Indland – Amritsar

Jæja þá komum við að fyrstu lestarferðinni á Indlandi en við „hlökkuðum“ mikið til hennar. Pöntunarkerfið raðaði okkur vítt og breitt um vagninn þannig ad við deildum klefum með misundarlegum Indverjum. Þar ber helst að nefna manninn sem hraut í rúminu hennar Evu þegar við komum um borð. Þegar honum var beint á að þetta væri alls ekki hans rúm smeygði hann sér einfaldlega upp í „king size“ rúm vinar síns á hæðinni fyrir neðan og hélt áfram að hrjóta þar. Indverjinn sem var í rúminu við hliðina á Maríu var einnig kynlegur kvistur. Reglulega komu menn sem buðu ýmislegt matarkyns til sölu, s.s. omilettu og kaffi en hann verslaði hvern einasta rétt og ropaði hátt og snjallt eftir hverja máltíð. Þegar María vaknaði um morguninn var hann að hugleiða með tilheyrandi öndunaræfingum, hummi og handahreyfingum. Klósettið vakti einnig mikla lukku. Við okkur blöstu lestarteinarnir í gegnum litla holu í gólfinu og hlandsaurþefurinn fyllti vit okkar svo lá við uppköstum og öðrum ófögnuði. María fékk nett taugaáfall þegar hún festist inni á ógeðisklósettinu og var farin að íhuga hvort hún kæmist út um holuna. Eftir þessa hræðilegu lífsreynslu var gott að hafa Evu sálfræðing með í för.

 Pílagrímar og ferðamenn flykkjast til Amritsar til að sjá Gyllta hofið og vorum við þar engin undantekning en við skoðuðum það nokkrum sinnum í ýmiss konar birtu. Gyllta hofið er heilagasti staður Síka og til að komast inn þarf maður að fara úr skónum, thvo faeturnar og hylja hárið. Fólk baðar sig og drekkur heilaga vatnið umhverfis hofið en thad telur ad med thvi muni sal theirra blessast. Við erum nokkuð viss um að ef heilbrigðiseftirlitið á Íslandi kæmist í þettta vatn yrði þessi athöfn bönnuð af heilsufarsástæðum. Við erum sammála um að hofið sé með því fallegasta sem við höfum séð og var friðsældin þar inni kærkomin eftir tryllinginn sem við höfðum upplifað síðustu daga á götum Indlands. Líkt og venjulega vöktum við mikla athygli en það toppaði þó ekkert klikkuðu konuna sem elti okkur eins og skugginn og endaði á því að leggja álög á Steinar og stökkva urrandi á Áslaugu þegar verðirnir ætluðu að halda henni frá okkur. 

Á hverjum degi rétt fyrir sólsetur er athöfn á landamærum Indlands og Pakistans þar sem landamærunum er lokað og fánarnir dregnir af húni. Við lögðum upp í smá ferð og ákvaðum að bera þessa athöfn augum en hún var athyglisverð að ýmsu leiti en fyrst og fremst undarleg. Mikill fjöldi Indverja og Pakistana, handan landamæranna, var þarna samankominn og virtist tryllingslega spenntur fyrir þessu öllu saman, m.a. fyrir því að hlaupa með indverska fánann og sjá dans landamæravarðanna sem líkist „Skóm dauðans“ úr Fóstbræðrum óþægilega mikið. Við fengum VIP sæti í sérstakri útlendingastúku en hún var næst landamærunum sjálfum og skemmtum við okkur konunglega.    Mannlífið í Amritsar var virkilega skemmtilegt og flest allir mjög vinalegir. Við gengum inn í bæinn þar sem ferðamenn voru hvergi sjáanlegir og römbuðum m.a. á skrúðgöngu leidda af skreyttum fíl og honum fylgdu bleikspreyjaðir karlmenn. Fljótt á litið virtist þetta vera gay-pride ganga en eftir að hafa rætt við innfædda komumst við að því að hún væri af trúarlegum toga eins og við var að búast.  

            Eini mínusinn við Amritsar var frekar ósmekklegt hostel. Það leit ágætlega út við fyrstu sýn og byrjuðum við að þvo öll fötin okkar og hengja þau á þvottasnúrur þvers og kruss um herbergin. Við vorum þó ekki lengi í paradís því fljótlega blossaði fúkkalyktin upp og við tókum eftir myglu á veggjunum. Nú lykta fötin okkar eins.

 Eftir skemmtilega dvöl í Amritsar beið okkur önnur næturlest til Mathura sem er borg nálægt Agra.

Að lokum viljum við koma því á framfæri að Áslaug hefur hlotið nýtt nafn, en það mun vera Hofslaug. Tímabundin sjúkdómsgreining er hofsýki á háu stigi og íhugum við að senda hana í meðferð á Hofsósi strax við heimkomu.

