Indland – Delhi

Líkt og kom fram í síðustu færslu er flugfélagið Virgin Atlantic nýja uppáhalds flugfélagið okkar. Ástæðan er einföld og góð: hressu karlkyns flugþjónarnir (einn hét Gaur) gáfu okkur gjafir! Svo nú erum við einu sokkapari, augngrímu, tannbursta, tannkremi, penna og “óhreinatauspoka” ríkari. Maturinn var líka betri en við bjuggumst við, og hann var ókeypis. Við fengum karrírétt í kvöldmat og með honum fylgdi dýrindis súkkulaði-karamellu-bananamús. En það var ekki allt sem við fengum. Morgunmatur var líka innifalinn en hann var borinn fram um miðja nótt og leit ískyggilega mikið út eins og kvöldmaturinn – sem sagt, karrýréttur í morgunmat.

Fjöllin í Afganistan

Dagur 1

Við lentum í Delhi rétt fyrir hádegi þar sem okkar beið bílstjóri sem hélt á spjaldi með nöfnunum okkar. Líkt og búist var við lentum við á “vegg” þegar við löbbuðum út úr flugstöðinni en hitinn hér er um og yfir 30°C. Bílferðin líktist frekar rússíbanaferð en einhverju öðru en umferðin hér er svakaleg. Bílar keyra þvers og kruss, bílstjórar flauta eins og brjálæðingar, fólk röltir í rólegheitunum inn í hraðbrautir (í veg fyrir bílana), beljur standa úti á miðri götu og lítil börn hanga á rúðunni manns og reyna að selja manni alls konar drasl. Það sem toppar þetta allt saman er svo að engin bílbelti eru í þessum skrjóðum – já og svo er afskaplega lítið af umferðarljósum.

Við komumst þó heil að höldnu á hostelið okkar sem er staðsett við líflega baazar götu en komumst þó ekki inn fyrr en nokkrir Indverjar voru búnir að “áreita” okkur. Við ákváðum svo að skoða hverfið en í þeirri háskaför kynntum við honum Chris vini okkar sem er bakpokaferðalangur frá Þýskalandi. Við slógumst í för með honum þar sem hann virtist vera örlítið reyndari heimshornaflakkari en við. Það gekk þó ekki betur en svo að við ráfuðum um í c.a 2 tíma og fengum allskyns áhangendur sem vildu ólmir “hjálpa okkur”. Við sáum þó ýmislegt í þessar ferð eins og markaði, apa, betlara, hof o.fl. Að lokum fundum við nokkurskonar miðbæ þar sem fullt af búðum og veitingastöðum eru en þar beið okkar betlari sem elti okkur á röndum með Gollum puttana sína. Hann var heldur ágengur þar sem hann togaði í okkur og strauk puttanum niður eftir handleggjunum okkar þannig að við gátum fátt annað gert í stöðunni en að flýja inn í skóbúð og spritta okkur í drasl.

Gatan okkar og TukTuk


Dagur 2

Við vöknuðum eldsnemma og fórum í morgunmat uppi á þaki á hostelinu þar sem drulluskítugir sokkar kokksins hengu til þerris á skilrúminu milli eldhússins og borðsins okkar.

Deginum eyddum við svo í skoðunarferð um Delhi með einkabílstjóra sem kostaði 2250 kr sem þýðir að bíllinn kostaði 280 kr á tímann. Þetta sáum við:

Shree lakshmi narayan mandir sem er hindúahof þannig að við þurftum að fara úr skónum og klæða okkur siðsamlega. Við prófuðum að biðja fyrir framan styttur í félagi við hóp af Indverjum og fengum punkta á ennið.

India gate sem er minnisvarði fyrir Indverska hermenn. Þar kynntumst við fyrst Indversku áreiti fyrir alvöru og gátum varla skoðað minnisvarðann að sökum vinsælda okkar. Okkur leið eins og Hollywood stjörnum þar sem fólk hópaðist í kringum okkur og vildi fá að sitja fyrir á mynd með okkur. Fyrir hvern sem fékk mynd bættust við fimm nýjir sem vildu mynd.


