Laos

Laos byrjaði á heldur betur skrautlegri flugferð með Vietnam Airlines. Í flugtaki tókum við eftir því að sumar handfarangursgeymslurnar voru ennþá opnar og flugþjónarnir of uppteknir í símunum sínum til að taka eftir því. Vatnsflöskur rúlluðu frjálsar um gangveginn, eftir því í hvora áttina vélin hallaði, og enn voru flugþjónarnir í símunum sínum þegar við lentum í Laos.  Flugvöllurinn sem við lentum á í Luang Prabang minnti á Egilsstaðaflugvöll, fyrir breytingu. Um var að ræða eina flugbraut og lítinn kofa með afar rólegri öryggisgæslu og krúttlegum púðlufíkniefnahundum.

Í Luang Prabang vorum við saman í herbergi með einkaklósetti. Minniháttar vandamál var stærðarinnar glerlaus gluggi milli baðherbergisins og herbergisins sem  takmarkað næði þar inni. Þó hafði það sína kosti að geta haldið spjallinu áfram þótt einhver væri í sturtu eða að sinna örðum verkefnum þar inni.

Luang Prabang er lítil og falleg borg við Mekong fljótið umkringd skógi vöxnum hlíðum. Við nutum þess að ganga óáreitt um næturmarkaðinn, skoða hof, hjóla í rólegheitunum um miðbæinn og fórum svo í sólseturssiglinu á Mekong fljótinu. Á þessum tímapunkti voru ferðlalangarnir aðeins þrír þar sem Eva var komin með einhverskonar matareitrun og sá þar af leiðandi ekki mikið af borginni.

Við pöntuðum okkur eina skipulagaða dagsferð sem byrjaði á kajaksiglinu niður Nam Khan ána að Tad Se fossinum.  Þar hittum við tvo stærðarinnar fíla sem báru okkur um svæðið. Fíllinn hans Steinar skeit nokkum fótboltum í fossinn og fíll stelpnanna var með unglingaveiki og gerði nákvæmlega það sem honum sýndist. Eftir að hafa kvatt fílana okkar böðuðum við okkur svo ofar í fossinum. Eftir það héldum við áfram á kajakönum niður ána við undurfagran söng leiðsögumannsins okkar sem söng vestræn popplög að mikilli innlifun með eigin textaútfærslum.

Næst lá leiðin í partýbæinn Vang Vieng en til þess að komast þangað lögðum við upp í 6 tíma bílferð í smárútu. Vegirnir voru verulega hlykkjóttir og skoppuðum við upp og niður í sætunum okkar alla leiðina. Sjá mátti merki um aurskriður með reglulegu millibili og voru vegirnir eftir því. Áslaug sat við hliðina á ofsaglöðum Laosbúa sem hló að öllu sem við sögðum og fylgdist spenntur með öllu sem fram fór í iPodinum hennar.

Eins og áður segir er Vang Vieng partýbær sem er gjörsamlega gegnsósaður af ferðamannaiðnaðinum. Allir veitingastaðirnir voru með flennistór sjónvörp sem sýndu ýmist Friends eða Family Guy allan daginn. Helsta íþrótt bæjarins er svokallað „tubing“ sem flest í því að fljóta á uppblásnum dekkjum milli skemmistaða við bakka Nam Song ánnar, sem liggur gegnum bæinn. Að sálfsögðu tókum við þátt í því og var það heldur betur fjörug upplifun. Ferðin byrjar á fyrsta barnum þar sem tekið var á móti okkur með ókeypis viskískoti. Við drukkum blandaða drykki úr sandkassafötum, sveifluðum okkur úr tarzanrólum út í ána, kepptum í limbó og kynntumst ýmsum ferðalöngum á leið okkar niður ána. Auk fríu viskískotanna, sem allstaðar voru í boði, var hægt að vinna sér inn frítt áfengi með því leysa hinar ýmsu þrautir, t.d. klifra eftir stálvír út í miðja ána og slá þar í fötu sem Steinar gerði með miklum sóma. Fyrir vikið hlaut hann fötu af glundri sem hann deildi vissulega með ferðafélögunum og nývinum sínum. Tíminn flaug áfram og fyrr en varði skall á myrkur. Þá uppgötvuðum við að dekkin okkar voru horfin og þá eru góð ráð dýr. Valið stóð á milli þess að fara dekkjalaus heim eða synda á næsta bar og stela dekkjunum okkar aftur. Hafa ber í huga að tryggingin okkar var í húfi, heilar 250 íslenskar krónur á mann. Að sjálfsögðu stungum við okkur til sunds í myrkrinu, létum draga okkur á land á bar númer 4 og endurheimtum dekkin okkar sigri hrósandi.

