Singapore

Það voru mikil viðbrigði að koma til Singapore eftir vanþróaðri Asíulöndin sem við höfðum dvalist í mánuðina tvo á undan. Singapore er sannkallaður suðupottur af fólki, sem kemur frá Kína, Indlandi, Malasíu og fleiri löndum og þar eru fjögur opinber tungumál; enska, kínverska, malay og tamil. Við áttum því loks auðvelt með að eiga í samskiptum við fólk og þurftum ekki að stóla á túlka eða ofur ýktar handahreyfingar okkur til stuðnings. Singapore búar eru einnig almennt hjálpsamir og kurteisir og sýndi það sig m.a. í lestarverðinum sem benti okkur góðfúslega á að við ættum að nota “fatlaða” innganginn í neðanjarðarlestina því það væri, eins og hann orðaði það “for people like you”. Hvort hann var að vísa til stóru pokanna sem við roguðumst um með á bakinu eða til líkamlegrar stærðar okkar er óvíst, en við kusum þó að líta svo á að hann væri að meina hið fyrra. Singapore er auðug og ofurhrein nútímaborg (algjör andstæða við Indland). Þar gilda óteljandi reglur og ef þær eru brotnar þarf að greiða háar sektir eða lúta þungum refsingum. Meðal annars er bannað að flytja inn eða selja tyggjó (stressuðu við sturtuðum því tyggjóbirgðunum okkar í ruslið við lendingu), henda rusli á göturnar, sleppa að sturta klósettinu niður eftir notkun og fóðra fugla úti á götu. Dauðrefsingu er beitt við eiturlyfjasmygli og samkynhneigðir menn mega ekki stunda kynlíf.  Maríu var þó hin glaðasta í þessu regluríki og fannst stórfínt að tyggjó væri litið hornauga enda með tyggjóklígju á háu stigi. Það má því segja að hún hafi verið í sannkölluðu himnaríki í Singapore.

Eftir að hafa fundið hostel stutt frá einni neðjanjarðarlestalínunni skunduðum við niður á Raffles Place þar sem við skoðuðum Merlion, sem er eins konar tákn Singapore, og dáðumst af öllum háhýsunum, Singapore Flyer parísarhjólinu, tónleikahöllinni og Marina Bay Sands hótelinu, sem er ábyggilega með því flottasta í heimi. Bjórþorstinn fór þá að segja til sín en í staðinn fyrir að setjast niður á bar og panta okkur bjór keyptum við hann í Seven-Eleven sökum nísku. Verðlagið í Singapore er mun hærra en við vorum orðin vön og vorum við ekki alveg tilbúin til að kaupa bjór á sama verði og heima.

Næsta dag stóðust stelpurnar ekki mátið og þefuðu uppi fyrstu H&M búð ferðarinnar. Þar voru þó engin stórkaup gerð því við áttuðum okkur fljótt á að það voru eiginlega bara vetrarvörur í boði og höfðum við ekki mikla þörf fyrir pelsa og loðhúfur á þessum tímapunkti. Hitinn í Singapore er svipaður allt árið um kring, milli 25 og 30 gráður, og áttum við bágt með að skilja hvaða klikkhausar keyptu eiginlega þessi vetrarföt. Eftir verslunarflippið notuðum við restina af deginum í að rölta um borgina og skoða Kínahverfið. Um kvöldmatarleytið ákváðum við svo að dekra smá við okkur og fengum okkur steik á fínum steikarstað í miðri verslunarmiðstöð. Það var þó ágætt að við stoppuðum bara fjóra daga í Singapore því veskin okkar voru byrjuð að finna ansi vel fyrir því. Fátækir bakpokaferðalangar, með takmarkað farangurspláss, eiga víst ekki að missa sig í fínum verslunarmiðstöðvum.

