Indland – Mathura, Agra og Varanasi

Mathura var staðurinn sem við vissum lítið sem ekkert um þegar við lögðum í hann. Við héldum að við værum að fara á lítinn friðsælan stað en raunveruleikinn var annar. Þegar við stigum út af lestarstöðinni tóku trilljón tuktuk bílstjórar á móti okkur, umkringdu okkur og reyndu að ýta okkur inn í bílinn sinn. Við skiptum okkur í tvö lið og keyrði tukka Áslaugar og Maríu fyrst af stað. Umferðin var kolrugluð að vanda en á þessu stigi vorum við hætt að kippa okkur upp við slíkt. Þegar seinni tukkan kom á hótelið með Evu og Steinar innanborðs voru Áslaug og María hvergi sjáanlegar. Korteri síðar og tveimur tjékk-innum síðar voru þær enn hvergi sjáanlegar og voru hótelstarfsmennirnir farnir að efast um að við værum í raun fjögur. Þegar þær mættu loks á svæðið kom í ljós að þær höfðu lagt upp í svaðilför sem endaði á lögreglustöð borgarinnar. Unglingsbílstjórinn þeirra hafði ekki hugmynd um, frekar en þær, hvert hann ætti að fara og tók handahófskenndar beygjur í von um að ramba á hótelið og allar tilraunir til samskipta á ensku voru frekar gagnslausar því enginn í borginni virtist skilja stakt orð í því tungumáli. Þrátt fyrir að þeim hafi ekki staðið á sama meðan á þessu stóð varð þetta að ágætis ævintýri og sáu þær meðal annars apa á flótta undan bálreiðum bæjarbúum með stolið knippi af bönunum. Apinn slapp með skrekkinn og klifraði upp á næsta húsþak og gæddi sér á fengnum.

 

Við skoðuðum merkilegasta hof bæjarinns sem Indverjar trúa að sé fæðingarstaður Krishna sem er einn af aðalguðunum í hindúatrúnni. Þegar við vorum að skoða hofið dúkkaði gömul indversk kona upp við hlið okkar og gaf okkur nammi og gekk á eftir Steinari, sagði honum að hann væri hennar Krishna og gaf honum hvíta perlufesti. Það sem okkur þótti þó merkilegast við þetta hof voru apakettirnir sem klifruðu í trjánum og létu sig gossa í lítið vatn.
Við skelltum okkur svo í siglingu á Yamuna ánni sem rennur í gegnum borgina en það var fyrsta rólega stundin sem við höfðum átt í langan tíma. Við fengum frábæran leiðsögumann sem sagði okkur frá því sem fyrir augu bar en gallinn var að við skildum ekki stakt orð af því sem hann sagði. Það gerði þó ekkert til því rólegheitin voru meira en nóg fyrir okkur. Eftir siglinguna var Steinar blessaður í „hreina“ vatinu af einum innfæddum, gegn þóknun, og við fengum öll rauðan punkt á ennið.

Það sem eftir lifði dagsins gengum við um borgina og sáum margt athyglisvert. Merkilegast þótti okkur þó að í heilan sólahring höfðum við ekki séð einn einasta ferðamann, fyrir utan okkur fjögur.

Að vanda var netsambandið sem lofað var á hótelinu í besta falli mjög takmarkað sem leiddi til þess að við sátum í einni hrúgu í móttökunni, eina staðnum sem netsamband náðist, að reyna að finna okkur gistingu í Agra. Þar kynntumst við vingjarnlega hótelstjóranum Bobby. Hann byrjaði á að bóka fyrir okkur gistingu á góðu verði hjá frænda sinum í Agra, hélt svo áfram og bauð okkur upp á indverska tómatsúpu og toppaði það svo með því að senda kvöldverð til okkar upp á herbergi. Ekki nóg með það heldur kom hótelstjórinn með og mataði okkur öll upp í rúmi hjá Áslaugu og Evu (sjá mynd til sönnunar). Vingjarnlegi hótelstjórinn hætti ekki þar heldur bauð okkur í morgunmat til sín og fjölskyldu sinnar (þ.e. foreldra og systkina) og til að skutla okkur til Agra á bílnum sínum (klukkutíma akstur). Að sjálfsögðu tókum við boði inn á indverskt heimili fagnanadi og ekki verra að aksturinn fylgdi með í kaupbæti. Plön okkar að fá loksins að sofa út fuku út um gluggann því Bobby vildi leggja af stað klukkan 8, okkur tókst þó að seinka því til hálf 9. Morguninn eftir bankaði vingjarnlegi hótelstjórinn eldsnemma og stóð afskaplega óþægilega yfir okkur á dröttuðumst í fötin og pökkuðum. Á meðan fengum við heldur ótrúverðuga sögu um hvernig vegurinn heim til hans hafði skyndilega rifnað í sundur, án þess að dropi hefði komið úr lofti, og því gætum við alls ekki heimsótt fjölskylduna hans. Við kinkuðum þó skilningsrík kolli því mæður okkar hefðu heldur ekki verið ánægðar að fá fjóra útlendinga fyrirvaralaust í morgunmat. Við höfðum ekki séð bíl af þeirri tegund sem hann hafði til umráða áður en Toyota Yaris væri tröllslegur við hliðina á honum. Öll komumst við þó inn á endanum og töskunum svo troðið á eftir. Leiðin lá til beint til Agra með tveimur Hofslaugar-stoppum á leiðinni. Svo töskunum okkar yrði ekki rænt mútuðum við lögreglumanni til að vakta bílinn á meðan við skoðuðum Sikandara Tomb. Við keyptu líka banana og kex á miðri leið. Þar sem Áslaug er sérfræðingurinn okkar indversk-ensku fékk hún framsætið og þann vafasama heiður að mata bílstjórann, að hans beiðni.