19 thoughts on “Indland – Amritsar

 1. Þvílíkt ævintýri. Það er ljóst að einn góðan veðurdag þarf maður að berja Gyllta hofið augum. Skemmtileg frásögn og frábærar myndir:-)

 2. Skemmtilegt blogg og alveg ótrúlegt allt sem þið eruð að upplifa. Myndirnar eru frábærar og ég vona að þið haldið myndakvöld þegar heim er komið og segið okkur söguna á bak við þær allar. Ekki amalegt að sjá fíl á gangi inn í miðri borg.

  Klósettið í lestinni er mesti viðbjóður sem ég hef séð. Slær út hroðbjóðsklósettunum sem ég kynntist í austur-Evrópu lestunum. Ég held ég myndi bara míga í mig frekar en að leggja í þetta. Steinar heppinn – hann hlýtur að pissa bara út um gluggann eða í flösku?

 3. Munið að njóta alls, líka næturklefanna og klósettanna! Hugsið um hvert atvik sem einstakt og munið eftir að líklegast verði það ekki endurtekið. Sara var einu sinni í kasti í lestarferð á Ítalíu þegar ég hringdi í hana. Hún hafði gert tilraun til að fara á hroðbjoðsklósett lestarinnar. Ennþá man hún eftir því að ég sagði henni að njóta þess því hún myndi ævinlega forðast slíkar aðstæður eftir þessa reynslu og það hefur reynst rétt. Sama gildir um ykkur. Mig langar til dæmis undarlega lítið í þessa lestarferð og mun líklegast missa af reynslunni fyrir lífstíð. Ekki þið!

 4. Engin smá upplifun í gangi hjá ykkur og myndirnar segja svo margt. Eftir að hafa séð smá myndbrot úr indverskri lest í sjónvarpinu í sumar, þá kemur mér klósettið ekki á óvart 🙁 Aldrei hefði mér samt dottið í hug að þið lentuð í sitt hvorum klefanum. Gyllta hofið er dásamlega fallegt þar sem það speglast í vatninu í myrkrinu. Það hlýtur að vera sterk upplifun að koma inn á svona ofhlaðinn helgidóm og sjá svo fátæktina á götunum. Góða ferð áfram í Indlandi þið hugrakka unga fólk!

 5. Skemmtileg frásögn og flottar myndir.
  Munið bara að njóta alls í botn, því þetta ferðalag á eftir að ylja ykkur alla æfi.
  Góða ferð dúllur og risaknús á Maríu!
  Guðrún.

 6. Ávallt skemmtilegt að lesa þessar frásagnir og mjög flottar myndir.

  Njótið þessa mikla ævintýris í botn og gangi ykkur vel !

 7. Ég segi nú ekki annað en að ég öfunda ykkur þvílikt 😉 Haldið áfram að taka myndir því þær segja meira en þúsun orð 😉

 8. Rosalega er gaman að lesa bloggin frá ykkur, sérstaklega með öllum þessum flottu myndum, maður bíður alltaf spenntur eftir næsta bloggi. Vonandi gengur allt vel!

 9. Alveg frábært að fá að fylgjast með þessu ævintýri ykkar.
  Æðislegt hvað þið eruð dugleg að setja margar myndir með hverri færslu 🙂

 10. Það er svo gaman að lesa bloggfærslur ykkar og sjá myndirnar. Þetta er svo mikið ævintýri hjá ykkur njótið þess að vera til en farið samt varlega

 11. Þetta er alveg ótrúlegt! Snilld að sjá allar þessar myndir. Bíð spennt eftir að sjá og heyra meira. Bestu kveðjur og knús á ykkur.

 12. haha lúðinn ég gleymdi að setja nafnið mitt inn! ég átti sumsé síðasta komment: knús á ykkur fallega fólk, dýrka að fylgjast með ykkur! =)

 13. Úff, ég veit ekki lengi ég mun geta fylgst með þessu bloggi. Ég er að mygla úr öfund! Ég skal reyna að vera jákvæðari í næsta kommenti..
  Abbóferðakveðjur!

 14. segi bara kvitt! 😉 og Hofslaug því hún var svo hrifin af Hofinu?!? neehh of auðveld útskýring 🙂 hlakka til að heyra meira í ykkur.. Sátt með fatavalið Eva.. þessi bolur fylgir þér út um allan heim, ég er sátt 🙂

 15. Það er alveg ótrúlegt að sjá allar þessar myndir og það hlýtur að vera alveg ótrúlegt að upplifa allt það sem þið eruð að gera .Njótið hverrar mínútu og gangi ykkur rosalega vel það sem eftir er, passið uppá hvot annað.
  Hlakka til að fylgjast með ykkur þegar þið eruð komin til Nepal

 16. Ótrúlega gaman að lesa bloggið ykkar og skoða allar þessar flottu myndir. Haldið áfram að skemmta ykkur svona vel og farið varlega. Bíð spennt að heyra meira frá ykkur. Knús!!

 17. Enn og aftur – æðisleg frásögn og frábærar myndir! 🙂 Mikið er þetta spennandi alltsaman hjá ykkur.

Leave a Reply

Your email address will not be published.