Dýragarðurinn í Singapore er rosalega stór og flottur með um 315 tegundum af dýrum. Við eyddum heilum degi þar og skemmtum okkur stórvel. Aðal aðdráttarafl dýragarðsins eru þrjú tígrisdýr sem búa þar. Ekki eru þetta venjuleg tígrisdýr heldur eru þau með glæsilegan, hvítan feld sem gerir þau afar sérstök. Við eyddum því töluverðum tíma fyrir framan hýbýli þeirra og fylgdumst með þegar starfsfólkið henti hverri kjötsneiðinni á fætur annarri ofan í gryfjuna þeirra. Við heilsuðum líka upp á órangúta og gáfum lemúrum banana að borða. Líkt og áður hefur komið fram er Singapore land reglna og sekta og er því auðvitað ólöglegt að gefa öpunum þar að borða. Við réðum þó ekki við okkur og ákváðum að taka sénsinn og viti menn, við sluppum með skrekkin og vorum ekki handtekin í þessum apaleiðangri. Gengum við því ánægð frá söddu, loðnu krúttunum með röndóttu skottin. Um kvöldið fórum við síðan í Night safari þar sem við sáum næturdýrin í allri sinni dýrð og fylgdumst með elddönsurum sýna listir sínar.

Línan sýnir hversu langt tígrisdýrin geta stokkið

Síðasta daginn í Singapore tókum við kláf yfir á litla eyju fyrir utan borgina sem heitir Sentosa. Þar röltum við um ströndina, fylgdumst með brimbrettaköppum í ölduhermi, fundum annað Merlion og var meinaður aðgangur að spilavíti sökum klæðnaðar (story of our life). Þegar tók að dimma skelltu María og Steinar sér upp í Singapore Flyer til að taka myndir yfir borgina og hittist hópurinn svo aftur í kvöldmat á sushi stað með réttum sem komu rúllandi framhjá á færibandi, sushi aðdáendum hópsins til mikillar gleði.


Þessir fjórir dagar voru ótrúlega fljótir að líða en þar sem við vorum búin að eyða síðustu vikunni í stórborgum þótti okkur vera kominn tími til að eyða smá tíma á ströndinni og vinna í brúnkunni. Við lögðum því spennt upp í leiðangur til Indónesíu.

 

Kuala Lumpur

Við komum til Kuala Lumpur í tvennu lagi en María og Steinar ákváðu að best væri að ferðast eins og konungsborið fólk og fjárfestu í flugmiða á meðan Áslaug og Eva stunduðu lífið eins og sótsvartur almúginn og keyptu rútumiða. Flugferðin reyndist þó ekki vera jafn glamúros og parið hafði ímyndað sér þar sem flugtíminn var styttri en bílferð milli Kringlu og Smáralindar sem þýddi að allt þurfti að gerast á methraða. Þegar slökkt var á sætisólaljósunum eftir flugtak þutu flugþjónarnir af stað og byrjuðu að láta farþegana fá flugmatinn góða. Þegar þeir áttu nokkrar sætaraðir eftir var kveikt aftur á ljósunum þar sem komið var að lendingu. Matnum var því „hent“ í síðustu farþegana og þurftu María og Steinar, sem svo heppilega sátu aftarlega í vélinni, að gúffa matinn í sig um leið og þau spenntu sætisólarnar, settu sætin og borðin í uppretta stöðu og drógu upp gluggahlífarnar. Þegar þau lentu í Kuala Lumpur fóru þau beinustu leið í Chinatown þar sem þau höfðu bókað herbergi yfir nóttina. Það reyndist frekar ósmekklegt, lítið og gluggalaust, en þau létu sig hafa það eins og góðum bakpokaferðalöngum sæmir. Þau urðu þó fljótt vör við þykkan reyk sem kom út úr einu herberginu og smeygði sér inn um króka og kima hostelsins í tíma og ótíma. Þessi sýn benti til þess að síðhærðu, dredda nágrannarnir væru að reykja kannabis í gluggalausa herberginu sínu. Þeir virtust svo hafa fengið þá stórgóðu hugmynd að setja viftuna á fullt og blása þannig sönnunargagninu í burtu. Það hafði þó ekki betri áhrif en þau að reykurinn feyktist yfir ganginn og beint inn um loftræstiop litla herbergisins á móti sem tilheyrði Maríu og Steinari. Það þarf varla að segja frá því að ónefndur aðili ræddi við yfirmann hostelsins sem gerði það að verkum að reykurinn varð ekki jafn tíður og parið komst hjá óumbeðinni vímu.