Við tékkuðum okkur inn á hótelið í Agra og var Bobby hæst ánægður með herbergið „þeirra“, þá átti hann við herbergi sitt, Áslaugar og Evu. Þá fóru að renna á okkur tvær grímur og hótelstjórinn orðinn full vingjarnlegur, enda um 2ja manna herbergi að ræða. Eftir vandræðalega þögn héldum áfram og skoðuðum Red Fort/Agra Fort ásamt Bobby. Þar fór hann að fara hressilega í taugarnar á okkur með ýmsum tilraunum til að smala okkur eins og kindum. Fljótlega tókum við eftir því að áhugi hans beindist fyrst og fremst að Áslaugu. Vingjarnlegi hótelstjórinn umbreyttist í ástsjúka hótelstjórann. Eftir stutt stopp í einu verslunarmiðstöðinni sem við sáum í ferðinni var Bobby farinn að skipuleggja kvöldið og morgundaginn með okkur. Þá þótti okkur nóg komið og sendum hótelstjórann heim með brotið hjarta.

Blessunarlega birtist hótelstjórinn ekki morguninn eftir og örkuðum við af stað og skoðuðum Taj Mahal. Það var byggt sem grafhýsi fyrir eiginkonu keisara sem var uppi á 17. öld. Taj Mahal er þekktasta kennileiti Indlands og oft lýst sem magnaðasta minnisvarða ástarinnar. Það tók um 20 þúsund manns 20 ár að byggja þetta glæsilega mannvirki. Við mynduðum Taj Mahal í bak og fyrir, bæði í dagsljósi og sólsetri, rétt eins og innfæddir mynduðu okkur í bak og fyrir. Eftir sólsetur lögðum við af stað að útganginum sem er smá spölur. Gerði þá þvílíka rigningu að beljandi fljót mynduðust þar sem áður voru göngustígar. Við leituðum skjóls undir virkisveggnum sem er umhverfis hofið. Fljótlega tóku við þrumur og eldingar, okkur til mikillar gleði.

Daginn eftir gerðum við tilraun til að rölta gegnum bæinn sem gekk ekkert sérlega vel. Bæði vorum við svöng og þreytt og ekki bætti úr skák að Agra búar voru yfirþyrmandi ágengir. Þarna fundum við fyrir því hvað við vorum orðin þreytt á hávaðanum, áreitinu og óþrifnaðinum í Indlandi. Um kvöldið lá leiðin á síðsta áfangastað Indlands, Varanasi.

Við komum 4 tímum of seint til Varanasi því lestin keyrði niður tvo vísunda á leðinni og tók sinn tíma að skafa þá undan lestinni. Þegar kom að því að finna tuktuk-a gripum við þá bílstjóra sem buðu okkur ódýrasta verðið. Það reyndist þó ekki vera gáfulegt múv því þetta varð að einni allsherjar svikamyllu þar sem bílstjórinn fór með okkur á ógeðslega hótel bæjarins og sagði það vera hótelið sem við vildum fara á. Leiðin þangað var eins og úr verstu hryllingsmynd: þröng stræti, rotnandi hundur, feitar beljur sem fylltu út í gangveginn og klassíska indverska skítafýlan fyllti vit okkar. Við áttuðum okkur fljótt á því að við vorum líklega á röngum stað en gátum lítið gert í því þar sem við vissum ekkert hvar við vorum. Bílstjórinn stakk þá á upp á öðru hóteli og þar sem við vorum ekki búin að bóka hitt ákváðum við að  kíkja á það. Það reyndist þó til allrar lukku vera hið ágætasta hótel, með lokuðum garði þar sem við gátum fengið kærkominn frið og ágætan mat.