Ólöglegur slöngutemjari sýndi okkur dansandi kóbraslönguna sína milli tveggja bíla og vildi fá fúlgu fyrir – við gáfum honum 25 íslenskar krónur.


Forsetahöllina og skrifstofur forsetansIndira Gandhi safnið sem leiddi okkur í gegnum líf forætisráðherrans, þar til hún var skotin til bana.Qutub minar sem er ansi hár íslamskur turn með ýmsum byggingum í kring. Þar fengum við nokkra rigningardropa og ákvað Áslaug að klæða sig í bláa plast skikkju. Hún vakti ansi mikla athygli þar sem fólk byrjaði að benda á hana og hlægja.

Lotus hofið er stórt og fallegt hof sem svipar til óperuhússins í Sydney. Það er ætlað fólki, óháð trúarbrögðum.

Dagur 3

Síðasta  daginn í Delhi ákváðum við að prófa TukTuk sem eru litlu leigubílarnir í borginni sem líkjast golfbílum nema þeir hafa 3 hjól. Í fyrstu tilraun var okkur hent út út bílnum því við neituðum að fara í Indverska fatabúð í leiðinni. Í næstu tilraun tóku við fram að við vildum engar búðir og samþykkti bílstjórinn það. Deginum var eytt í túristaleik þar sem Chris nýji vinur okkar slóst í hópinn.

Við sáum:

Akshardum sem er stærsta hindúahof í heimi.

Humayun sem er grafhýsi sem svipar víst til Taj Mahal.

Um kvöldið lá leið okkar á lestarstöðina þar sem 12 klst lestarferð til Amritzar beið okkar. Líkt og venjulega vöktum við mikla athygli þar en fólk hópaðist í kring um okkur og starði. Meira um það síðar…

11 thoughts on “Indland – Delhi

 1. Gaman að lesa og skoða þessar flottu myndir, gangi ykkur allt í haginn 🙂

 2. Vá þetta er alveg ævintýralegt hjá ykkur!
  Gaman að lesa og sjá myndir!
  Góða skemmtun 🙂

 3. ótrúlega gaman að fylgjast með ykkur 😉 bíð spennt eftir næstu færslu 🙂

 4. María, og ferðafélagar:
  Vá .. rosalega er gaman hjá ykkur …og skemmtilegt að fá að fylgjast með,
  Ég hlakka til að lesa ferðasögurnar.
  Have fun!!
  Guðrún.

 5. Stórkostlegt! Það verður gaman að fylgjast með ykkur í þessu ferðalagi 🙂 Keep up the good work!

 6. Steinar Hugi á ferð og flugi, Bragi Brilliant benti á þessa síðu með að setja á hana “like” og hún fær líka feitt like frá mér. Skemmtileg frásögn og það verður spennandi að lesa meira þegar fram líða stundir.
  Góða skemmtun, góða ferð.

 7. Ótrúlega flottar myndir, þú ert svo mikill snillingur Steinar! Skemmtileg frásögn líka, hló upphátt nokkrum sinnum. Hefði ekkert á móti því að vera þarna með ykkur 🙂

 8. Æðislega gaman að fylgjast með ykkur og sjá myndirnar!

 9. Gaman að fylgjast með ykkur elsku snúllurnar mínar :* take care.

 10. Gaman að skoða flottar myndir og vona að allt gangi vel hjá ykkur á leið ykkar um Indland o.fl.

 11. Skemmtilegt blogg og listrænar myndir! Endalaust að skoða á hverri mynd og þær eru hver annarri flottari. Ótrúlegta skrítið að vita af ykkur þarna úti í heimi.
  Ætli fólk sem sjái aðra vera að taka mynd af ykkur haldi ekki að þið séuð fræg og það sé nú best að taka mynd líka svona til vonar og vara? Þið ættuð að fara að taka pening fyrir.

Leave a Reply

Your email address will not be published.