Ferðalag Áslaugar og Evu var þó af öndverðum mæli þar sem rútuferðin var eins og í slow motion og tók heilar 23 klukkustundir og innihélt ofvirka loftkælingu, rútuskipti, rölt yfir landamærin með hafurtaskið á bakinu og gegnumlýsingu á bakpokunum þar sem enginn sat við gegnumlýsingarvélina. Þær rúlluðu svo inn í Kuala Lumpur um miðja nótt og ráfuðu um Chinatown, ásamt nýjum ferðafélaga, í leit að gistingu. Eftir að hafa athugað með nokkur hostel sem reyndust vera fullbókuð kom hávaxinn, ofurgrannur og undarlega útlítandi karl á vespu til þeirra og sagðist eiga laus herbergi á hostelinu sínu. Ferðalangarnir þrír ákváðu að elta kauða og viti menn, hann sagði satt. Hostelið var þó ekkert til að hrópa húrra fyrir, herbergin voru á við gluggalausar geymslur og á efstu hæðinni dvaldi ölvaður, ástsjúkur Japani sem hélt vöku fyrir fólki. Hann var frekar furðulegur fýr, virtist ekki eiga boli eða skyrtur og tók japönsk bardagastökk í tíma og ótíma, líklega í þeirri von um að heilla stúlkurnar á svæðinu. Gistingin var þó ódýr og erfitt var að gera miklar kröfur um miðja nótt þannig að ákveðið var að flytja inn. Dömurnar gátu þó ekki byrjað dvölina á því að slappa af því stuttu eftir að komið var á hostelið komst ferðafélagi þeirra að því að hann hafði týnt veskinu sínu, sem innihélt alla peningana hans og kreditkort. Það þýddi því ekki annað en að allir fóru aftur út á skuggalegu götuna til að leita, en hún var nú orðin full af fólki sem var að selja „stolen goods“. Þrátt fyrir ítarlega leit fannst veskið þó ekki.

Við vorum stödd í Kuala Lumpur um mánaðamótin október-nóvember og jólaundirbúningur íbúa var bersýnilega farinn af stað. Okkur þótti þó frekar undarlegt að sjá jólatré, jólaskreytingar og jólasveina á víð og dreif um borgina í ljósi þess að Malasía er ríki múslima. Kuala Lumpur er þó fjölmenningarsamfélag sem skýrir eflaust þenna jólafíling sem var í borginni.  Við fjögur vorum svo sem ekki komin í mikið jólaskap en það gæti skýrst af því að úti var 30° hiti og við klædd í stuttbuxur og bol sem er ekki beint jólalegasti klæðnaðurinn í okkar augum. Það var þó gaman að upplifa jólastemninguna á þessum stað sem er svo ótrúlega ólíkur heimahögum.

Helsta afþreying okkar í borginni innihélt Tvíburaturnana (Petronas Towers) sjálfa, helstu kennileiti Kuala Lumpur. Turnarnir eru 88 hæða ferlíki, 378,6 metrar á hæð (451,9 metrar ef loftnetin eru talin með) og á árunum 1998 til 2004 vermdu þeir topp sætið í keppninni „hæsta bygging heims“. Þessa turna heimsóttum við þó nokkrum sinnum þessa fáu daga sem við eyddum í borginni og skoðuðum þá frá öllum sjónarhornum og í alls konar birtu. Inni í öðrum turninum var svo risastór, nokkurra hæða verslunarmiðstöð og var ömurlegt að geta ekki dottið í verslunargírinn og fyllt heilu gámana af glingri og gúdderíi til að senda heim – eins og þið gerið ykkur líklega grein fyrir þá þótti Steinari það þó erfiðast 😉

Okkur tókst að labba í gegnum verslunarmiðstöðina án þess að eyða aleigunni og enduðum á neðstu hæðinni þar sem við skelltum okkur á flott sædýrasafn. Þar skoðuðum við pýrenafiska, héldum á krossfiskum, klöppuðum afar smáum hákörlum og fórum á færibandi í gegnum risastórt fiskabúr með sæskjaldbökum, hákörlum og fleiri sjávardýrum syndandi allt í kring og fyrir ofan okkur. Reyndar máttum við sem vorum í flip-flop sandölum ekki vera á færibandinu sjálfu, heldur áttum við að labba meðfram því. Þar sem við höfum þó alltaf þótt vera ágætis uppreisnarseggir og vegna þess að við töldum litlar líkur á að við færum okkur að voða í sandölunum hunsuðum við þá reglu og rúlluðum nokkrar ferðir í gegnum fiskabúrið.