Í Varanasi fórum við tvær siglingar á Ganges fljótinu sem er heilagt í augum Indverja. Fólk baðar sig í fljótinu, burstar tennurnar, veiðir fisk, þvær þvottinn sinn, drekkur úr því en auk þess dreifir það ösku látinna ástvina í fljótið. Í fyrri siglingunni, sem var við sólarupprás, mátti litlu muna að Áslaug og María ældu í fljótið þegar þær sáu fólk baða sig og bursta tennurnar upp úr því vitandi af öllum viðbjóðnum sem leyndist í fljótinu fyrir neðan þær. Við fljótið eru u.þ.b 80 ghat, en það eru þar til gerðir brennslustaðir þar sem líkin eru brennd. Lík barna undir 10 ára aldri, óléttra kvenna og þeirra sem létust úr sjúkdómum eru þó sett beint í fljótið. Við fylgdumst með einni brennsluathöfn og þótti okkur það mjög merkileg sjón þar sem líkin lágu óhulin á bálkesti þannig að við horfðum framan í þau á meðan þau brunnu.

Án gríns þá er “Viltu vinna milljón” vinsælasti sjónvarpsþáttur Indlands og virðist vera í sjónvarpinu á hverju kvöldi. Oft sáum við alla hótelstarfsmennina spennta fyrir framan imbakassann að fylgjast með.

Á heildina litið erum við mjög ánægð með þessa Indlandsdvöl og hefðum aldrei viljað sleppa því að koma hingað. Hlutir sem við rákum áður upp stór augu yfir í byrjum eru orðnir ósköp eðlilegir. Fátt er orðið sjálfsagðara en ráfandi beljur og flækingshundar á götunum, vöntun á umferðarljósum og fátækt fólk hvert sem litið er. Nú erum við þó tilbúin í næsta ævintýri og bíðum spennt eftir því að sjá hvað mun á daga okkar drífa í Nepal.

12 thoughts on “Indland – Mathura, Agra og Varanasi

 1. Þessi ferðasaga ykkar er alveg frábær lesning þið eruð svo vel máli farin og segið svo skemmtilega frá. Myndirnar eru líka alveg stórkostlegar! Takk fyrir að fá að vera þátttakandi í þessu ævintýri ykkar. Gangi ykkur allt í haginn, hvar sem þið eruð 😉

 2. Æðisleg frásögn jám 🙂 Taj mahal er eins og það sé photoshoppað!! 🙂 sakna ykkar (Evu og áslaugu.. þekki ekki Mariu og Steinar) :* hlakka til næsta bloggs!! Ættuð að íhuga að skrifa bók.. getur ekki hætt þegar maður byrjar að lesa 🙂 Þvílík ævintyri.. minnir mann á Ungverjaland og Tyrkland með flækingshundanna og viðbjóðinn á götunum.

 3. Vá þetta er geðveikt, ég væri sko meira en til í að vera með ykkur í þessari ferð, þetta er sjúkt. Ég bíð spennt á hverjum degi eftir bloggi frá ykkur og ekki er verra að fá svona góða frásögn með 😉 Haldið áfram að lifa þessu ævintýri 😉
  bkv, frá hversdagslífinu

 4. Æðislegt ævintýri á ykkur og alveg rosalega skemmtilegt að lesa um ykkar ferðalög.

 5. Að vanda er alveg magnað að lesa ferðasöguna ykkar og virkilega gaman að skoða þessar myndir, það er að mörgu leyti eins og maður sé þarna með ykkur 🙂

  Gangi ykkur allt í haginn !

 6. Vá hvað það er æðislegt að fylgjast með þessu ævintýri ykkar héðan úr hversdagsleikanum. Mér finnst þið frábær að hafa framkvæmt þetta og snilld hvernig við hin fáum að fylgjast með úr fjarlægð, og myndirnar gefa manni smá innsýn inn í þetta allt saman. Haldið áfram að skemmta ykkur vel, hlakka til fylgjast með 🙂

 7. Frábært að lesa! Þið eruð svo fyndin! Þessar ljósmyndir eru líka algjört augnakonfekt! Haldið áfram að skemmta ykkur og lifa draumalífinu 🙂

 8. Ferðasagan er frábær og myndirnar bæta sannarlega um betur. Kærar þakkir fyrir að miðla ferðinni svona vel. Myndavélatakskan virðist samt vera þung og stór en vonandi verður vesenið með hana metið þess virði eftir á. Fyrir okkur sem heima sitjum og fylgjumst með er virðið mikið! Gott að þið fluguð frá Varanasi til Nepal því rútuferð er lýst á vefnum sem hryllingi.

 9. Ohh þetta er algjört ævintýru hjá ykkur! Frábærar myndir og góð frásögn 😉 Hafið það sem allra best! Knúz&Kossar***

 10. GET PROFESSIONALLY VIDEOS AT AFFORDABLE PRICES

  We offer professionally produced videos at affordable prices.
  Our videos have the look and feel of a high quality television commercial, complete with professional spokesperson, background, text,
  images, logos, music and of course, most importantly, your company’s contact information for your steinar.is.

  If you’re ready to reach more clients today, let us get to work on producing your company’s exclusive video.
  MORE INFO=> http://qejn39630.bloggerbags.com/8235134/get-videos-at-affordable-prices

Leave a Reply

Your email address will not be published.