Fyrir utan tubing gerðum við fátt merkilegt í Vang Vieng fyrir utan að horfa á Friends og borða sveitta hamborgara. Engin hámenning hér á ferð en kærkomin skemmtun. Næst lá leiðin til Don Det sem er lítil eyja í Mekong fljótinu syðst í Laos, við landamæri Kambódíu. Rútuferðin þangað var samkvæmt áætlun 17 tímar en endaði á að vera 28 klukkustundir. VIP svefnrútan okkar var alls ekki eins og á myndum og tveggja manna kojurnar heldur litlar fyrir Íslendinga í fullri stærð. Blessunarlega er fjöldi okkar slétt tala og gátum við deilt rúmum, annað en ísraelski vinur okkar sem þurfti að kúra með laoskum karlmanni alla leiðina. Rútan bilaði stöðugt sem olli því að við misstum af rútunni okkar síðasta hluta leiðarinnar. Á endanum tókst okkur að fá hana endurgreidda og skipulögðum okkar eigin smárútu ásamt fleiri ferðalöngum í sömu vandræðum. Að lokum komumst við dauðþreytt á leiðarenda.

Eyjan Don Det var enn rólegri en Luang Prabang og minnti á Flatey. Þar eru engir bílar, enginn hraðbanki og óupplýstir moldarstígar lágu á milli staða. Við fundum ódýra og frumstæða gistingu í bungalow-kofum við Mekong fljótið sem höfðu hengirúm á veröndinni og fljölskrúðugt dýralíf. Í miðjum garðinum var sameiginlegt klósett og sturta þar sem María lenti í slímugri froskaárás í sinni fyrstu heimsókn. Eftir það líkaði henni verulega illa við froska og notaði klósettið eins sjaldan og hún komst upp með. 

Við fórum í ferð þar sem við skoðuðum skoðuðum Khone Phapheng fossinn sem er sá vatnsmesti í Suðaustur-Asíu. Hann minnti á efsta hlutann í Gullfossi og vakti passlega lítinn áhuga hjá okkur. Við sigldum svo yfir til Kambódíu þar sem við sáum afar sjaldgæfa Irrawaddy ferskvatnshöfrunga en þeir voru hinsvegar mjög feimnir við myndavélarnar okkar.

Seinnipart dagsins hjóluðum við um Don Det og yfir á Don Khon eyjuna. Þar hittum við brúarvarðmann sem sagði að við þyrftum að borga brúartoll ef við vildum komast yfir á Don Khon. Eftir að hafa skeggrætt málin og spurt aðra vegfarendur hvort að það væri þess virði að fara þarna yfir ákváðum við að slá til og borga 100 ISK á haus. Á Don Khon skoðuðum við annan foss og hjóluðum niður að strönd þar sem við rákumst á risastórt spikfeitt svín sem lá í mestu makindum sínum og sólaði sig. Steinari varð svo um og ó að hann var næstum dottinn þar sem hann hjólaði í rólegheitunum eftir ströndinni. 

Næst lá leiðin til Kambódíu sem við segjum frá í næstu færslu.

8 thoughts on “Laos

  1. Hvernig er það, eruð þið ekkert að ná að tana ykkur? 2 mánuðir og Steinar er ennþá fölur eins og tölvunjörðurinn sem hann er. Nema white balancinn sé eitthvað skringilega stiltur kannski.

  2. Juju Taeland hefur gert wonders fyrir okkur svo nu erum vid tonud i drasl (samt kannski ekki Steinar thvi hann fordast solina eins og mus fordast kyrkislongu). En thid thurfid samt ad lata ykkur hafa eina hvita faerslu i vidbot tvi ekki urdum vid brun i Kambodiu…

  3. While balancinn er í fínu lagi. Ég kýs að kalla þetta “passive approach” á sólböð. Þakinn í sólarvörn númer 30 reyni ég að stökkva á milli skuggafleta eins og það væri rigning. Sólin brennir tölvunjerði um leið og hún fær tækifæri til.

  4. hahhaha ég sem einmitt hugsaði þegar ég skoðaði myndirnar ,,núhhh steinar er bara komin með smá lit,, svona hugsum við hvíta fólkið.. merkilegt ef það sér bara smá brúnka á okkur ;)

  5. hæ hó, gaman að lesa bloggið ykkar og ennþa skemmtilegra að sjá hvað þið eruði dugleg að setja inn myndir. En núna er komin nóv, verð að fá að hera frá ykkur eruði ekki annars á lífi ?

  6. Datt inn á þetta blogg - ég var á þessum sömu slóðum fyrir mánuði síðan og elska Luang Prabang. Mikið ótrúlega er þetta flott blogg hjá ykkur og ég er að ELSKA myndirnar ykkar - þær eru frábærlega flottar. Hvernig myndavél eruð þ on said:
  7. Halló Inga Heiða, gaman að heyra frá þér! Skoðum bloggið þitt betur við tækifæri. Við setjum myndirnar úr öllum myndavélunum okkar saman og veljum svo úr því. Stelpurnar eru með ýmsar litlar vélar og svo er ég með töluvert stærri Canon EOS 5D og Canon EF 24-70mm F/2.8L linsu. Um 2.5kg en algjörlega þess virði =)

Leave a Reply

Your email address will not be published.

You may use these HTML tags and attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <strike> <strong>