  

Þrátt fyrir að múslimar séu ekki þekktir fyrir að drekka mikið áfengi var þó hægt að fjárfesta í ýmsum drykkjum hér og þar í borginni. Við sáum furðulega auglýsingu um partý á þaki hostelsins sem María og Steinar voru á og ákváðum að kíkja þangað. Það sem vakti sérstaka athygli okkar var að tekið var fram að einungis útlendingar væru velkomnir í partýið, ekkert local fólk og engir ladyboy-ar og veltum við því fyrir okkur hvort þessir aðilar væru settir á bannlista vegna einhverra sérstakra ástæðna en hingað til hafði okkur þótt afskaplega gaman að tjútta með fyrrgreindu liði. Partýið varð þó heldur endasleppt því barþjónninn neyddist til að loka snemma vegna eigin þreytu og þynnku og má því segja að local liðið og ladyboy-arnir misstu ekki af miklu.

Daginn eftir þakpartýið röltum við um borgina, skoðuðum eina aðal Moskuna í Malasíu, sem við máttum reyndar ekki fara inn í því fyrir utan stóð skilti sem bannaði „non-muslim tourists“ aðgang. Við grétum það nú ekki og löbbuðum í staðinn í einn af stærstu grasagörðunum í Kuala Lumpur, Lake Gardens. Þar mátti finna marga minni garða, þar á meðal dádýragarð, orkídeugarð, fuglagarð og fiðrildagarð. María og Steinar fóru í fiðrildagarðinn en Áslaug og Eva tímdu ekki að borga heilar 500 krónur í aðgangseyri og ákváðu í staðinn að rölta um svæðið og skoða grasagarðinn betur. Hann reyndist vera mjög fallegur með fossum, stórum tjörnum og runnum sem voru í laginu eins og risaeðlur. Þegar María og Steinar voru búin að fá sig fullsödd af fiðrildum sameinaðist hópurinn á ný og hófst leit af National monument, en það var reist til minningar um þá sem létust í frelsisbaráttu Malasíu. Eftir allt of langa leit fannst það og olli nokkrum vonbrigðum, enda bara enn önnur styttan.

Planið var að fara upp í Kuala Lumpur Tower til að sjá 360° útsýni yfir borgina en á leið okkar þangað byrjaði að rigna eins og hellt væri úr fötu og ákváðum við því að sleppa turninum þar sem útsýnið var orðið lítið sem ekkert. Í staðinn flúðum við inn á næsta markað til að finna skýli og biðum þar af okkur mesta skúrinn. Markaðurinn reyndist þó ekki vera mjög gott skýli þar sem hann var ekki lengi að breytast í hálfgert flóðasvæði og þurftum við því að rifja upp gamla “vaðtakta” frá Kambódíu.

Líkt og áður hefur komið fram voru hostelin okkar í Chinatown en þar sprettur upp stór og þröngur markaður á hverjum degi sem gaman er að skoða. Við syntum í gegnum mannhafið og komum við á þéttskipuðum básum sem seldu allt frá matvöru til “Chanel” veskja. Við fórum á markaðinn með eitt markmið í huga en það var: “Mission USB lyklakaup fyrir Áslaugu”. Eftir dálitla leit var köfnunartilfinningin og innilokunarkenndin orðin það mikil að við drifum okkur út úr markaðsgeðveikinni án þess að ná markmiðinu. Við rákumst þó á litla raftækjabúð/apótek í nágrenninu en þar fann Áslaug 32 GB gylltan og krúttlegan kubb. Steinar tölvugúrú varaði hana við að kaupa tölvuvörur frá óþekktum framleiðanda en eftir miklar vangaveltur ákváð hún að hunsa ráðin og fjárfesta í gripnum. Glöð í bragði og ánægð með þau miklu reyfarakaup sem hún hafði gert fyrr um daginn byrjaði hún að hlaða á kubbinn en þá kom babb í bátinn. Hann hafði 0 GB geymslurými og því algjörlega ónothæfur. Eldsnemma morgunninn eftir fór Áslaug því bálreið í búðina og tilbúin að segja sölumanninnum til syndanna en hún kom að tómu búi þar sem búðin reyndist vera lokuð og læst og opnaði ekki fyrr en nokkrum tímum seinna. Við þurftum þó að ná flugi og þótti okkur það örlítið mikilvægara en að öskra og æpa á malasískan svindlara. Áslaug þurfti því að sætta sig við að hafa keypt köttinn í sekknum og notar hún þennan rándýra minnislykil sem lyklakippu í dag.

