niður berfætt og verulega stressuð og fylgdi Áslaug fast á eftir. Stuttu síðar komu Eva og Steinar, fullklædd og með fartölvuna ef biðin yrði löng. Um var að ræða stærsta jarðskjálfta Nepal í 78 ár sem átti upptök sín í Norður-Indlandi skammt frá landamærum Nepals. Hann var 6,9 á Richter og olli töluverðu manntjóni og skemmdum.

Síðasta daginn okkur í Nepal skoðuðum við Kathmandu með finnsku vinum okkar.


Við sáum nepalska útför, við Vishnumati ána, sem var mjög svipuð þeirri sem við sáum í Varanasi.

Eftir allt of margar tröppur komumst við upp í Swoyambhu Nath Stupa, öðru nafni Monkey Temple. Það er buddhahof á hæð með fallegu útsýni yfir Kathmandu og er fullt af apaköttum og buddhamunkum. Einn apinn varp full spenntur yfir Áslaugu og kexinu hennar og gerði sig líklegan til að stökkva á hana. Með snörum viðbrögðum tókst henni að koma sér undan og grýta kexinu í apann, sem át kexið af bestu lyst.

Okkur þótti mjög gaman í Nepal og hefðum gjarnan viljað vera lengur. Ferskt fjallaloftið og rólegt yfirbragðið var kærkomið eftir lætin í Indlandi.

Á þessum tímapunkti voru hryðjuverkamenn búnir að sprengja bæði í Delhi og Agra á Indlandi stuttu eftir að við vorum á hvorum stað. Jarðskálftinn reið yfir þegar við vorum nýkomin úr fjallgöngunni og viku eftir að við yfirgáfum Nepal komumst við að því að samskonar útsýnisflugvél og við fórum í hafði farist í aðflugi, full ferðamönnum. Svo virðist sem við séum einu skrefi á undan hættunum og er okkur satt best að segja farið að þykja þetta verulega skuggalegt. Þrátt fyrir að vissulega sé eingöngu um tilviljanir að ræða verður fróðlegt að sjá hvort eitthvað fleira gerist.

Kveðja frá Laos, meira síðar!

10 thoughts on “Nepal

 1. Ávallt skemmtileg lesning og frábærar myndir.

  Í guðana bænum haldið ykkur ávallt einu skrefi ( helst mörgum fleirrum ) á undan hættunum. Þetta er eiginlega orðið hálf skuggalegt.

  Gangi ykkur vel !

 2. Takk fyrir skemmtilegt blogg – gaman að þið gefið ykkur tíma í svona góða frásögn. Mér finnst ótrúlegt að María hafi lifað af kóngulóaherbergið, þetta hefur ekki verið auðvelt. Mig mun eflaust dreyma kóngulær næstu nótt þrátt fyrir að vera í haustinu heima á Íslandi.
  Myndin af ykkur á stígnum með mosavaxna kantana er flott – eins og þið séuð í Lord of the Rings mynd. Ég er forvitin að heyra meira um allar þessar myndir, eins og t.d. hvaða drykkur þetta sé í trékrúsinni. Ekki beint girnilegur og sýnir að þið séuð kannski farin að slaka á með matinn?

  Kossar og knús
  XXX

 3. Vá hvað þetta er spennandi! Ótrúlega flottar myndir…farið nú varlega :0*

 4. Jarðskjálftar, hryðjuverkamenn, hættulegar kóngulær, blóðsugur, flóð á götum, árásargjarnir apar…í fyrsta sinn sem ég les þessa síðu langar mig eiginlega frekar að vera bara hérna megin í heimsálfunni í hlýjunni innandyra.

  En Eva og Steinar eru greinilega farin að aðlagast lífshættunum, bara í tjillinu að klæða sig, sækja dót og fartölvu meðan jarðskjálftinn reið yfir, haha 🙂

  Sendi ykkur lukku og velfarnaðarstrauma til Laos!

 5. Það er eitthvað svo óraunverulegt að sjá myndir af ykkur á þessum slóðum. Flottar myndir hjá Steinari og skemmtilegt blogg.
  Haldið áfram að vera nokkrum skrefum á undan hættunni!

 6. Sammála með bjórkrúsina.. hvað varstu að drekka?? :S Og bara vávává las fréttina um Kathmandu og flugvélina og minnti að þið ætluðu þangað :S úff krakkar farið varlega!! En auðvitað gaman að lifa on the edge! Ég hefði örugglega frekar kosið að sofa úti en inní hjá svona stórri könguló :/ mig mislíkar minnstu ögn af könguló hérna heima. Eins og alltaf mjög flottar myndir! Gætuð örugglega unnið til verðlauna! Flott myndin af konunni að sía út eð og fallegir fuglar þarna hjá henni, fuglar sem hræðast oft allt.. Knús á ykkur!

 7. og fannst ykkur ekki óhuggnalegt að horfa á líkbrennslu? finnst ég sjá glitta í hendi þarna og haus til hægri og menn þarna í chillinu að horfa á þetta.. hlytur að myndast fnykur!! eflaust hin mesta skemmtun 🙂

 8. Úff haldið ykkur AÐ MINNSTA KOSTI einu skrefi á undan hættunni 😉
  Gaman að lesa og frábærar myndir – Knús

 9. Nu sidast heyrdum vid af fellibyl sem vaeri a leidinni yfir N-Vietnam, thar sem vid vorum i sidustu viku, thannig ad vid virdumst enntha vera a undan haettunum – 7,9,13!

  Thessar likbrennsluathafnir eru ansi skritnar og framandi fyrir okkur. Rosalega mikil svaela og reykur sem myndast thannig ad manni var farid ad svida i augun. Thad sest mota ansi vel fyrir fotunum a likinu tharna haegra megin a myndinni. I athofninni sem vid fylgdumst med i Varanasi sa madur andlitid og allt.

  Drykkurinn i krusinni sem Eva er ad drekka heitir Tongba og er einn af thodardrykkjum Nepala, hann er heitur og bragdid minnir daldid a te.

  Kvedja til allra fra Vang Vieng!

 10. Þessi könguló var viðbjóður! Ég hefði fengið áfall hefði ég verið face-to-face við þetta óféti! En haldið áfram að fara varlega (og skemmta ykkur vel), reynið líka að halda því áfram að vera á undan hættunum!!! Þið gætuð líka platað hætturnar og breytt ferðaskipulaginu ykkar óvænt þannig að þær bara finni ykkur ekki 😉

Leave a Reply

Your email address will not be published.