Þrátt fyrir að hafa einungis stoppað í tvo daga í Kuala Lumpur fannst okkur það nóg til að skoða það helsta í borginni og vorum orðin spennt að halda áfram á næsta áfangastað, Singapore!

Tæland – Phuket og Phi Phi eyjar

Við komum seint til Phuket eftir langa rútuferð og ákváðum að rölta aðeins um Patong til að sjá hvort við vildum vera þar eða á einhverri annarri strönd. Fyrsti viðkomustaður var Bangla Road sem reyndist vera kolbrjáluð partýgata þar sem súludans og ping pong sýningar virtust vera í boði í öðru hverju húsi og þar á milli var einhver annars konar vafasöm starfsemi í gangi. Fyrir þá sem ekki vita þá eiga tælenskar ping pong sýningar ekkert sameiginlegt með ping pongi eins og við þekkjum það en þær fela í sér að sýningastúlkur nota sína allra heilugustu vöðva til að skjóta kúlum út um allar trissur og oftar en ekki er öðrum leikmunum bætt við til að krydda þetta örlítið meira. Það sem var einnig einkennandi fyrir Bangla Road voru vændiskonurnar sem röðuðu sér eftir götunni og þegar maður sá þær var nokkuð ljóst að gamlir vestrænir karlar með stórar bumbur væru sjaldnast langt frá.

Við ákváðum að fara í dagsferð til Phi Phi eyja en þar er Maya Bay þar sem kvikmyndin The Beach var tekin upp hér um árið. Við ferðuðumst með svakalegum hraðbáti sem þeyttist um sjóinn á ógnarhraða og áttum við í fullu fangi með að halda okkur kyrrum. Maya Bay er þekktur ferðamannastaður og virðast flestir Tælandsfarar leggja leið sína þangað. Dagurinn sem við fórum þangað var engin undantekning og var svo krökkt af túristum þar að okkur leið eins og við værum stödd í 17. júní skrúðgöngu á miðjum Laugaveginum  (fyrir utan hitann, sólina og ströndina). Fólksfjöldinn truflaði okkur þó ekki því Maya Bay er algjör paradísarstaður og augnakonfekt og mælum við með að allir fari þangað.

Þegar við vorum búin að skoða Maya Bay sigldum við um og skoðuðum það sem Phi Phi eyjar hafa upp á að bjóða. Við fengum einnig tækifæri til að snorkla, gefa öpum að borða og liggja í sólbaði.

Maríu og Steinari leist ekki nógu vel á geðveikina sem fylgdi Patong og ákváðu því að fara á rólegri strönd sem heitir Karon. Þar nutu þau lífsins, könnuðu nágrannasvæðið á vespu og brunuðu um sjóinn á sjóketti.

Áslaug og Eva héldu sig á Patong þar sem þær vildu kanna bæinn betur og kíktu út á lífið, fóru á markað og slöppuðu af. Þær skelltu sér einnig í skemmtiferð þar sem þær fóru á fílsbak, á fjórhljól, í river rafting, skoðuðu foss og fóru á undarlega apa- og fílasýningu þar sem dýrin voru látin sýna ýmsar listir eins og að hjóla, dripla körfubolta og húlla.

  

Næst á dagskrá var Kuala Lumpur en María og Steinar voru grand á því og flugu yfir á meðan Áslaug og Eva létu sig hafa rúmlega 20 tíma rútuferð.